Icelandic
Birt: 2023-11-06 16:54:47 CET
Nova Klúbburinn hf.
Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

Nova Klúbburinn hf.: Innviðauppbygging Nova skilar sér í enn betri rekstri

Nova Klúbburinn birtir uppgjör þriðja ársfjórðungs

Innviðauppbygging Nova skilar sér í enn betri rekstri

Helstu niðurstöður á þriðja ársfjórðungi:

  • Heildartekjur voru 3.255 m.kr. á þriðja ársfjórðungi 2023 samanborið við 3.165 m.kr. á sama tímabili á fyrra ári sem skilar 2,8% heildar tekjuvexti á fjórðungnum á milli ára.
  • Þjónustutekjur námu samtals 2.499 m.kr. og vaxa um 147 m.kr. sem er 6,2% vöxtur á milli ára. Vörusölutekjur námu samtals 452 m.kr. og dragast saman um 41 m.kr. sem er 8,3% lækkun á milli ára. Aðrar tekjur dragast saman um 5,1% milli ára.
  • EBITDA nam 1.095 m.kr. samanborið við 1.010 m.kr. á sama tímabili á fyrra ári og vex um 8,4% á milli ára, EBITDA hlutfallið var 33,7% á fjórðungnum samanborið við 31,9% á fyrra ári. Rekstrarhagnaður (EBIT) var 556 m.kr. samanborið við 506 m.kr. á sama tímabili á fyrra ári og vex um 9,9% milli ára.
  • Hagnaður tímabilsins var 266 m.kr. og hækkar um 29,6% á milli ára.
  • Vaxtaberandi skuldir, leiguskuldbindingar og aðrar skuldir námu í lok tímabilsins samtals 11.834 m.kr. Þann 3. nóvember greiddi Nova 300 milljóna kr. viðbótargreiðslu, umfram samningsbundnar greiðslur, til lækkunar á vaxtaberandi skuldum félagsins.
  • Handbært fé frá rekstri á fjórðungnum er 877 m.kr. samanborið við 722 m.kr. á sama tímabili á fyrra ári.
  • Eiginfjárhlutfall félagsins var 40,15% í lok fjórðungsins og eigið fé nam 9.365 m.kr.
  • Fjárfesting í innviðum undanfarin ár, þar á meðal bylgjulengdarkerfi Nova, hefur skilað sér í enn betri rekstri. Heildarfjárfestingar eru 1.393 m.kr. á fyrstu 9 mánuðum ársins.

Margrét Tryggvadóttir, skemmtana- og forstjóri Nova: „Við höldum áfram að dansa í þéttum og góðum takti og rekstrarniðurstaða þriðja ársfjórðungs er í takt við okkar áætlun. Dansgólfið hjá Nova verður alltaf stærra og stærra, við höldum áfram að fjölga viðskiptavinum, og okkar markmið breytast ekkert þar. Við viljum að viðskiptavinir Nova fái alltaf besta dílinn og bestu þjónustuna. Fjárfesting í innviðum, þar á meðal bylgjulengdarkerfi Nova, hefur skilað sér í enn betri rekstri þar sem við höfum náð að festa kostnað til framtíðar, með góðum rekstri getum við áfram fjárfest í uppbyggingu innviða sem skiptir miklu máli fjárhags- og tæknilega fyrir félag eins Nova sem og íslenskt samfélag. Nova leggur áherslu á að vera í fararbroddi varðandi nýjar tæknilausnir og við viljum tryggja að viðskiptavinir okkar séu með besta netsambandið. Þess vegna erum við gríðarlega spennt að vera byrjuð að prófa 5,5G og vera þannig með þeim fyrstu í Evrópu ásamt því að halda áfram markvissri uppbyggingu á 5G um allt land.

Þá vekjum við áfram athygli á mikilvægi þess að hlúa að geðheilsunni, sýna hvert öðru virðingu og finna fegurðina í hversdagsleikanum. Með því að leggja okkur fram um að skilja og hvetja aðra í kringum okkur og með því að hlúa markvisst að því sem styrkir geðheilsu verður lífið einfaldlega auðveldara og skemmtilegra.“  

ViðhengiLagmuli 2.jpg
Nova Klubburinn hf. - Arshlutareikningur Samstu 3F 2023.pdf
Nova Klubburinn hf. - Uppgjorstilkynning 3F 2023.pdf