Kvika banki hf.: Afkoma fyrsta ársfjórðungs 2023 og afkomuspá fyrir næstu fjóra fjórðungaÁ stjórnarfundi þann 11. maí 2023 samþykktu stjórn og forstjóri árshlutauppgjör samstæðu Kviku banka hf. („samstæða Kviku“) fyrir tímabilið 1. janúar til 31. mars 2023. Helstu atriði úr árshlutareikningi fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2023 - Hagnaður fyrir skatta nam 1.412 milljónum króna
- Arðsemi efnislegs eigin fjár fyrir skatta var 13,1%
- Hagnaður á hlut nam 0,24 kr. á tímabilinu
- Heildareignir námu 313 milljörðum króna
- Eigið fé samstæðunnar var 80 milljarðar króna
- Arðgreiðsla að upphæð 1,9 milljörðum króna var samþykkt á aðalfundi í mars
- Gjaldþolshlutfall fjármálasamsteypunnar var 1,34 og eiginfjárhlutfall samstæðunnar án tryggingastarfsemi (CAR) var 23,6%
- Heildar lausafjárþekjuhlutfall (LCR) samstæðunnar var 327%
Heildareignir í stýringu námu 466 milljörðum króna Kynningarfundur fyrir hluthafa og markaðsaðila verður haldinn kl. 16:15 fimmtudaginn 11. maí í höfuðstöðvum bankans, á 9. hæð í Katrínartúni 2, 105 Reykjavík. Fundinum verður jafnframt streymt á íslensku á eftirfarandi vefslóð: https://kvika.is/kynning-a-uppgjori-3m-2023/ Meðfylgjandi er fjárfestakynning. Að auki mun upptaka með enskum texta vera gerð aðgengileg á vefsvæði Kviku. Hagnaður í samræmi við áætlanir Hagnaður Kviku fyrir skatta á fyrstu þremur mánuðum ársins 2023 nam 1.412 milljónum króna og var í samræmi við áætlanir þrátt fyrir að fjárfestingartekjur voru verulega undir áætlun. Arðsemi efnislegs eigin fjár (e. return on tangible equity) fyrir skatta var 13,1% á tímabilinu. Hreinar vaxtatekjur samstæðu Kviku námu 2.255 milljónum króna og jukust um 44% miðað við sama tímabil árið áður og má aukningu vaxtatekna helst skýra með útlánavexti og hækkandi vaxtastigi sem eykur vaxtatekjur af skuldabréfaeignum. Hreinar virðisbreytingar voru jákvæðar sem nemur 41 milljón króna samanborið við virðisrýrnun upp á 38 milljónir króna á fyrstu þremur mánuðum ársins 2022. Hreinar fjárfestingartekjur námu 218 milljónum króna samanborið við 808 milljónir á fyrstu þremur mánuðum 2022. Hreinar þóknanatekjur námu 1.588 milljónum króna sem er 3% lækkun frá fyrsta fjórðungi 2022. Rekstrarkostnaður nam 3.841 milljón króna á fyrstu þremur mánuðum ársins samanborið við 3.165 milljónir á fyrsta fjórðungi 2022. Aukninguna má meðal annars rekja til verðbólguáhrifa og aukins launakostnaðar, annars vegar vegna kjarasamningsbundinna og afturvirkra launahækkana og hins vegar vegna fjölgun stöðugilda hjá félaginu, sem hefur fjárfest í uppbyggingu innviða til þess að styðja við vöxt félagsins. Sterkur grunnrekstur af tryggingum Rekstur TM gekk vel á tímabilinu og nam samsett hlutfall TM 99,7% á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 101,0% á sama tímabili árið á undan. Sterkur efnahagur og há lausafjárstaða Heildareignir samstæðu Kviku jukust um 4% eða 13 milljarða króna á fyrsta fjórðungi 2023 og námu 313 milljörðum króna í lok mars. Útlán til viðskiptavina jukust um tæpa 3 milljarða króna á tímabilinu og námu 110 