Icelandic
Birt: 2023-05-17 18:12:47 CEST
Brim hf.
Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

Uppgjör Brims á fyrsta ársfjórðungi 2023

Starfsemin á 1F2023

Uppsjávarveiðar skipa Brims hófust í janúar með veiðum á kolmunna í færeyskri lögsögu en um 19 þús. tonn af kolmunna veiddust og var landað í fiskimjölsverksmiðju félagsins á Vopnafirði. Veiðar á loðnu hófust í byrjun febrúar og gengu veiðar og vinnsla mjög vel. Skipin lönduðu 56 þús. tonnum í vinnslur félagsins á Akranesi og Vopnafirði og náðist að veiða allan kvóta félagsins auk þess að um 6 þús. tonna afli var keyptur af þriðja aðila. Það skipti sköpum að veður var með eindæmum gott til loðnuveiða á tímabilinu og munaði miklu frá því sem var á árinu 2022, þegar vertíðin einkenndist af stöðugum brælum. Loðnunni var landað til heilfrystingar fyrir markaði í Asíu og A-Evrópu, til frystingar á loðnuhrognum og til framleiðslu á fiskimjöli og lýsi. Mikil óvissa ríkti um hversu stór loðnukvótinn yrði á vertíðinni og var endanlegur loðnukvóti ekki ljós fyrr en 15. febrúar og olli það vandræðum með skipulagningu veiðanna og vinnslu aflans. Óvissa af þessu tagi leiðir til þess að veiðum er frestað til að tryggja að nægar veiðiheimildir séu eftir til veiða á hinni verðmætu hrognaloðnu. Met var sett í framleiðslu á loðnuhrognum á Íslandi og framleiðslan því umfram það sem selst öllu jafna innan árs sem hafði þær afleiðingar að verð loðnuhrogna lækkaði.

Bolfiskveiðar og vinnsla félagsins gengu vel, að undanskildum veiðum á ufsa sem brást á tímabilinu, og veiddu skip félagsins um 10 þús. tonn af bolfiski. Veiði frystiskipa félagsins í Barentshafi gengu vel á tímabilinu og voru þær aðeins yfir því sem hafði verið á árinu 2022. Afurðaverð á landunnum bolfiskafurðum hækkaði nokkuð samanborið við sama tímabil í fyrra, en á móti gaf verð á sjófrystum þorsk- og ýsuafurðum nokkuð eftir frá því sem var á sama tímabili í fyrra.

Helstu atriði úr fjárhagsuppgjöri 1F 2023

  • Vörusala var 113 m€ á fjórðungnum samanborið við 94 m€ á fyrsta fjórðungi 2022
  • Hagnaður var 19 m€ á fjórðungnum samanborið við 26 m€ á fyrsta fjórðungi 2022
  • EBITDA var 29 m€ og EBITDA hlutfall 25,7%
  • Eignir hækkuðu um 105 m€ frá áramótum og voru 1.047 m€ í lok tímabilsins
  • Eigið fé þann 31. mars 2023 var 433 m€ og eignfjárhlutfall 41,4%

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri:

„Gæftir voru góðar á ársfjórðungnum og veiðin var góð, einkum á uppsjávartegundum. Afurðaverð voru almennt góð en kostnaður jafnt við veiðar, vinnslu og sölu jókst. Birgðastaðan er all mikil sem ætti að skila sér í auknum tekjum á næstu fjórðungum.

Bolfiskveiðar gengu ágætlega og skiptir þar miklu að frystiskip félagsins í Barentshafi veiddu mjög vel. Hins vegar lét ufsinn ekki sjá sig og á undanförnum misserum hafa veiðiheimildir á þorski og karfa verið skornar niður. Verðin á afurðum voru góð.

Rétt er hins vegar að árétta að aðstæður á mörkuðum eru erfiðar. Það mun því reyna á okkar sölunet og sölu-  og markaðsfyrirtæki á næstu misserum. Það geisar enn þá stríð í Evrópu og víða ríkir mikil óvissa. Kostnaðarhækkanir eru alls staðar mjög miklar og verðbólga er meiri en þekkst hefur í áratugi. 

