Icelandic
Birt: 2024-02-12 16:57:45 CET
Reitir fasteignafélag hf.
Ársreikningur

REITIR - Ársreikningur 2023

Stjórn Reita fasteignafélags hf. hefur samþykkt ársreikning samstæðunnar fyrir árið 2023.

Lykiltölur rekstrar 2023 2022
Leigutekjur 15.107 13.481
Rekstrarkostnaður fjárfestingareigna 4.126 3.590
Stjórnunarkostnaður1 775 729
Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu1 10.206 9.162
Matsbreyting fjárfestingareigna 10.750 1.807
Rekstrarhagnaður 20.900 10.969
Hrein fjármagnsgjöld 10.850 10.677
Heildarhagnaður 7.496 675
Hagnaður á hlut 10,2 kr. 0,9 kr.
     
Lykiltölur efnahags 31.12.2023 31.12.2022
Fjárfestingareignir 189.971 172.270
Handbært og bundið fé 1.408 871
Heildareignir 193.381 174.880
Eigið fé 60.273 56.104
Vaxtaberandi skuldir 108.432 97.087
Eiginfjárhlutfall 31,2% 32,1%
Skuldsetningarhlutfall 58,9% 58,3%
     
Lykilhlutföll 2023 2022
Nýtingarhlutfall (tekjuvegið) 95,8% 95,1%
Arðsemi eigna 6,0% 5,8%
Rekstrarhagnaðarhlutfall 1 64,7% 64,6%
Rekstrarkostnaðarhlutfall 26,2% 25,3%
Stjórnunarkostnaðarhlutfall 1 4,9% 5,1%

1 Án einskiptiskostnaðar
Fjárhæðir eru í milljónum króna nema annað sé tekið fram.
Hlutföll í rekstrarreikningi eru reiknuð sem hlutfall heildartekna.

Guðjón Auðunsson, forstjóri:

„Eins og áður grundvallast stöðugur rekstur Reita af sterku og stöðugu fjárflæði frá útleigu til öflugra viðskiptavina. Tekjuflæðið nýtist síðan meðal annars til fjárfestinga í þróun húsnæðis, viðhalds- og endurbótaverkefna, fasteignakaupa og greiðslu arðs til hluthafa.

Uppskeran af fjárfestingaverkefnum á árinu 2023 var mjög góð. Til dæmis skilaði fyrsta rekstrarár Kúmen í Kringlunni stórauknum gestafjölda í húsið og Holtagarðar tóku stakkaskiptum með fimm nýjum verslunum. Stækkun vöruhúss Aðfanga um 2.700 fermetra var liður í framlengdum leigusamningi um húsnæði í Skútuvogi til Haga og Pósthús Foodhall í miðbænum hefur reynst vinsælt.

Vegferðin heldur áfram og helstu verkefnin eru uppbygging hótels við Laugaveg 176, áframhaldandi uppbygging 7.000 fermetra sérhæfðs spítalahúsnæðis við Ármúla 7-9 og mikilvægir áfangar munu klárast í skipulagningu fyrsta áfanga Kringlureitsins á síðari hluta árs 2024. Þá er reiknað með að gatnagerð hefjist á næstu mánuðum í Korputúni, nýju 90 þúsund fermetra atvinnuhverfi sem Reitir eru með í mótun á mörkum Mosfellsbæjar og Reykjavíkur.

Sjálfbærni og umhverfismál eru ofarlega í huga Reita. Með ábyrgri sýn á þróunarverkefni þar sem sjónarmið um uppbyggingu samfélags, umhverfisvernd og arðbærni eru lykilþættir geta Reitir haft hvað mest áhrif til góðs. Enda verður stór hluti kolefnisspors bygginga til á uppbyggingartíma. Með þetta í huga hafa Reitir lagt áherslu á að þróun á vegum félagsins fylgi stöðlum viðurkenndra umhverfisvottunarkerfa. Deiliskipulag Korputúns, sem tók gildi á árinu 2023, er á lokastigum BREEAM Communities vottunarferlis og Kringlureitur er skipulagður út frá kröfum sama staðals. Hóteluppbyggingin fer fram samkvæmt BREEAM Construction staðlinum.

