English Icelandic
Birt: 2024-10-24 17:50:00 CEST
Fly Play hf.
Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

Fly Play hf.: Uppgjör 3. ársfjórðungs 2024

Fly Play hf.: Uppgjör 3. ársfjórðungs 2024

  • PLAY flutti 521 þúsund farþega á þriðja ársfjórðungi 2024 og sætanýting var 89%.
  • Stundvísi mældist 89% sem er bæting frá 85% á sama tíma í fyrra en PLAY er sem fyrr stundvísasta flugfélagið á Keflavíkurflugvelli.
  • PLAY skilaði hagnaði upp á 3,6 milljónir bandaríkjadala á þriðja ársfjórðungi, eða um 500 milljónir íslenskra króna.
  • Sætanýting jókst og hliðartekjur voru stöðugar á þriðja ársfjórðungi en sætaframboð dróst hins vegar saman um 5% og tekjur af meðalflugfargjaldi drógust saman um 9% vegna aukinnar samkeppni á flugi yfir Atlantshafið. Fyrir vikið drógust heildartekjur á þriðja ársfjórðungi þessa árs saman um 8,8% frá því í fyrra, eða úr 110,2 milljónum bandaríkjadala í 100,5 milljónir bandaríkjadala.
  • Lausafjárstaða félagsins var 39,8 milljónir bandaríkjadala við lok ársfjórðungsins og hefur því aukist um 0,6 milljónir bandaríkjadala á milli ára. Leigugreiðslum vegna flugvéla PLAY er þannig háttað að þær eru hærri yfir sumartímann en lægri á veturna. Lækkun leigugreiðslna yfir vetrarmánuðina 2024-2025 er sem nemur 4,3 milljónum bandaríkjadölum miðað við síðasta ár.
  • Kostnaður á hvern sætiskílómetra (CASK) var áfram 5,3 bandaríkjasent en kostnaður á hvern sætiskílómetra að undanskildu eldsneyti (CASK ex-fuel) var 3,5 bandaríkjasent sem er aukning frá 3,4 bandaríkjasentum vegna aukins framboðs og launakostnaðar.

  • Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) var 9,6 milljónir bandaríkjadala, 3,7 milljónum lægra en á þriðja ársfjórðungi 2023, sem má rekja til aukinnar samkeppni á flugi yfir Atlantshafið.
  • Uppfærð afkomuáætlun gefur til kynna að rekstrarafkoma félagsins fyrir allt árið 2024 verði lakari en í fyrra. Áhrif framboðsaukningar á flugi yfir Atlantshafið hafði meiri áhrif á stöðu félagsins en ætlað var. 
  • PLAY gerir viðamiklar breytingar á viðskiptalíkani sínu. Félagið mun draga úr tengiflugsleiðakerfi sínu sem hefur hingað til verið rekið með tapi og efla þess í stað arðbæra sólaráfangastaði félagsins frá Íslandi til Suður-Evrópu, Norður-Afríku og Asíu.
  • Samhliða ofangreindum breytingum hyggst félagið auka fjölbreytni í nýtingu flugflota síns með því að leigja hluta hans til annarra flugfélaga eða fljúga fyrir önnur félög.
  • Gert er ráð fyrir að nýtt viðskiptalíkan verði raungert að fullu á næstu 12-18 mánuðum. Að breytingunum loknum er gert ráð fyrir að sólarlandaflug félagsins telji um 35% af rekstrinum en var áður 25%, að leiguverkefni verði um 35% og að tengileiðakerfið verði um 30% en var áður 75%.

  • Fjárhagsstaða flugfélagsins er traust og sterkari en á sama tíma í fyrra. Til skoðunar er engu að síður að auka hlutafé félagsins og eftir atvikum sækja fjármögnun í tengslum við nýtt flugrekstrarleyfi sérstaklega.

Einar Örn Ólafsson, forstjóri

„PLAY hefur tilkynnt áform sín um að gera grundvallarbreytingar á viðskiptalíkani sínu sem mun draga töluvert úr tengiflugsleiðakerfi félagsins um Keflavíkurflugvöll. Á sama tíma mun félagið efla beint flug til áfangastaða við Miðjarðarhafið og annarra sólaráfangastaða ásamt því að starfrækja u. þ. b. þriðjung af flotanum á vegum annarra aðila. Eftir að hafa náð betri afkomu á nánast öllum mörkuðum á milli ára breyttist sú þróun til hins verra á árinu 2024. Framboð á flugi yfir Atlantshafið jókst til muna í sumar með aukinni samkeppni og því seldust sæti á lægra verði en ella sem hafði áhrif á tekjur á hvern framboðinn sætiskílómetra á þessum hluta leiðakerfisins. Þótt greiningar okkar gefi til kynna að framboðsaukning á árinu 2025 verði ekki hliðstæð hefur PLAY ákveðið að þessi hluti leiðakerfisins sé ólíklegur til að skila nægilegum hagnaði í framtíðinni með núverandi fyrirkomulagi.

