Icelandic
Birt: 2022-04-22 14:00:00 CEST
Reykjavíkurborg
Ársreikningur

Reykjavíkurborg - Ársreikningur 2021

Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2021 var lagður fyrir borgarráð í dag 22. apríl og vísað til fyrri umræðu í borgarstjórn þann 26. apríl næstkomandi.  

Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta Reykjavíkurborgar á árinu 2021 var jákvæð um 23,4 ma.kr. en áætlanir gerðu ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu um 3,3 ma.kr. Betri niðurstaða skýrist einkum af matsbreytingu fjárfestingaeigna hjá Félagsbústöðum 19,4 ma.kr. umfram áætlun, áhrifum af gangvirðisbreytingum innbyggðra afleiða í raforkusölusamningum Orkuveitu Reykjavíkur sem námu 6,6 ma.kr. á árinu og auknum rekstrartekjum.  Rekstrartekjur A- og B-hluta námu samtals 202,6 ma.kr. á árinu eða 7,4 ma.kr. yfir  áætlun.  Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 20,8 ma.kr., sem er 11,9 ma.kr. betri niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir.  Heildareignir A- og B-hluta samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi námu í árslok samtals 790,6 ma.kr. og heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 407,3 ma.kr.  Eigið fé nam 383,3 ma.kr., en þar af nam hlutdeild minnihluta 14,3 ma.kr.  Eiginfjárhlutfall er nú 48,5% en var 46,9% um síðustu áramót.

Fjárfestingar í rekstrarfjármunum og óefnislegum eignum námu 40,5 ma.kr. og voru 15,4 ma.kr. lægri en áætlun gerði ráð fyrir. Helstu ástæður lægri fjárfestinga má rekja til seinkunar verkefna hjá A-hluta sem nemur 9,3 ma.kr., seinkunar á endurbyggingu húsnæðis OR að Bæjarhálsi 1 og færri vinnsluholum vegna betri stöðu gufuforða í virkjunum.

Rekstrarniðurstaða A-hluta á árinu 2021 var neikvæð um 3,8 ma.kr. eða 8,1 ma.kr. betri en áætlun gerði ráð fyrir.   Betri afkoma A-hluta skýrist einkum af hærri staðgreiðslu útsvars og betri ávöxtunar eigna lífeyrissjóðs LsRb en á móti kom aukinn launakostnaður sem að hluta má rekja til Covid aðgerða í leikskólum, grunnskólum og velferðarþjónustu, innleiðingar á betri vinnutíma auk stuðnings- og stoðþjónustu.  Rekstrartekjur A-hluta voru 7,7 ma.kr. yfir áætlun. Útsvarstekjur voru 6,3 ma.kr. betri en áætlun gerði ráð fyrir. Laun og launatengd gjöld voru 4,8 ma.kr. yfir fjárheimildum.  Lækkun lífeyrisskuldbindingar vegna LsRb nam 0,2 ma.kr. tekjufærslu og var 3,7 ma.kr. undir áætlun.  Heildareignir A-hluta samkvæmt efnahagsreikningi námu í árslok samtals 236,5 ma.kr. og heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 144,6 ma.kr.  Eigið fé nam 91,9 ma.kr.

Rekstur Reykjavíkurborgar skiptist í A-hluta og B-hluta. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Um er að ræða Aðalsjóð, sem heldur utan um rekstur fagsviða og Eignasjóð.

Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu borgarinnar, en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtækin eru:  Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Slökkvilið höfuðborgar­svæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf., Jafnlaunastofa sf. og Þjóðarleikvangs ehf.

Reykjavík, 22. apríl 2022.

Nánari upplýsingar veitir
Halldóra Káradóttir sviðsstjóri fjármála- og áhættustýringarsviðs
halldora.karadottir@reykjavik.is

Viðhengi



Arsreikningur Reykjavikurborgar 2021.pdf
Skyrsla Fjarmala- og ahttustyringarsvis me arsreikningi 2021.pdf