Icelandic
Birt: 2022-05-05 17:48:03 CEST
Vátryggingafélag Íslands hf.
Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

VÍS: Uppgjör 1. ársfjórðungs 2022

Árshlutareikningur félagsins fyrir fyrsta ársfjórðung 2022 var staðfestur af stjórn og forstjóra á stjórnarfundi þann 5. maí  síðastliðinn.

Helstu niðurstöður 1F 2022

  • Hagnaður tímabilsins eftir skatta var 73 milljónir kr., samanborið við hagnað upp á 1.904 milljónir kr. á sama tímabili 2021
  • Tap af vátryggingarekstri tímabilsins nam 243 milljónum kr., samanborið við 405 milljóna kr. tap á sama tíma í fyrra
  • Samsett hlutfall fjórðungsins var 106,1%, en var 108,0% á sama tíma í fyrra
  • Iðgjöld tímabilsins voru 5.696 milljónir kr., í samanburði við 5.520  milljónir kr. á 1F 2021
  • Tekjur af fjárfestingarstarfsemi voru 366 milljónir kr., samanborið við 2.484 milljónir kr. á sama tímabili 2021

Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS:

„Almennt og yfirleitt er fyrsti ársfjórðungur hvers árs tjónaþungur. Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs var tíðin erfið og mikið um smærri tjón ─ en þó var ekkert stórtjón. Samsett hlutfall fjórðungsins var 106% en 108% á sama tíma í fyrra. Þess ber að geta að horfur fyrir árið eru óbreyttar ─ og gert er ráð fyrir að samsett hlutfall ársins 2022 verði á bilinu 95-97%. Hagnaður tímabilsins eftir skatta nam 73 milljónum króna.

Áhersla á sókn og sölu

Nýlega sögðum við frá skipulagsbreytingum hjá félaginu. Að umbreyta aldargömlu tryggingafélagi í stafrænt þjónustufyrirtæki kallar á sífelldar breytingar, ekki síst á skipulagi félagsins. Vegferðin og markmiðin eru skýr. VÍS er stafrænt þjónustufyrirtæki sem breytir því hvernig tryggingar virka. Félagið er í forystu tryggingafélaga á Íslandi með þróun sjálfvirkra þjónustuferla og stafrænna lausna. Áherslan fram á veg verður á sókn ─ og arðsemi í tryggingarekstri.

Horft til tækifæra á markaði

Á síðasta aðalfundi var gert að umtalsefni þau fjölmörgu tækifæri sem fylgja breyttu umhverfi. Félagið er með öflugan viðskiptavinagrunn og tæknigrunn ─ sem og sterka stöðu á tryggingamarkaði. Þetta eru góðir styrkleikar fyrir frekari vöxt. Við erum orðin fjártæknifyrirtæki ─ og á þeim grunni getum við gert ennþá meira. Breytingar í umhverfinu bjóða upp á tækifæri til vaxtar.

Sveiflur á eignamörkuðum

Fjórðungurinn einkenndist af sveiflum á eignamörkuðum vegna ástandsins í Evrópu. Ávöxtun fjáreigna nam 0,8%  eða 366 milljónum króna í fjárfestingartekjur. Skráð hlutabréf hækkuðu um 1,7% og er það í takt við hækkun vísitölu yfir sama tímabil. Lækkun á óskráðum hlutabréfum litar fjórðunginn en virði Controlant var lækkað um 250 milljónir króna eða 23%. Ríkisskuldabréf skiluðu neikvæðri afkomu í fjórðungnum en góð afkoma var af öðrum skuldabréfum.

Ökuvísir vinnur til verðlauna

Rúmt ár er síðan við kynntum Ökuvísi til leiks. Á þeim tíma höfum við séð að viðskiptavinir okkar, sem eru með Ökuvísi, hafa bætt akstur sinn umtalsvert meira en upphaflegar áætlanir okkar gerðu ráð fyrir. Betri akstur leiðir til færri slysa og tjóna og því sáum við svigrúm í upphafi árs til að lækka verð enn frekar hjá þeim sem keyra vel. Verðskrá fyrir bílatryggingar hefur aldrei verið jafn skýr og gagnsæ. Öruggur akstur margborgar sig. Svo erum við stolt af því að Ökuvísir hafi nýlega hlotið tvenn verðlaun á Íslensku vefverðlaununum. Ökuvísir var valinn app og tæknilausn ársins! Við ætlum að breyta því hvernig tryggingar virka ─ og Ökuvísir er svo sannarlega gott dæmi um það.“

Kynningarfundur

Kynningarfundur vegna uppgjörsins fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn föstudaginn 6. maí, klukkan 8:30 í húsnæði félagsins, Ármúla 3. Helgi Bjarnason, forstjóri félagsins, mun kynna uppgjörið og svara spurningum.  Kynningarefni fundarins verður hægt að nálgast hér: https://www.vis.is/fjarfestaupplysingar/   

Hægt verður að fylgjast með fundinum í beinu streymi og nálgast upptöku að honum loknum á vefslóðinni: https://vis.is/1-arsfjordungur-2022/

Fjárhagsdagatal 

Annar ársfjórðungur  2022  ||  18. ágúst 2022
Þriðji ársfjórðungur  2022 ||  20. október 2022

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Erla Tryggvadóttir, samskiptastjóri VÍS, í síma 660-5260 eða með netfanginu erlat@vis.is

ViðhengiVIS. Afkomutilkynning 1F 2022.pdf
VIS - Samstuarshlutareikningur 31.3.2022.pdf