Published: 2018-02-14 19:51:55 CET
Arion banki hf.
Ársreikningur

Afkoma Arion banka árið 2017

Vöxtur í grunntekjum

Hagnaður samstæðu Arion banka á árinu 2017 nam 14,4 milljörðum króna samanborið við 21,7 milljarða króna árið 2016. Arðsemi eigin fjár var 6,6% en var 10,5% á árinu 2016.

Heildareignir námu 1.147,8 milljörðum króna í árslok samanborið við 1.036,0 milljarða króna í árslok 2016 og eigið fé hluthafa bankans nam 225,6 milljörðum króna, samanborið við 211,2 milljarða króna í árslok 2016. Efnahagur bankans er sterkur og hefur mikil áhersla verið lögð á að tryggja lausafjárstöðu í tengslum við afnám fjármagnshafta og afborganna skuldabréfa sem eru á gjalddaga snemma árs 2018.

Eiginfjárhlutfall bankans var 24,0% í árslok en var 26,8% í árslok 2016. Hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 lækkaði og nam 23,6% samanborið við 26,1% í árslok 2016. Lækkun frá fyrra ári kemur einkum til vegna 25 milljarða króna arðgreiðslu eða kaupa á eigin bréfum, sem samþykkt var á hluthafafundi 12. febrúar sl. og framkvæmd verður á næstu vikum.

Helstu rekstrar- og kennitölur bankans eru eftirfarandi:

Í milljónum króna 2017  2016  Q4 2017 Q4 2016
Hreinar vaxtatekjur 29.835 29.900 7.265 7.842
Hreinar þóknanatekjur 15.357 13.978 4.654 3.765
Aðrar tekjur 8.186 10.668 2.005 2.578
Rekstrartekjur 53.378 54.546 13.924 14.185
Rekstrarkostnaður  (29.961)  (30.540)  (8.581)  (8.210)
Bankaskattur  (3.172)  (2.872)  (784)  (682)
Hrein virðisbreyting 186 7.236 1.448 409
Hagnaður fyrir skatta 20.431 28.370 6.007 5.702
Tekjuskattur  (5.806)  (6.631)  (1.735)  (1.227)
Afkoma af aflagðri starfsemi, eftir skatta  (206) 0  (206) 0
Hagnaður 14.419 21.739 4.066 4.475
          
Helstu kennitölur        
Arðsemi eigin fjár 6,6%  10,5%  7,3%  8,6% 
Hagnaður á hlut (í krónum) 7,20  10,57  2,02  2,19 
Vaxtamunur á vaxtaberandi eignir 2,9%  3,1%  2,7%  3,2% 
Kostnaðarhlutfall 56,1%  56,0%  61,6%  57,9% 

Helstu efnahags- og kennitölur bankans eru eftirfarandi:

Í milljónum króna 31.12.2017 31.12.2016 Breyt. Breyt.%
Lán til viðskiptavina 765.101 712.422 52.679 7%
Aðrar eignir 382.653 323.602 59.051 18%
Skuldir 922.021 824.640 97.381 12%
Eigið fé 225.733 211.384 14.349 7%
Útlán sem hlutfall af innlánum 165,5% 172,9%    
Áhættuvegnar eignir sem hlutfall af heildareignum 66,8% 72,0%    
Hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 23,6% 26,1%    

Varðandi ítarlegar fjárhagsupplýsingar vísast til ársreiknings samstæðu Arion banka fyrir árið 2017, sem birtur er á heimasíðu bankans, www.arionbanki.is.

 

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka

„Afkoma ársins 2017 er viðunandi þótt einskiptisatburðir setji nokkurn svip á árið. Grunnrekstur bankans er góður, tekjugrunnur er sterkur og fjárhagslegur styrkur mikill. Þetta gerir bankanum kleift að ráðast í sérstaka arðgreiðslu að fjárhæð 25 milljarðar króna sem ákveðin var á hluthafafundi 12. febrúar síðastliðinn. Arðgreiðslan er í samræmi við það markmið bankans að hagræða eiginfjárhlutfalli sínu á þann veg að það verði í meira samræmi við erlenda og innlenda banka. Þrátt fyrir arðgreiðslu þá er eiginfjárstaða bankans sterk og vel umfram kröfur eftirlitsaðila. Þá er arðgreiðslan liður í aðgerðum sem tengjast söluferli bankans en við gerum ráð fyrir að það muni setja mark sitt á árið 2018. Skráning bankans á markað, hér á landi og jafnvel erlendis, er einn af þeim kostum sem til skoðunar er. Líkur eru á að ákvörðun um næstu skref verði tekin á næstu vikum og mánuðum.

Í marsmánuði 2017 voru fyrstu skrefin í söluferli bankans tekin er þrír alþjóðlegir fjárfestingarsjóðir og fjárfestingarbankinn Goldman Sachs komu inn í hluthafahóp Arion banka. Seljandi var Kaupþing, í gegnum dótturfélag sitt Kaupskil, sem seldi um 30% hlut í bankanum. Fjárfestingarsjóðirnir Attestor Capital og Taconic Capital Advisors voru þar stærstir og eignuðust hvor um sig tæp 10% í bankanum. Attestor Capital jók síðar hlut sinn lítillega eftir að Fjármálaeftirlitið mat sjóðinn hæfan til að fara með virkan eignarhlut. Fyrr í dag var svo tilkynnt um sölu Kaupþings á um 5% hlut í bankanum til Attestor Capital, Goldman Sachs og sjóða í rekstri fjögurra íslenskra sjóðastýringarfyrirtækja. Það er sérstaklega ánægjulegt að fá innlenda fjárfesta inn í hluthafahópinn.

