Fly Play hf.: Farþegum fjölgaði um 61% frá fyrra ári og sætanýting í janúar var 75% Farþegum fjölgaði um 61% frá fyrra ári og sætanýting í janúar var 75% Flugfélagið PLAY flutti 99.704 farþega í janúar 2024, sem er 61% aukning frá janúar 2023 þegar PLAY flutti 61.798 farþega. Sætanýting í janúar var 75%, samanborið við 77% í janúar 2023. PLAY hafði áður tilkynnt að ónákvæmur fréttaflutningur af jarðhræringum á Reykjanesskaga hefði haft neikvæð áhrif til skemmri tíma á eftirspurn eftir flugferðum til Íslands. Í janúar 2024 hafa þó ný sölumet verið sett sem gefa góðar vísbendingar um að eftirspurnin hafi náð sér aftur. Bókunarstaðan lítur vel út fyrir árið 2024 og hefur tekið framförum samanborið við fyrri ár. Heildarhliðartekjur á farþega halda áfram að aukast og í því samhengi er vert að nefna 21% aukningu í janúar frá fyrra ári. Af þeim farþegum sem flugu með PLAY í janúar 2024 voru 27,1% á leið frá Íslandi, 31,1% voru á leið til Íslands og 41,8% voru tengifarþegar (VIA). Stundvísi PLAY í janúar var 78,1% en þar höfðu áhrif lægðir sem gengu yfir Ísland og röskuðu flugáætlun. Nýr áfangastaður, stóraukin þjónusta við tengifarþega og verðlaun fyrir yngsta flotann PLAY hóf miðasölu á áætlunarferðum til strandborgarinnar Split í Króatíu í janúar. Fyrsta flug PLAY til Split verður 28. maí en flogið verður þangað einu sinni í viku á þriðjudögum yfir sumarmánuðina. Þetta verður í fyrsta sinn sem áætlunarferðum verður haldið úti á milli Íslands og Split og er þetta jafnframt fyrsti áfangastaður PLAY í Króatíu. Þá býðst nú tengifarþegum PLAY að bóka sjálfir dvöl á Íslandi án aukakostnaðar þegar þeir fljúga á milli Norður-Ameríku og Evrópu. Með tilkomu nýs viðmóts, sem sett var í loftið í janúar, geta farþegarnir sjálfir klárað slíka bókun á vef PLAY og þar með dvalið á Íslandi í allt að tíu daga áður en þeir halda för sinni áfram yfir Atlantshafið. PLAY leggur mikið upp úr því að bjóða samkeppnishæf verð á sínum mörkuðum og með þessari þjónustu eiga ferðamenn kost á að heimsækja tvö lönd án þess að greiða aukalega fyrir það í bókunarvél flugfélagsins. Ch-aviation verðlaunaði PLAY fyrir yngsta flota Evrópu annað árið í röð nú í janúar. Meðalaldur farþegaþota í flota PLAY er 3,51 ár samkvæmt útreikningum ch-aviation. Þessi ungi meðalaldur flugflota PLAY tryggir hagkvæmari eldsneytisnotkun sem og þægilegri og öruggri för farþega flugfélagsins. PLAY mun birta ársuppgjör sitt 8. febrúar. Fjárfestakynning verður í beinu streymi klukkan 8:30 föstudaginn 9. febrúar.
|