Árs- og sjálfbærniskýrsla Reita fyrir árið 2023 er komin út á www.arsskyrsla2023.reitir.is. Í henni má finna ítarupplýsingar um þróunarverkefni, leigutaka, fasteignir og leigusamninga félagsins ásamt upplýsingum um áherslur í sjálfbærnimálum á árinu.“

Nýr forstjóri Reita fasteignafélags

Í byrjun desember greindi Guðjón Auðunsson forstjóri Reita frá ákvörðun sinni um segja starfi sínu lausu en Guðjón hefur gengt stöðu forstjóra Reita síðan árið 2010. Guðni Aðalsteinsson hefur verið ráðinn í starfið og tekur hann við því þann 1. apríl n.k.

Guðni er með B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og MBA gráðu frá háskólanum í Cambridge. Hann hefur jafnframt lokið diplómu í fjárfestingum frá Harvard viðskiptaháskólanum og er um þessar mundir í doktorsnámi við UBIS viðskiptaháskólann í Genf.

Guðni hefur víðtæka reynslu af rekstri  og stjórnunarstörfum. Hann kemur til Reita frá Doha Bank, þriðja stærsta viðskiptabanka Katar, þar sem hann gegndi stöðu forstjóra og þar áður stöðu framkvæmdastjóra fjárfestinga og fjárstýringar bankans. Hann hefur á ferli sínum gegnt fjölþættum stjórnunarstöðum á Íslandi, Englandi, Þýskalandi og Katar.

Horfur ársins

Horfur ársins 2024 eru óbreyttar, gert er  ráð fyrir tekjum á bilinu 15.900 - 16.100 m.kr. og að rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu verði á bilinu 10.900 - 11.100 m.kr.

Forsendur matsins eru um 6% hækkun verðlags milli ára, að nýtingarhlutfall ársins 2024 verði sambærilegt við nýtingu ársins 2023 og að fasteignagjöld verði lægri að raunvirði

Félagið áformar áframhaldandi fjárfestingar innan eignasafnsins sem og kaup nýrra tekjuberandi eigna ef tækifæri gefast.

Nánari upplýsingar og kynningarfundur

Reitir bjóða markaðsaðilum og fjárfestum á kynningarfund þar sem Guðjón Auðunsson, forstjóri, og Einar Þorsteinsson, fjármálastjóri, munu kynna uppgjörið.

Fundurinn verður haldinn kl. 8:30, þriðjudaginn 13. febrúar n.k. á skrifstofu Reita, Kringlunni 4-12, 103 Reykjavík. Fundinum er jafnframt streymt í gegnum netið á slóðinni https://vimeo.com/event/4072633/embed/5a3046d525/interaction.

Fjárfestar sem fylgjast með streymi geta sent spurningar sem óskað er eftir að verði teknar fyrir á fundinum á netfangið fjarfestatengsl@reitir.is.

Aðalfundur 2024

Aðalfundur félagsins verður haldinn kl. 15.00, miðvikudaginn 6. mars 2024 á Hotel Reykjavik Natura, Nauthólsvegi 52, 102 Reykjavík

Um Reiti

Reitir fasteignafélag er íslenskt hlutafélag. Samstæða félagsins samanstendur af móðurfélaginu, Reitum fasteignafélagi hf., ásamt dótturfélögum, sem öll eru að fullu í eigu móðurfélagsins. Starfsemi félagsins felst í eignarhaldi, útleigu og umsýslu atvinnuhúsnæðis, sem er að stærstum hluta verslunar- og skrifstofuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Fasteignir í eigu félagsins eru um 135 talsins, um 460 þúsund fermetrar að stærð.

Meðal fasteigna félagsins má nefna stærstan hluta verslunarmiðstöðvarinnar Kringlunnar, Spöngina og Holtagarða, skrifstofubyggingar við Höfðabakka 9 og Vínlandsleið ásamt húsnæði höfuðstöðva Icelandair Group, Sjóvár, Origo og Advania og skrifstofu Landspítalans við Skaftahlíð 24. Hótelbyggingar í eigu Reita eru m.a. Hótel Borg og Hotel Hilton Reykjavík Nordica ásamt Berjaya Hotel Reykjavík Natura. Stærstu leigutakar Reita eru Hagar, Berjaya, ríki og sveitarfélög. Þá heldur félagið á nokkrum verðmætum byggingarreitum.

Upplýsingar veita Guðjón Auðunsson, forstjóri, í síma 575 9000 eða 660 3320, og Einar Þorsteinsson, fjármálastjóri, í síma 575 9000 eða 669 4416.

ViðhengiReitir fasteignafelag 31.12.2023 - arsreikningur.pdf
Reitir fasteignafelag 31.12.2023 - kynning.pdf