English Icelandic
Birt: 2021-10-20 21:48:02 CEST
Kvika banki hf.
Innherjaupplýsingar

Kvika banki hf.: Afkoma umfram væntingar og breytingar í framkvæmdastjórn TM

Drög að uppgjöri samstæðu Kviku banka hf. fyrir þriðja ársfjórðung 2021 liggja nú fyrir en samkvæmt þeim er afkoma fjórðungsins áætluð á bilinu 3.200 - 3.300 m.kr fyrir skatta sem samsvarar 32,9% – 34% árlegri arðsemi á efnislegt eigið fé. Uppgjörið er talsvert umfram áætlanir samstæðunar fyrir tímabilið.

Áframhaldandi lágt samsett hlutfall TM og ávöxtun fjáreigna umfram væntingar

Samsett hlutfall TM var 83,3% á þriðja ársfjórðungi og frá áramótum 89,1%. Afkoma TM á þriðja ársfjórðungi nam um 1.772 m.kr. fyrir skatta.

Hreinar þóknanatekjur samstæðunar námu 1.594 m.kr. á tímabilinu en hreinar vaxtatekjur voru 1.136 m.kr. auk þess sem jákvæð breyting varð á virðisrýrnun útlána upp á 80 m.kr.

Hreinar fjárfestingatekjur á fjórðungnum námu 1.552 m.kr. en þar af vegna TM 1.181 m.kr. Ávöxtun fjáreigna TM nam 3,6% á tímabilinu.

Talsverð lækkun á rekstrarkostnaði milli ársfjórðunga

Rekstrarkostnaður samstæðunar nam 2.626 m.kr. á tímabilinu en það er um 21% lækkun frá öðrum ársfjórðungi.

Uppgjörið er enn í vinnslu og getur því tekið breytingum fram að birtingardegi.

Breytingar í framkvæmdastjórn TM

Markús Hörður Árnason, framkvæmdastjóri fjárfestinga TM, hefur óskað eftir að láta af störfum hjá félaginu. Markús hefur starfað hjá TM frá árinu 2008, fyrst sem sérfræðingur á sviði fjárfestinga og síðar forstöðumaður fjárfestinga. Frá árinu 2020 hefur hann gengt stöðu framkvæmdastjóra fjárfestinga og setið í framkvæmdastjórn TM. Markús lætur af störfum á næstu vikum.

Ásgeir Baldurs hefur verið ráðinn sem nýr framkvæmdastjóri fjárfestinga hjá TM. Ásgeir hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu bæði sem stjórnandi, ráðgjafi, fjárfestingastjóri og stjórnarmaður. Hann hefur m.a. verið forstjóri VÍS, forstöðumaður í fyrirtækjaráðgjöf, forstöðumaður sérhæfðra fjárfestinga og fjárfestingastjóri hjá Kviku og dótturfélögum. Ásgeir hefur störf hjá TM á næstu dögum.

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM:

„Ég vil þakka Markúsi hans dýrmæta framlag til TM á þeim þrettán árum sem hann hefur starfað hjá félaginu. Á þessum tíma hefur ávöxtun fjáreigna TM verið framúrskarandi. Ég óska Markúsi alls hins besta á nýjum vettvangi.

Um leið og ég kveð Markús býð ég Ásgeir velkominn í öflugt lið starfsmanna TM.“