English Icelandic
Birt: 2023-02-15 18:02:55 CET
Sýn hf.
Ársreikningur

Sýn hf.: Bættur rekstur, batnandi horfur

Ársreikningur samstæðu Sýnar hf. fyrir árið 2022 var samþykktur á stjórnarfundi þann 15. febrúar 2023.

Rekstrarhagnaður (EBIT) Sýnar hf., nam 383 m.kr. á fjórða ársfjórðungi 2022 og hagnaður eftir skatta kr. 434 m.kr. Einskiptiskostnaður vegna rekstrarhagræðingar var gjaldfærður að fullu á fjórðungnum og nam 150 m.kr. auk þess sem launakostnaður vegna afturvirkra launahækkana nam tæplega 50 m.kr. á síðasta ársfjórðungi.

Rekstrarhagnaður ársins 2022 nam 1.592 m.kr. og hagnaður eftir skatt 888 m.kr. Tap var af rekstri félagsins árið 2021 sé tekið tillit til einskiptisliða, vegna sölu á óvirkum innviðum. Því er um umtalsverðan rekstrarviðsnúning að ræða í kjarnastarfsemi.

Samhliða uppgjöri ársins 2022 gefur Sýn út afkomuspá fyrir árið 2023. Gert er ráð fyrir að EBIT hagnaður félagsins á árinu 2023 nemi 2.200 til 2.500 m.kr.

Afkomuspá tekur ekki tillit til einskiptishagnaðar vegna sölu á stofnneti Sýnar til Ljósleiðarans, sem kemur þá til viðbótar. Væntingar standa til að viðskiptin klárist endanlega á fyrri helmingi þessa árs og að bókfærður hagnaður verði 2.436 m.kr. Leitast verður til þess að skila ávinningi sölunnar til hluthafa.

Stjórn félagsins mun leggja til við aðalfund að greiddur verði arður að upphæð 300 m.kr. vegna ársins 2022.

Helstu niðurstöður:

  • Tekjur á fjórða ársfjórðungi (4F) 2022 námu 5.791 m.kr. Tekjur ársins 2022 námu 22.983 m.kr. og hækka um 5,6%. Framlegð var 8.017 m.kr. árið 2022 og hækkar um 924 m.kr.
  • Hagnaður eftir skatta nam 888 m.kr. árið 2022. Tap var af rekstri félagsins árið 2021 að teknu tilliti til einskiptishagnaðar vegna innviðasölu.
  • Tekjuskattur árið 2022 var jákvæður að fjárhæð 142 m.kr. sem skýrist helst af skattalegri afskrift á viðskiptavild félagsins.
  • Heildarfjárfestingar ársins 2022 námu 3.992 m.kr. þar af eru fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum og óefnislegum eignum (án sýningarrétta) 1.681 m.kr. á móti 1.214 m.kr. á árinu 2021 og skýrist hækkun á milli ára að mestu af auknum krafti í 5G uppbyggingu. Fjárfestingar í sýningarréttum voru 2.291 m.kr og lækkuðu um 250 m.kr. milli ára. Lægri fjárfesting í sýningarréttum birtist í minni afskriftum í rekstrarreikningi og gera áætlanir félagsins ráð fyrir að sú þróun haldi áfram.
  • Undirritaður var samningur um kaup Ljósleiðarans á stofnneti Sýnar og langtíma þjónustusamningur milli félaganna þann 20. desember síðastliðinn. Með viðskiptunum mun árleg fjárfestingarþörf lækka um 120 m.kr. og árlegur rekstrarkostnaður um rúmlega 100 m.kr. Samið hefur verið um kaupverð að fjárhæð 3.000 m.kr. og verður bókfærður söluhagnaður 2.436 m.kr. og bókfærist að fullu við afhendingu. Væntingar eru um að samþykki fyrir sölunni fáist á öðrum ársfjórðungi þessa árs.

Yngvi Halldórsson, forstjóri:

“Viðsnúningurinn heldur áfram og árangur ársins góður. Við höfum unnið í að lækka kostnaðargrunn félagsins sem skilaði árangri og mun skila sér enn frekar á árinu 2023. Rekstrarhagnaður á fjórða fjórðungi var 383 m.kr. þrátt fyrir einskiptikostnað vegna hagræðingaaðgerða sem ráðist var í upp á 150 m.kr. og afturvirkar launahækkanir að fjárhæð 50 m.kr. í tengslum við nýgerða kjarasamninga. Það þýðir að heildar rekstrarhagnaður ársins er 1.592 m.kr.

Gerðar hafa verið talsverðar breytingar á rekstrinum á undanförnum mánuðum, skil skerpt milli rekstrareininga og unnið markvisst að því að lækka rekstrarkostnað félagsins á krefjandi tímum í efnahagslífinu. Hagræðing í rekstri félagsins hefur einnig falist í því að innleiða ný kerfi og tækni sem kosta minna til lengri tíma litið og tryggja örugg og sjálfbær fjarskipti. Við höfum ávallt lagt mikla áherslu á að fjárfesta í nýsköpun til að styðja við framþróun fyrirtækisins og nú horfum við enn frekar til sjálfbærni í því ljósi. Rekstur fjarskipta og fjölmiðla er í eðli sínu samfélagslega ábyrg starfsemi og eru því áhrif félagsins á samfélagið mikil. Við tökum hlutverki okkar alvarlega og horfum ríkulega til samfélags- og umhverfisþátta í starfseminni.

Við horfum björtum augun fram á veginn og erum í þeirri aðstöðu að gefa út afkomuspá sem ekki hefur verið gert undanfarin ár. Vonandi tryggir það ásamt meiri sýnileika einstakra rekstrareininga betri upplýsingagjöf út á markaðinn.

Ýmis jákvæð teikn eru á lofti fyrir árið 2023. Staða sjónvarpsáskrifta er góð, við höfum séð góð merki í fjölda internet viðskiptavina og notkun miðlanna okkar stendur gríðarlega vel hvort sem litið er til sjónvarps, útvarps, Vísis eða hlaðvarpa.“

Kynningarfundur 16. febrúar 2023

  • Opinn kynningarfundur vegna uppgjörsins verður haldinn fimmtudaginn 16. febrúar frá kl. 8.30 í húsnæði félagsins að Suðurlandsbraut 8, Reykjavík. Jafnframt verður hægt að fylgjast með fundinum í beinu streymi, en vefslóðin verður birt hér: https://syn.is/fjarfestatengsl/arshlutareikningar
  • Tekið er á móti fyrirspurnum og þeim svarað á fjarfestatengsl@syn.is

Viðhengi



635400KNUVGJX3I1S518-2022-12-31-is.zip
Syn hf. 2022 og 4F - Fjarfestakynning.pdf
Syn hf. Frettatilkynning 2022 og 4F.pdf
Syn hf. Samstuarsreikningur 2022.pdf