Icelandic
Birt: 2021-08-19 17:57:35 CEST
Vátryggingafélag Íslands hf.
Árshlutareikningur - 6 mán.

VÍS: Uppgjör 2. ársfjórðungs 2021

Árshlutareikningur félagsins fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2021 var staðfestur af stjórn og forstjóra á stjórnarfundi þann 19. ágúst  2021.

Helstu niðurstöður 2F 2021

  • Hagnaður fjórðungsins eftir skatta var 2.599 milljónir kr. samanborið við 916 milljónir kr. á sama tíma í fyrra.
  • Hagnaður af vátryggingarekstri í fjórðungnum var 321 milljón kr. samanborið við 158 milljóna kr. tap á sama tímabili 2020.
  • Samsett hlutfall fjórðungsins var 95,3% en var 103,5% á sama tíma í fyrra.
  • Iðgjöld tímabilsins voru 5.649 milljónir kr. í samanburði við 5.641 milljón kr. á sama tíma í fyrra.
  • Tekjur af fjárfestingastarfsemi voru 2.574 milljónir kr. en voru 1.612 milljónir kr. á sama tímabili 2020.

Helstu niðurstöður fyrri helmings ársins 2021

  • Hagnaður tímabilsins er 4.503 milljónir króna í samanburði við 1.047 milljóna króna tap árið 2020 ─ sem er 5,5 milljarða króna viðsnúningur.
  • Arðsemi eigin fjár á fyrstu sex mánuðum ársins var 25,5% en var neikvæð um 7,4% á sama tímabili í fyrra.

Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS:

Frábær fjórðungur

„Ég er afar ánægður með afkomu félagsins í fjórðungnum. Fjárfestingarnar gengu vel og er árangurinn einn sá  besti frá skráningu félagsins. Fjárfestingatekjur námu 2,6 milljörðum króna eða 6% nafnávöxtun yfir tímabilið. Skráð hlutabréf skiluðu góðri afkomu eða 14,4% ávöxtun. Einnig var töluverð hækkun á óskráðum eignum félagsins, svo sem Controlant, Kerecis og Ölgerðinni. Tryggingareksturinn er í takt við væntingar en samsett hlutfall fjórðungsins er 95,3%.

Þróun tjónaskuldar

Undanfarna 18 mánuði höfum við innleitt nýja aðferðarfræði við mat á tjónaskuld. Áhrifin á fjórðungnum er 272 milljóna króna gjaldfærsla. Undirliggjandi tryggingarekstur er góður og hefði samsett hlutfall fjórðungsins verið 90,5% án þessara aðgerða. Þessi vinna hefur verið umfangsmikil og því er ég ánægður með að henni sé nú lokið. Á þessu tímabili hefur tjónaskuldin hækkað um rúma þrjá milljarða króna. Nú horfum við til eðlilegra matsbreytinga sem koma til vegna tjónaþróunar hverju sinni. Horfur fyrir árið í heild eru óbreyttar ─ en félagið gerir ráð fyrir að samsett hlutfall ársins verði á bilinu 97-99%.

Áframhaldandi viðsnúningur í afkomu félagsins

Hagnaður félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins er 4,5 milljarðar króna en á sama tímabili í fyrra var tap upp á rúman milljarð króna. Þetta er því viðsnúningur um 5,5 milljarða króna. Arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli er því yfir 50% ─ sem er frábær árangur.

Stafræn vegferð hlýtur alþjóðlega viðurkenningu

Við erum á stafrænni vegferð og ætlum okkur að breyta því hvernig tryggingar virka. Í upphafi árs kynntum við Ökuvísi til leiks sem er byltingarkennd nýjung í ökutækjatryggingum á Íslandi. Viðskiptavinum félagsins er verðlaunað fyrir góðan og lítinn akstur með lægri iðgjöldum. Þessari nýjung hefur verið vel tekið af viðskiptavinum félagsins. Við erum stolt af því að hafa hlotið alþjóðleg verðlaun fyrir Ökuvísi ─ en nýlega veitti Global Banking & Finance Review® okkur verðlaun fyrir framúrskarandi nýsköpun í þjónustu og vöruþróun. Þessi verðlaun veita okkur byr undir báða vængi ─ og staðfesta að við séum á réttri leið.

Framúrskarandi kaskótrygging með víðtæka vernd

Á fjórðungnum kynntum við til sögunnar stórbætta kaskótryggingu. Við teljum okkur nú bjóða upp á bestu kaskótrygginguna hér á landi, með víðtækustu vernd sem völ er á. Við höldum áfram að breyta því hvernig tryggingar virka ─ og nú erum við að umbylta kaupferli líf- og sjúkdómatrygginga. Við hlökkum til að kynna afrakstur þeirrar vinnu á næstu vikum.“

Horfur

Langtímamarkmið félagsins er að samsetta hlutfallið sé ekki hærra en 95% og arðsemi eigin fjár sé að lágmarki 15%. Farið verður yfir samsett hlutfall hvers ársfjórðungs í uppgjörum félagsins ásamt stöðu og horfum í rekstri félagsins. 

Horfur um samsett hlutfall ársins 2021 

Félagið gerir ráð fyrir að samsett hlutfall ársins 2021 verði á bilinu 97-99%.

Félagið mun tilkynna ef breytingar verða á horfum ársins um samsett hlutfall, s.s. vegna stórra tjóna eða annars sem hefur umtalsverð áhrif á rekstur félagsins, svo að verðmótandi teljist fyrir hlutabréf þess. 

Kynningarfundur

Kynningarfundur vegna uppgjörsins fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn föstudaginn 20. ágúst, klukkan 8:30 í húsnæði félagsins, Ármúla 3. Helgi Bjarnason, forstjóri, mun kynna uppgjörið og svara spurningum.

Hægt verður að fylgjast með fundinum á þessari slóð: https://vis.is/2-arsfjordungur-2021/ og þar verður einnig hægt að nálgast upptöku af fundinum. Kynningarefni fundarins verður hægt að nálgast á sömu slóð.  

Fjárhagsdagatal

Þriðji ársfjórðungur 2021 || 21. október 2021
Ársuppgjör 2021  ||  24. febrúar 2022
Aðalfundur 2022  ||  17. mars 2022

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Erla Tryggvadóttir, samskiptastjóri VÍS, í síma 660-5260 eða með netfanginu erlat@vis.is

Viðhengi



VIS. Afkomutilkynning 2F 2021.pdf
VIS - Samstuarshlutareikningur 30.06_2021.pdf