Á sama tíma hefur beint flug til sólaráfangastaða verið arðbært frá upphafi. Hlutfallslegur hagnaður hefur verið stöðugur þrátt fyrir aukið framboð og engin ástæða til að halda að breyting verði þar á. Breytingarnar sem við kynnum núna eru því augljós sókn á fyrirliggjandi tækifæri. Félagið telur að með því að draga umtalsvert úr tengiflugsleiðarkerfinu, sér í lagi yfir vetrarmánuðina, séu tækifæri til að ná þar algjörum viðsnúningi á afkomu. Umrætt sólarlandaflug ásamt smækkaðri útgáfu tengiflugsleiðakerfisins, stendur ekki undir framleiðslugetu allra tíu véla PLAY. Þess vegna hefur félagið ákveðið að starfrækja hluta flugvélaflotans fyrir aðra aðila í gegnum nýtt maltneskt flugrekstrarleyfi sem gert er ráð fyrir að verði frágengið í vor.

Þetta eru miklar breytingar á grundvallarrekstri PLAY en flugfélagið verður áfram íslenskt fyrirtæki, með höfuðstöðvar og helstu starfsemi á Íslandi sem státar af framúrskarandi atvinnumönnum í sínu starfsliði. Við erum þess fullviss að þessar breytingar verða arðbærar og ég hlakka til að færa fjárfestum okkar og hörkuduglegu starfsfólki fréttir af stórbættri rekstrarniðurstöðu ásamt því að færa landsmönnum meiri sól á betra verði.“

Rekstartengdir mælikvarðar   3F 2024 3F 2023 Breyting
  Fjöldi fluga fjöldi 3,077 3,222 -145
  Fjöldi áfangastaða í rekstri fjöldi 32 33 -1
  Fjöldi flugvéla í rekstri fjöldi 10 10 0
  Stundvísi % 89% 85%  3.9 ppt
  Fjöldi farþega þús. 521 540 -19
  Sætiskílómetrar (ASK) millj. 1,725 1,821 -96
  Tekjur á farþegakílómetra (RPK) millj. 1,540 1,611 -71
  Meðallengd flugleggja (km) fjöldi 2,958 2,941 17
  Sætanýting % 89% 88% 0.8 ppt
  Fjöldi sæta í boði þús. 584 619 -36
     
Rekstrarreikningur        
  Rekstrartekjur millj. USD 100.5 110.2 -9.7
  Rekstrargjöld millj. USD 75.3 81.9 -6.6
  EBIT millj. USD 9.6 13.4 -3.7
  EBIT hlutfall % 9.6% 12.1%  -2.8 ppt
  Afkoma millj. USD 3.5 4.7 -1.2
     
Efnahagsreikningur        
  Heildareignir millj. USD 458.9 493.8 -34.9
  Heildarskuldir millj. USD 452.3 468.4 -16.1
  Eigið fé millj. USD 6.6 25.5 -18.9
  Eiginfjárhlutfall % 1.4% 5.2% -3.7 ppt
  Fé (handbært og bundið) millj. USD 39.8 39.2 0.6
     
Hlutabréf        
  Hlutabréfaverð í lok tímabils per bréf 2.0 8.8 -6.8
  Hagnaður á hlut US sent 0.2 0.8 -0.6
     
Lykilmælikvarðar        
  Flugtekjur per farþega USD 131 144 -12
  Hliðartekjur per farþega USD 58 58 0
  Heildartekjur per farþega USD 189 201 -12
  TRASK US sent 5.8 6.1 -0.3
  CASK (með eldsneytis- og kolefniskostnaði) US sent 5.3 5.3 -0.1
  CASK (án eldsneytis- og kolefniskostnaðar) US sent 3.5 3.4 0.1
  Grömm CO₂ per RPK gCO₂/RPK 56.2 56.9 -0.7
  CO₂ útblástur frá flugvélaolíu MT        86,466 91,578 -5,112

521 þúsund farþegar, 89% sætanýting og aukin ánægja viðskiptavina


PLAY flutti 521 þúsund farþega á þriðja ársfjórðungi 2024 en sætanýting var 89% á tímabilinu í samanburði við 88% á sama tíma í fyrra. Flugrekstur gekk vel á ársfjórðungnum en stundvísi PLAY mældist 89%, samanborið við 85% í fyrra. PLAY er enn og aftur stundvísasta flugfélagið sem flýgur frá Keflavíkurflugvelli. PLAY var með 10 farþegaþotur í rekstri á ársfjórðungnum sem flugu til 32 áfangastaða í Evrópu og Norður-Ameríku. Fjórir nýir áfangastaðir voru kynntir á þriðja ársfjórðungi 2024: Faro í Portúgal, Pula í Króatíu, Álaborg í Danmörku og Valencia á Spáni. 

