Ársreikningur Eikar fasteignafélags var samþykktur af stjórn félagsins 17. febrúar 2022.
Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri:
„Árið 2021 var allt í senn viðburðaríkt, krefjandi og áhugavert. Markaðurinn tók vel við sér eftir lægð síðasta árs í útleigu og hækkaði virðisútleiguhlutfall félagsins úr 92% í ársbyrjun og nam 94,2% í lok árs 2021, þrátt fyrir að félagið hafi misst úr safninu stóra leigutaka.
Rekstur félagsins gekk vel á árinu og var umfram upphaflegar væntingar ársins. Dvínandi áhrif faraldursins á samfélagið og þróun í átt að eðlilegra lífi leiddi til hækkunar á afkomuspá félagsins í tvígang yfir árið. EBITDA ársins 2021 nam 5.645 m.kr. en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir EBITDA á bilinu 5.050-5.350 m.kr.
Félagið leggur sitt af mörkum til þess að stuðla að góðu og sjálfbæru samfélagi fyrir alla og gera leigutökum sínum og viðskiptavinum auðveldara að stíga vistvæn skref. Rafhleðslustöðvar eru nú við margar af byggingum félagsins, aðgengi hefur verið bætt með römpum og sorpgeymslur betrumbættar til þess að stuðla að aukinni flokkun. Þessi vegferð mun halda áfram enda er samfélagsleg ábyrgð okkar allra.
Vegin verðtryggð fjármagnskjör halda áfram að lækka og námu 3,03% í lok árs. Þá námu vegin óverðtryggð fjármagnskjör 4,4%. Félagið gaf út þrjá nýja skuldabréfaflokka á árinu, verðtryggða flokkinn EIK 100327 og óverðtryggðu flokkana EIK 23 1og EIK 24 1 ásamt því að stækka EIK 141233 og endurfjármagna EIK 15 1 með óverðtryggðu bankaláni.“
Félagið hefur gefið út ársskýrslu, sem hefur að geyma ítarlegar upplýsingar um félagið og rekstur þess á árinu 2021 ásamt ársreikningi. Skýrslan er meðfylgjandi þessari tilkynningu og hana má einnig finna á heimasíðu félagsins, www.eik.is.
Ársreikningur Eikar fasteignafélags hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Endurskoðendur félagsins, KPMG ehf., hafa endurskoðað reikninginn og áritað hann fyrirvaralaust.
Tillaga um arðgreiðslu
Stjórn félagsins breytti arðgreiðslustefnunni á árinu og er stefna stjórnar nú að greiða allt að 50% af handbæru fé frá rekstri að frádreginni þeirri fjárhæð sem nýtt var til endurkaupa á eigin bréfum fram að boðun aðalfundar. Í samræmi við arðgreiðslustefnuna leggur stjórn félagsins til við aðalfund, sem haldinn verður 5. apríl nk., að greiddur verði arður að fjárhæð 1.740 m.kr. til hluthafa vegna rekstrarársins 2021.
Áhrif COVID-19 á rekstur félagsins
Áhrif COVID-19 á rekstrarreikning félagsins má fyrst og fremst sjá í virðisrýrnun viðskiptakrafna, afkomu Hótels 1919 og stöðu viðskiptakrafna. Félagið áætlar að neikvæð áhrif faraldursins á EBITDA félagsins hafi verið um 255-265 m.kr. á árinu 2021. Virðisrýrnun viðskiptakrafna var 81 m.kr. umfram meðal virðisrýrnun viðskiptakrafna á árinu 2017-2019 og afkoma Hótel 1919 var 135 m.kr. lægri en meðalafkoma hótelsins á árunum 2017-2019. Staða viðskiptakrafna er 249 m.kr. hærri en í upphafi árs. Félagið væntir þess að áhrif faraldursins haldi áfram að dvína á árinu 2022.
Horfur
Félagið hefur gefið út ítarlega fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 sem finna má í meðfylgjandi ársskýrslu félagsins.
Samkvæmt útgefinni fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 mun EBITDA ársins verða á bilinu 6.130 – 6.380 m.kr. m.v. 4% jafna verðbólgu en 5.980 – 6.230 m.kr. á föstu verðlagi.