Arion banki er áfram með sterka stöðu á sínum mörkuðum og bankinn hefur tekið afgerandi forystu þegar kemur að framsæknum nýjungum í viðskiptabankaþjónustu. Sú forysta hefur skilað sér í betri þjónustu, auknum tekjum, aukinni skilvirkni og aukinni ánægju viðskiptavina. Bankinn kynnti á árinu fjölda nýrra stafrænna þjónustuleiða sem viðskiptavinir bankans hafa tekið fagnandi. Stafrænt umsóknarferli fyrir íbúðalán hefur vakið einna mesta athygli, en nú geta viðskiptavinir farið í gegnum greiðslumat og umsóknarferlið á afar skömmum tíma á vef bankans. Markmið okkar er að einfalda viðskiptavinum okkar lífið með því að bjóða þægilega bankaþjónustu og munum við halda áfram á þeirri braut.

Arion banki, eins og einstaklingar, fyrirtæki og fjárfestar í viðskiptum við bankann, nýtur góðs af því um þessar mundir að starfa í þróttmiklu efnahagslífi. Bankinn hefur sett sér það markmið að lánavöxtur sé almennt umfram vöxt í efnahagslífinu og sú varð raunin á árinu 2017 en lán til viðskiptavina jukust um rúm 7% á árinu. Lán til fyrirtækja jukust um tæp 7% en lán til einstaklinga um rúm 8%. Vöxtur í lánum til einstaklinga er nær eingöngu í íbúðalánum, þrátt fyrir harða samkeppni á þeim markaði frá lífeyrissjóðum. Þar skiptir miklu sú skjóta og þægilega þjónusta sem viðskiptavinir fá er þeir sækja um íbúðalán hjá bankanum.

Erfiðleikar og gjaldþrot kísilverksmiðju United Silicon setti mark sitt á afkomu ársins en niðurfærslur Arion banka á lánum og fjárfestingu í félaginu námu um 4 milljörðum króna að teknu tilliti til skattaáhrifa. Það stóð ekki til að bankinn yrði hluthafi í félaginu en eftir því sem erfiðleikar þess jukust varð bankinn að stíga inn, m.a. í formi hlutafjáraukningar. Arion banki hefur óskað eftir því við skiptastjóra þrotabúsins að ganga að veðum bankans í félaginu með það að markmiði að gera nauðsynlegar úrbætur á verksmiðunni og selja hana eins fljótt og auðið er. Það er jákvætt að við verðum vör við mikinn áhuga á kísilverksmiðjunni meðal alþjóðlegra aðila í kísiliðnaði.   

Arion banki greiddi á árinu eftirstöðvar skuldabréfs við Kaupþing frá árinu 2016 sem upphaflega hljóðaði upp á 97 milljarða króna. Þar með er öll fjármögnun sem snéri að stofnun bankans að fullu uppgreidd og er bankinn nú að fullu fjármagnaður á markaði og með innlánum. Arion banki er í dag reglulegur útgefandi skuldabréfa á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum og líta alþjóðlegir fjárfestar í ríkari mæli til bankans sem fjárfestingarkosts. Þróun bréfa bankans á eftirmarkaði hefur verið afar jákvæð sem sýnir trú fjárfesta á bankanum. Lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poors hækkaði lánshæfismat bankans á haustmánuðum í BBB+ úr BBB, með stöðugum horfum.

Horfur fram á veg eru góðar og ljóst að viðburðaríkt ár er framundan. Íslenskt efnahagslífi er í blóma og stöðugleiki einkennir flest svið samfélagsins. Arion banki mun áfram þróa sína þjónustu með það í huga að auka þægindi viðskiptavina og er bankinn vel í stakk búinn að taka þátt í uppbyggingu sem er framundan, innviðauppbyggingu sem og öðrum þeim verkefnum sem viðskiptavinir taka sér fyrir hendur.“

 

Fundur með markaðsaðilum

Arion banki mun halda símafund á ensku fyrir markaðsaðila, fimmtudaginn 15. febrúar, klukkan 13:00. Á fundinum mun Stefán Pétursson, fjármálastjóri Arion banka, fara yfir helstu atriði í uppgjöri bankans. Áhugasamir geta sent tölvupóst á ir@arionbanki.is og fá í kjölfarið sendar nánari upplýsingar varðandi þátttöku á símafundinum.

 

Nánari upplýsingar veitir Haraldur Guðni Eiðsson, samskiptasviði Arion banka, haraldur.eidsson@arionbanki.is, s: 856 7108.

 


Arsreikningur Samstu Arion banka 2017.pdf
Afkomutilkynning Arion banka 12M 2017.pdf
Afkomukynning Arion banka 12M 2017.pdf