PLAY er í samstarfi við Dohop Connect sem gerir PLAY kleift að tengja flugáætlun sína öðrum flugfélögum og bjóða þannig upp á nýjar flugleiðir. Á þriðja ársfjórðungi var samstarfið aukið enn frekar með því að fjölga samstarfsaðilum, þar á meðal easyJet, sem bætti 350 flugleiðum við framboðið. Tekjur af slíkum samstarfssamningum (virtual interline) jukust um 150% frá þriðja ársfjórðungi í fyrra. PLAY hefur einnig hafið samstarf við Sabre Corporation sem eykur til muna sýnileika PLAY og fleiri ferðaþjónustufyrirtæki hafa fyrir vikið beinan aðgang að áætlun flugfélagsins.

Ánægja viðskiptavina (NPS) mælist 17% betri á fyrstu níu mánuðum ársins 2024 í samanburði við sama tímabil í fyrra sem er í takt við aukna áherslu PLAY á endurgjöf viðskiptavina.

Þá hlaut PLAY Sjálfbærniásinn sem flugfélagið sem Íslendingar telja hafa jákvæðust áhrif á samfélagið en lenti í sjöunda sæti á lista yfir öll fyrirtæki á Íslandi.

Fjárhagsstaða

Heildartekjur á þriðja ársfjórðungi voru 100,5 milljónir bandaríkjadala, samanborið við 110,2 milljónir bandaríkjadala í fyrra. Á sama tíma dróst framboð á sætiskílómetrum (ASK) saman um 5,2% á milli ára. Tekjur af meðalflugfargjaldi drógust saman um 9% á milli ára sem rekja má til aukinnar samkeppni í flugi yfir Atlantshafið. Hliðartekjur námu 30,1 milljón bandaríkjadala og drógust því saman um 1,8 milljón bandaríkjadala frá fyrra ári. Samdráttur í hliðartekjum kemur þó heim og saman við samdrátt í farþegafjölda þar sem hliðartekjur á farþega í þriðja ársfjórðungi voru óbreyttar í 58 bandaríkjadölum.

Heildartekjur á hvern framboðinn sætiskílómetra (TRASK) voru 5,8 bandaríkjasent samanborið við 6,1 bandaríkjasent árið 2023. TRASK dróst þannig saman um 5% á milli ára vegna mjög aukins framboðs á flugi yfir Atlantshafið sem þrýsti niður verðlagningu félagsins. Arðbærir áfangastaðar PLAY í Evrópu náðu ekki að bæta upp fyrir tap á flugi til og frá Norður-Ameríku. TRASK jókst þó um 14% frá öðrum ársfjórðungi 2024. 

Kostnaður á hvern framboðinn sætiskílómetra (CASK) dróst saman um 1% á milli ára, úr 5,32 bandaríkjasentum í 5,26. Kostnaður á hvern framboðinn sætiskílómetra að undanskildu eldsneyti (CASK ex-fuel) jókst um 4% á milli ára, úr 3,39 bandaríkjasentum í 3,53 bandaríkjasent. Það má helst rekja til samdráttar í framboði á sætiskílómetrum en jafnframt hækkunar launa hjá félaginu.

Rekstrarniðurstaða (EBIT) var jákvæð um 9,6 milljónir bandaríkjadala á þriðja ársfjórðungi 2024 sem er 3,7 milljónum bandaríkjadala lakari niðurstaða en á sama tíma í fyrra þegar rekstrarniðurstaðan var 13,4 milljónir bandaríkjadala. Sætanýting jókst á milli ára en lægri tekjur á hvern farþega á flugi til og frá Norður-Ameríku dró úr jákvæðum áhrifum þeirrar þróunar og því er rekstrarniðurstaðan slakari árið 2024.

Lausafjárstaða PLAY í lok þriðja ársfjórðungs var 39,8 milljónir bandaríkjadala, að meðtöldum bundnum bankainnistæðum, sem er 0,6 milljón bandaríkjadala aukning frá því á sama tíma í fyrra og því er lausafjárstaða PLAY traust fyrir komandi vetrarmánuði. Að auki eru ýmsir þættir sem benda til þægilegri rekstrar á komandi vetri miðað við þann síðasta. Þar á meðal eru hærra TRASK horft fram á veginn, lægra olíuverð, tiltölulega stöðugt ástand á Reykjanesi og samningur um ACMI-leigu vélar í flota PLAY til Miami í vetur. Þar að auki er leigugreiðslum flugvéla PLAY nú þannig háttað að þær eru hærri yfir sumartímann en lægri á veturna. Lækkun leigugreiðslna yfir vetrarmánuðina 2024-2025 er sem nemur 4,3 milljónum bandaríkjadölum miðað við síðasta ár. PLAY hefur engar vaxtaberandi skuldir.