Breytt skipurit
Félagið hefur breytt skipuriti sínu. Viðskiptaþróun ber nú ábyrgð á virðisaukningu eigna félagsins með þróun fasteigna og lóða. Þá hefur húsumhyggja verið lögð niður sem sjálfstætt svið en er nú deild undir fjármálasviði. Nýtt skipurit má nálgast á heimasíðu félagsins, https://www.eik.is/stjorn.
Eignasafn félagsins
Félagið keypti þrjár eignir á árinu. Vatnagarða 24 og Vatnagarða 26 þar sem Tesla Motors er með langtímaleigusamning ásamt hluta af Síðumúla 15 og á félagið nú alla eignina við Síðumúla 13-15.
Þá seldi félagið þrjár eignir á árinu, Hafnarstræti 4 í Reykjavík, Fjölnisgötu 3b á Akureyri og Kirkjubraut 28 á Akranesi.
Félagið skrifaði undir kaupsamning þann 1. febrúar sl. um kaup á hluta af Sóltúni 24 en sú eign deilir lóð og bílakjallara með annarri eign félagsins, Sóltúni 26. Þá fékk félagið í upphafi árs tilkynningu um nýtingu á kauprétti á tveimur eignum félagsins á Akranesi, Höfðaseli 2 og 4. Afhending eignanna mun fara fram þann 30. september 2022.
Fasteignirnar innan samstæðunnar eru 111 talsins og telja rúmlega 312 þúsund útleigufermetra í 600 leigueiningum og eru leigutakarnir á fimmta hundrað. Helstu fasteignir félagsins eru Borgartún 21 og 26, Suðurlandsbraut 8 og 10, Mýrargata 2-16, Pósthússtræti 2, Álfheimar 74 (Nýi Glæsibær), Grjótháls 1-3 og Austurstræti 5, 6, 7 og 17 í Reykjavík, Smáratorg 1 og 3 í Kópavogi og Glerártorg á Akureyri.
Stærsti eignaflokkur félagsins er skrifstofuhúsnæði sem er 45% af virði alls fasteignasafnsins. Annar stærsti eignaflokkurinn er verslunarhúsnæði, eða 24% safnsins. Þriðji stærsti eignaflokkurinn er lager, eða 14% safnsins. Hótel eru 10% safnsins, heilsutengt húsnæði 4% og veitinga- og skemmtistaðir 3%.
Rafrænn kynningarfundur
Rafrænn kynningarfundur verður haldinn föstudaginn 18. febrúar klukkan 8:30. Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri og Lýður H. Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, munu kynna uppgjörið og svara spurningum að lokinni kynningu.
Skráning á fundinn fer fram hér:
https://us02web.zoom.us/webinar/register/WN_RsrfxqoGT--nHOf1aevr6g
Eftir skráningu fá þátttakendur tölvupóst með nánari upplýsingum.
Fjárhagsdagatal 2022
Stefnt er að birtingu árshluta- og ársuppgjöra á neðangreindum dagsetningum:
Aðalfundur 5. apríl 2022
Árshlutauppgjör 1. ársfjórðungs 2022 5. maí 2022
Árshlutauppgjör 2. ársfjórðungs 2022 25. ágúst 2022
Árshlutauppgjör 3. ársfjórðungs 2022 27. október 2022
Ársuppgjör 2022 16. febrúar 2023
Birting fjárhagsupplýsinga mun eiga sér stað eftir lokun markaða.
Meðfylgjandi er ársskýrsla 2021 sem inniheldur ársreikning 2021. Viljum við sérstaklega vekja athygli á því að hægt er að fara í milli kafla í skýrslunni með því að smella á hlekkina efst á hverri blaðsíðu. Það sama gildir um samfélagsskýrslu félagsins, en hún er aðgengileg á heimasíðu þess.
Nánari upplýsingar veita:
Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri, gardar@eik.is, s. 590-2200
Lýður H. Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, lydur@eik.is s. 590-2200 / 820 8980
Viðhengi