milljörðum króna í lok mars. Innstæður í bönkum og Seðlabanka ásamt ríkistryggðum verðbréfum námu 98 milljörðum króna en heildar lausafjáreignir voru 120 milljarðar króna og jukust um 3 milljarða króna á tímabilinu. Heildar lausafjárþekja (LCR) samstæðunnar án tryggingastarfsemi nam 327% í lok fjórðungsins sem var vel umfram 100% lágmarkskröfu eftirlitsaðila. Eigið fé samstæðunnar var 80 milljarðar króna í lok tímabilsins samanborið við 81 milljarða króna í lok 2022, en eigið fé lækkaði frá áramótum m.a. vegna ákvörðunar um arðgreiðslu. Gjaldþolshlutfall fjármálasamsteypunnar var 1,34 í lok fjórðungsins og áhættuvegið eiginfjárhlutfall samstæðunnar (CAR) án áhrifa TM nam 23,6%, en eiginfjárkrafa ásamt eiginfjáraukum eftirlitsaðila er 17,9%. Þessar tölur innihalda ekki ókannaðan hagnað fjórðungsins. Afkomuspá óbreytt Afkomuspá Kviku fyrir næstu fjóra fjórðunga gerir ráð fyrir 9,4 milljarða króna hagnaði fyrir skatta sem samsvarar 21,9% arðsemi á efnislegt eigið fé samstæðunnar. Nánari forsendur má sjá í meðfylgjandi fjárfestakynningu. Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku: „Rekstur Kviku gekk vel á fjórðungnum þrátt fyrir krefjandi markaðsaðstæður. Afkoma félagsins er í samræmi við áætlanir og sérstök áhersla hefur verið lögð á uppbyggingu innviða félagsins að undanförnu. Vátryggingareksturinn skilaði góðri afkomu á almennt tjónaþungu tímabili, iðgjaldavöxtur var í takt við verðlagsþróun og samsett hlutfall TM var 99,7% á fyrsta ársfjórðungi. Hreinar vaxtatekjur jukust um 44% frá fyrsta ársfjórðungi síðasta árs sem skýrist einkum af töluverðum útlánavexti og auknum vaxtatekjum af skuldabréfaeignum félagsins. Þóknanatekjur lækkuðu lítillega milli tímabila meðal annars vegna lægri árangurstengdra þóknana í eignastýringu. Þá hefur áframhaldandi órói á fjármálamörkuðum enn áhrif á fjárfestingartekjur. Grunnstoðir félagsins eru sterkar. Á fyrsta fjórðungi ársins lögðum við áfram áherslu á uppbyggingu sterkra innviða til þess að styðja við þann vöxt sem áætlaður er á næstu misserum með nýju og spennandi vöru- og þjónustuframboði. Unnið er að fjölmörgum verkefnum sem styðja við stefnu okkar um að auka samkeppni, einfalda fjármál viðskiptavina og umbreyta þannig fjármálaþjónustu á Íslandi. Straumur greiðslumiðlun, nýtt dótturfélag Kviku, framkvæmdi á dögunum fyrstu færslurnar fyrir viðskiptavini sína og þróun á uppfærslu Aur gengur vel en þar verður boðið upp á framsæknar nýjungar í banka- og vátryggingaþjónustu. Þá jukust innlán félagsins um 6% frá áramótum sem rekja má til áframhaldandi velgengni Auðar sem hefur haldið forystuhlutverki sínu og heldur áfram að bjóða viðskiptavinum góða vexti á innlánsreikningum. Samrunaviðræður við Íslandsbanka standa yfir og miðar vel. Eins og við höfum áður greint frá geta mikil tækifæri falist í samrunanum. Verkefnið er umfangsmikið og það eru mörg skref í svona ferli, en einsog tilkynnt var um í síðustu viku munu fjárhagslegir ráðgjafar skila greiningum sínum á öðrum ársfjórðungi og í kjölfar þess munu félögin taka ákvarðanir um næstu skref í ferlinu.“
|