Horfur og nýtt viðskiptalíkan PLAY

PLAY boðar grundvallarbreytingar á viðskiptalíkani félagsins. Félagið mun draga úr tengiflugsleiðakerfi sínu sem hefur hingað til verið rekið með tapi og efla þess í stað arðbæra sólaráfangastaði félagsins frá Íslandi til Suður-Evrópu ásamt Norður-Afríku og Asíu. Samhliða ofangreindum breytingum hyggst félagið leigja út hluta flotans.

Afkoma PLAY af tengiflugi yfir Atlantshafið hefur valdið vonbrigðum, sérstaklega á yfirstandandi ári. Sá hluti leiðakerfisins sem snýr að beinu flugi á milli Íslands og Suður-Evrópu hefur verið vinsæll og arðbær frá upphafi.

Með nýju viðskiptalíkani verður dregið úr áfangastöðum PLAY í Norður-Ameríku og Norður-Evrópu frá miðju næsta ári. PLAY flýgur nú til fimm áfangastaða í Norður-Ameríku en gert er ráð fyrir að félagið fljúgi daglega til tveggja eða þriggja áfangastaða í Norður-Ameríku yfir sumarið og minna yfir vetrarmánuðina með nýju fyrirkomulagi. Að fyrirhuguðum breytingum loknum er gert ráð fyrir að sólarlandaflug félagsins telji um 35% af rekstrinum en var áður 25%, að leiguverkefni verði um 35% og að tengileiðakerfið verði um 30% en var áður 75%.

Samhliða þessum breytingum ætlar PLAY að framkalla hagfelldari nýtingu á ungum og eftirsóttum flugflota sínum með því að flytja hluta af honum úr landi. Félagið bregst við breyttum markaðsaðstæðum með nýjum verkefnum sem tengjast útleigu á flotanum og hefur því sótt um flugrekstrarleyfi á Möltu. Gert er ráð fyrir að flugrekstur undir nýju flugrekstrarleyfi hefjist vorið 2025. PLAY hefur engin áform um að hefja flug til og frá Möltu.

Flugvélar sem skráðar eru á Möltu verða leigðar samstarfsaðilum til lengri tíma, gjarnan með viðhaldi, tryggingum og áhöfnum (ACMI). PLAY er nú þegar í samningaviðræðum við félög um allan heim sem hafa áhuga á flugvélum félagsins og munu líklega starfrækja þær utan Íslands. Nýtt flugrekstrarleyfi er nauðsynlegt þar sem þessi verkefni þarfnast flugáhafna erlendis eigi þau að skila hagnaði.

Í stuttu máli mun íslenskt flugrekstrarleyfi PLAY starfrækja sex til sjö af tíu flugvélum flotans þar sem rúmlega helmingur þess sætaframboðs verður nýttur í beint flug til sólaráfangastaða og afgangurinn er nýttur í tengiflugsleiðakerfi yfir Atlantshafið. Yfir vetrarmánuðina mun hluti af því sætaframboði vera nýtt erlendis í ACMI-verkefni til skemmri tíma. PLAY mun starfrækja þrjár til fjórar flugvélar á nýju maltnesku flugrekstrarleyfi. Gert er ráð fyrir að ein af þeim verði staðsett á Tenerife og að hún fljúgi þá helst í beinu flugi til Reykjavíkur og Akureyrar. Hinar þrjár verða leigðar úr landi til lengri tíma. Gert er ráð fyrir að nýtt viðskiptalíkan verði að fullu tekið til notkunar á næstu 12-18 mánuðum.

Fjárhagsstaða flugfélagsins er traust og sterkari enn á sama tíma í fyrra. Til skoðunar er engu að síður að auka hlutafé félagsins og eftir atvikum sækja fjármögnun í tengslum við nýtt flugrekstrarleyfi sérstaklega. Nú er gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða PLAY fyrir allt árið 2024 verði lakari en í fyrra. Aukin samkeppni á flugi yfir Atlantshafið vorið og sumarið 2024 hafði meiri og neikvæðari áhrif en upphaflega var gert ráð fyrir.

Nánari upplýsingar

Einar Örn Ólafsson, forstjóri PLAY mun fara yfir niðurstöður félagsins fimmtudaginn 24. október klukkan 16:00 í Sykursal Grósku. Mun kynningin verða á ensku í vefstreymi á eftirfarandi slóð: https://www.flyplay.com/en/financial-reports-and-presentations.

Viðhengi



Fly Play hf. 3.arsfjorungur 2024.pdf
Fly Play hf. Condensed Interim Financial Statement 30.9.2024.pdf
Fly Play hf. Q3 2024 Investor presentation.pdf