Nasdaq Iceland býður Kaldvík velkomið á First North vaxtarmarkaðinn
Reykjavík, 29. maí, 2024 – Nasdaq (Nasdaq:NDAQ) tilkynnir að Kaldvík AS (auðkenni: KLDVK) verður í dag skráð á Nasdaq First North vaxtarmarkaðinn á Íslandi. Kaldvík tilheyrir Nauðsynjavörugeiranum (e. Consumer Staples) og er sjöunda félagið sem er tekið til viðskipta á mörkuðum Nasdaq Nordic og Baltic í ár*.
Kaldvík, áður Ice Fish Farm AS, er leiðandi fiskeldisfyrirtæki á Austfjörðum. Starfsemin er að fullu samþætt frá seiðaeldi til sölu afurða í gegnum dótturfélög Kaldvíkur, Fiskeldi Austfjarða hf. og Búlandstind hf.. Seiðaeldi Kaldvíkur fer fram á Norður- og Suðurlandi en fiskeldi á Austfjörðum; í Berufirði, Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði og Stöðvarfirði. Kaldvík leggur áherslu á sjálfbæra framleiðslu og er eitt fárra fyrirtækja í heiminum sem hafa hlotið AquaGAP vottun, sem endurspeglar sjálfbæra framleiðslu. AquaGAP vottun gerir félaginu kleift að dreifa vörum sínum til heild- og smásala sem einblína á heilsusamlegt og lífrænt fæði. Nánari upplýsingar má nálgast á www.icefishfarm.is
„Skráning Kaldvíkur á vaxtarmarkað Nasdaq First North á Íslandi eru mikilvæg tímamót fyrir félagið“, segir Guðmundur Gíslason, forstjóri Kaldvíkur. „Íslenskir fjárfestar hafa þegar sýnt félaginu mikinn áhuga og skráningin ýtir undir metnaðarfull áform okkar um að gera enn fleiri fjárfestum kleift að taka þátt í verðmætasköpun og vexti félagsins.”
„Við bjóðum Kaldvík velkomið á Nasdaq First North vaxtarmarkaðinn á Íslandi“, segir Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland. “Skráningin eflir fiskeldisgeirann á markaðnum og við erum spennt að fylgjast með vexti og viðgangi félagsins. Við hlökkum til að styðja við Kaldvík með þeim aukna sýnileika á meðal fjárfesta sem skráning veitir því.“
*Aðalmarkaðir og Nasdaq First North vaxtarmarkaðir hjá Nasdaq Copenhagen, Nasdaq Helsinki, Nasdaq Iceland, og Nasdaq Stockholm.
Um Nasdaq
Nasdaq (Nasdaq: NDAQ) er alþjóðlegt tæknifyrirtæki sem þjónar verðbréfamörkuðum og öðrum atvinnugeirum. Fjölbreytt framboð okkar af markaðsgögnum, greiningarvörum, hugbúnaði og þjónustu gerir viðskiptavinum okkar kleift að láta framtíðarsýn þeirra verða að veruleika. Til að fræðast meira um félagið, tæknilausnir og störf hjá okkur, smellið á LinkedIn, Twitter @Nasdaq eða www.nasdaq.com
Fyrirvari vegna staðhæfinga um framtíðarhorfur
Þau mál sem hér er skýrt frá taka til staðhæfinga um framtíðarhorfur sem gerðar eru samkvæmt svonefndum Safe Harbor ákvæðum í bandarískum verðbréfalögum frá 1995 (Private Securities Litigation Reform Act of 1995). Þessar staðhæfingar taka meðal annars til en takmarkast þó ekki við staðhæfingar um afurðir og þjónustu Nasdaq. Við minnum á að þessar staðhæfingar eru ekki trygging fyrir framtíðarafkomu. Raunveruleg niðurstaða kann að vera allt önnur en sú sem fram kemur berum orðum eða með öðrum hætti í staðhæfingum um framtíðarhorfur. Í staðhæfingum um framtíðarhorfur eru ýmsir áhættu- og óvissuþættir eða aðrir þættir sem Nasdaq hefur ekki stjórn á. Þessir þættir byggjast á en takmarkast þó ekki við þætti sem gerð er grein fyrir í ársskýrslu Nasdaq á svonefndu Form 10-K og árshlutaskýrslum sem sendar eru til bandaríska verðbréfaeftirlitsins. Við tökumst ekki á hendur neinar skuldbindingar um að endurskoða að neinu leyti staðhæfingar um framtíðarhorfur.
Nasdaq Nordic lýsir sameiginlegri þjónustu Nasdaq Copenhagen, Nasdaq Helsinki, Nasdaq Iceland og Nasdaq Stockholm.
Nasdaq fjölmiðlasamskipti Kristin Johannsdottir +354 868 9836 Kristin.johannsdottir@nasdaq.com
|