English Icelandic
Birt: 2024-04-23 10:30:00 CEST
Nasdaq Nordic
Fjárfestatilkynningar

Nasdaq Iceland býður Oculis velkomið á Aðalmarkaðinn

Reykjavík, þriðjudagur, 23. apríl 2024 -- Nasdaq (Nasdaq:NDAQ) tilkynnir að í dag hefjast viðskipti með hlutabréf Oculis Holding AG („Oculis“) (auðkenni: OCS) á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland. Oculis er alþjóðlegt líftæknifyrirtæki sem hefur það að markmiði að þróa augnlyf sem bæta sjón og draga úr einkennum alvarlegra augnsjúkdóma. Oculis tilheyrir heilbrigðisgeiranum (e. Health Care) og er fjórða félagið sem tekið er til viðskipta á mörkuðum Nasdaq Nordic og Baltic* í ár. Oculis er einnig skráð á markað Nasdaq í New York.

Í þróun hjá Oculis eru ný augnlyf sem geta haft byltingarkennd áhrif. Þar á meðal er OCS-01, augndropar byggðir á Optireach® tækni félagsins. Klínískar rannsóknir á OCS-01 hafa m.a. sýnt verulegan árangur í meðferð á sjónhimnubjúg vegna sykursýki. Þá er félagið með lyfið OCS-02 í klíniskum prófunum en það eru augndropar sem innihalda TNF-hamlara líttæknilyf, sem verka gegn augnþurrki og bólgum í yfirborði augans. Loks má nefna lyfið OCS-05, sem bundnar eru vonir við að geti hjálpað til við meðhöndlun á hrörnun eða rýrnun taugavefs í auga sem tengist sjúkdómum eins og sjóntaugarbólgu. Markmið Oculis er að bæta heilsu og lífsgæði sjúklinga um allan heim með því að þróa lyf sem bæta sjón og augnheilsu.

Fyrir nánari upplýsingar: www.oculis.com

„Við erum mjög ánægð með að Oculis, sem á rætur sínar að rekja til íslensks hugvits sé núna tvískráð á Íslandi og í Bandaríkjunum,“ sagði Riad Sherif, forstjóri Oculis. „Við erum afar þakklát fyrir þann mikla áhuga sem fjárfestar hafa sýnt félaginu en skráningin hér styður vel við framtíðaráform okkar um að bæta meðferð alvarlegra augnsjúkdóma. Við bjóðum nýja hluthafa velkomna og hlökkum til að vinna með þeim fram veginn.“

„Við bjóðum Oculis velkomið á Aðalmarkað Nasdaq Iceland,“ sagði Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland. "Það er mjög ánægjulegt að félagið hafi valið tvískráningu á íslenska markaðinn, sem gefur íslenskum fjárfestum tækifæri til að taka þátt í vegferðinni þeirra. Við óskum öllum hjá Oculis og hluthöfum þess góðs gengis og hlökkum til styðja við félagið með auknum sýnileika á íslenska markaðnum."

*Aðalmarkaðir og Nasdaq First North Growth Markets hjá Nasdaq Copenhagen, Nasdaq Helsinki, Nasdaq Iceland, og Nasdaq Stockholm.

Um Nasdaq

Nasdaq (Nasdaq: NDAQ) er alþjóðlegt tæknifyrirtæki sem þjónar verðbréfamörkuðum og öðrum atvinnugeirum. Fjölbreytt framboð okkar af markaðsgögnum, greiningarvörum, hugbúnaði og þjónustu gerir viðskiptavinum okkar kleift að láta framtíðarsýn þeirra verða að veruleika. Til að fræðast meira um félagið, tæknilausnir og störf hjá okkur, smellið á LinkedIn, Twitter @Nasdaq eða www.nasdaq.com

Fyrirvari vegna staðhæfinga um framtíðarhorfur

Þau mál sem hér er skýrt frá taka til staðhæfinga um framtíðarhorfur sem gerðar eru samkvæmt svonefndum Safe Harbor ákvæðum í bandarískum verðbréfalögum frá 1995 (Private Securities Litigation Reform Act of 1995). Þessar staðhæfingar taka meðal annars til en takmarkast þó ekki við staðhæfingar um afurðir og þjónustu Nasdaq. Við minnum á að þessar staðhæfingar eru ekki trygging fyrir framtíðarafkomu. Raunveruleg niðurstaða kann að vera allt önnur en sú sem fram kemur berum orðum eða með öðrum hætti í staðhæfingum um framtíðarhorfur. Í staðhæfingum um framtíðarhorfur eru ýmsir áhættu- og óvissuþættir eða aðrir þættir sem Nasdaq hefur ekki stjórn á. Þessir þættir byggjast á en takmarkast þó ekki við þætti sem gerð er grein fyrir í ársskýrslu Nasdaq á svonefndu Form 10-K og árshlutaskýrslum sem sendar eru til bandaríska verðbréfaeftirlitsins. Við tökumst ekki á hendur neinar skuldbindingar um að endurskoða að neinu leyti staðhæfingar um framtíðarhorfur.

Nasdaq Nordic lýsir sameiginlegri þjónustu Nasdaq Copenhagen, Nasdaq Helsinki, Nasdaq Iceland og Nasdaq Stockholm.

 

         FJÖLMIÐLASAMSKIPTI
          Kristín Jóhannsdóttir
          868 9836
          kristin.johannsdottir@nasdaq.com