Sveiflur í sjávarútvegi, bæði af völdum náttúru og manna nær og fjær, eru miklar og taka ekki tillit til ársfjórðunga. Að því gefnu er óhætt að vera ánægður með þennan fyrsta ársfjórðung ársins. Starfsfólk Brims hefur brugðist við nýjum aðstæðum og erfiðleikum af festu sem endranær sem skilar sér í góðu uppgjöri.“

Rekstur
Seldar vörur námu á 1F 2023 113 m€ samanborið við 94 m€ árið áður. Hækkun vörusölu má einkum rekja til starfsemi sölufélaga í Asíu.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 29 m€ eða 25,7% af rekstrartekjum, en var 36 m€ eða 38,6% árið áður.

Nettó fjármagnskostnaður var 3,3 m€ en var 0,8 m€ á fyrsta fjórðungi 2022.

Hagnaður fyrir tekjuskatt var 24 m€, samanborið við 32 m€ á fyrsta fjórðungi 2022. Tekjuskattur nam 5 m€, en var 6 m€ árið áður. Hagnaður tímabilsins varð því 19 m€ en var 26 m€ árið áður.

Efnahagur
Heildareignir félagsins námu  1.047m€ í lok 1F 2023. Þar af voru fastafjármunir 753 m€ og veltufjármunir 294 m€. Hækkun á fastafjármunum má einkum rekja til fjárfestingar í Polar Seafood Denmark A/S.

Fjárhagsstaða félagins er áfram sterk og nam eigið fé 433 m€ og var eiginfjárhlutfall 41,4%, en var 48,0% í lok árs 2022. Heildarskuldir félagsins voru 614 m€ í lok fjórðungsins og hækkuðu um 124 m€ frá áramótum.  Hækkun skammtímaskulda má bæði rekja til þess að kaupverð eignarhlutans í Polar Seafood Denmark A/S var ógreitt þann 31. mars sem og að búið er að skuldfæra samþykktan arð að fjárhæð 36 m€, en arðurinn var samþykktur á aðalfundi 23. mars og greiddur þann 28. apríl.

Meginniðurstöður færðar til íslenskra króna

Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi fyrsta fjórðungs árins 2023 (1 evra = 152,3 ísk) voru tekjur 17,3 milljarðar króna, EBITDA 4,4 milljarðar og hagnaður 2,9 milljarðar. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á gengi 31. mars 2023 (1 evra = 148,3 ísk) voru eignir samtals 155,3 milljarðar króna, skuldir 91,1 milljarðar og eigið fé 64,2 milljarðar.

Hluthafar

Lokaverð hlutabréfa 31. mars 2023 var 86,5 kr. á hlut og var markaðsvirði félagsins þá 167 milljarðar króna.  Fjöldi hluthafa var 1.920.

Samþykkt árshlutareiknings
Árshlutareikningurinn var samþykktur á stjórnarfundi Brims hf. 17. maí 2023. Árshlutareikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS – International Financial Reporting Standards). Árshlutareikningurinn hefur hvorki verið kannaður né endurskoðaður af endurskoðendum félagsins.

Ekki verður haldinn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta fyrir þriggja og níu mánaða uppgjör líkt og verið hefur.  Næsti kynningarfundur verður haldinn eftir sex mánaða uppgjör félagsins.  Fjárfestadagur verður haldinn 7. september 2023.

Brim hf.

Brim er öflugt sjávarútvegsfyrirtæki sem starfar í sátt við samfélagið og umhverfið. Við stuðlum að verðmætasköpun í sjávarútvegi með vöruþróun, tæknilausnum og öflugu starfsfólki. Við tryggjum með ábyrgum veiðum og vinnslu, þar sem áhersla er á sjálfbærni og nýsköpun, að sjávarútvegur verði áfram burðarstólpi í íslensku samfélagi. Við leitum allra leiða til að lágmarka áhrif starfseminnar á umhverfið hvort sem er á sjó eða í landi.

Fjárhagsdagatal

Annar ársfjórðungur               24. ágúst 2023
Þriðji ársfjórðungur                 16. nóvember 2023
Fjórði ársfjórðungur                22. febrúar 2024

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Kristjánsson forstjóri, sími 550-1000.

ViðhengiAfkoma Brims hf 1F 2023.pdf
Brim Arshlutareikn 31.03.2023_Signed.pdf
Brim kynning F1 2023.pdf