English Icelandic
Birt: 2023-02-28 17:56:33 CET
Eik fasteignafélag hf.
Ársreikningur

Eik fasteignafélag hf.: Ársreikningur 2022

  • Rekstrartekjur námu 10.078 m.kr.
  • Rekstrarhagnaður fyrir söluhagnað, matsbreytingu og afskriftir nam 6.608 m.kr.
  • Heildarhagnaður nam 8.001 m.kr.
  • Handbært fé frá rekstri nam 4.066 m.kr.
  • Bókfært virði fjárfestingareigna nam 119.639 m.kr. í lok tímabilsins.  
  • Bókfært virði eigna til eigin nota nam 4.162 m.kr. í lok tímabilsins.
  • Matsbreyting fjárfestingareigna var 10.431 m.kr.
  • Vaxtaberandi skuldir námu 70.272 m.kr. í lok tímabilsins.
  • Eiginfjárhlutfall nam 34,0%.
  • Hagnaður á hlut var 2,34 kr.
  • Virðisútleiguhlutfall var 95,7% í lok tímabilsins
  • Vegnir verðtryggðir vextir námu 3,03% í lok tímabilsins.
  • Vegnir óverðtryggðir vextir námu 7,31% í lok tímabilsins.
  • Stjórn leggur til að greiddur verði út 2.000 m.kr arður

Ársreikningur Eikar fasteignafélags hf. fyrir árið 2022 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins þann 28. febrúar 2023.

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri:

„Árið 2022 var gott ár þrátt fyrir háa verðbólgu og mikla hækkun stýrivaxta, rekstur félagsins gekk vel og var afkoman umfram upphaflegar væntingar ársins. Rekstrarhagnaður fyrir söluhagnað, matsbreytingu og afskriftir nam 6.608 m.kr. og jókst um rúmlega 17% á milli ára. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 10.004 m.kr. og heildarhagnaður samstæðunnar nam 8.001 m.kr. Virðisútleiguhlutfall félagsins var 95,7% í lok tímabilsins og er aukin eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði. Mikið var um nýja samninga á árinu, sem og endurnýjanir við núverandi leigutaka.

Þá fer félagið vel fjármagnað inn í 2023. Staða handbærs fjár nam 2.986 m.kr. Þá er félagið með aðgengi að rúmlega 2.600 m.kr. í formi lánalína. Við lok árs fór félagið í einu skuldabréfaútgáfu ársins þegar nýr óverðtryggður skuldabréfaflokkur EIK 25 1, var gefinn út. Útgáfan heppnaðist vel og seldi félagið 2.340 m.kr. á ávöxtunarkröfunni 7,67%. Vegin verðtryggð kjör félagsins við árslok voru 3,03% og vegin óverðtryggð kjör voru 7,31%. Hlutfall óverðtryggðra skulda félagsins var um 22% við árslok.“

Félagið hefur gefið út ársskýrslu, sem hefur að geyma ítarlegar upplýsingar um félagið og rekstur þess á árinu 2022 ásamt ársreikningi. Ársskýrslan er meðfylgjandi þessari tilkynningu en hana má einnig finna á heimasíðu félagsins, www.eik.is. Sjálfbærniskýrsla félagsins er einnig aðgengileg á heimasíðu þess. 

NOI hlutfall (þ.e. rekstrarhagnaður fyrir söluhagnað, matsbreytingu og afskriftir sem hlutfall af leigutekjum) nam 74,3% á árinu 2022 samanborið við 72,0% fyrir árið 2021.

Virðisútleiguhlutfall félagsins var 95,7% í lok tímabilsins en var 94,2% í árslok 2021.

Fjárfestingareignir félagsins eru metnar á gangvirði í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) og stuðst er m.a. við núvirt framtíðarsjóðstreymi einstakra eigna. Breytingar á gangvirði eru færðar undir matsbreytingu fjárfestingareigna sem voru 10.431 m.kr. á árinu 2022.

Efnahagur félagsins

Heildareignir félagsins námu 128.651 m.kr. þann 31. desember 2022. Þar af eru fjárfestingareignir að virði 119.639 m.kr, eignir til eigin nota að virði 4.162 m.kr. og fasteignir í þróun að virði 671 m.kr. Eigið fé félagsins nam 43.744 m.kr. í lok ársins 2022 og var eiginfjárhlutfall 34,0%. Á aðalfundi félagsins þann 5. apríl 2022 var samþykkt að greiða út arð til hluthafa vegna rekstrarársins 2021 að fjárhæð 1.740 m.kr. og var hann greiddur þann 28. apríl 2022.
Heildarskuldir félagsins námu 84.907 m.kr. þann 31. desember 2022, þar af voru vaxtaberandi skuldir 70.272 m.kr. og tekjuskattsskuldbinding 10.683 m.kr. 

Áhrif COVID-19

Félagið áætlar að COVID-19 hafi haft u.þ.b. 40 – 45 m.kr. neikvæð áhrif á EBITDA ársins 2022 en þau áhrif voru einvörðungu sýnileg á fyrri helmingi ársins. Þá hafa allar varúðarfærslur vegna faraldursins á virði fjárfestingareigna verið færðar til baka.

Tillaga um arðgreiðslu

Stefna stjórnar er að greiða allt að 50% af handbæru fé frá rekstri að frádreginni þeirri fjárhæð sem nýtt var til endurkaupa á eigin bréfum fram að boðun aðalfundar. Í samræmi við arðgreiðslustefnuna, leggur stjórn félagsins til við aðalfund, sem haldinn verður þann 30. mars nk., að greiddur verði arður að fjárhæð 2.000 m.kr. til hluthafa vegna ársins 2022.

Horfur

Félagið hefur gefið út ítarlega fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 sem má finna á heimasíðu félagsins, www.eik.is. Samkvæmt útgefinni fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 spáir félagið því að rekstrartekjur félagsins verði á bilinu 10.350 – 10.570 m.kr. á föstu verðlagi m.v. vísitölu neysluverðs í janúar 2023. Þá áætlar félagið að EBITDA ársins verði á bilinu 6.690 – 6.970 m.kr.

Breytt skipurit

Félagið hefur breytt skipuriti sínu. Lögfræðisvið hefur verið lagt niður sem sjálfstætt svið og er nú deild undir skrifstofu forstjóra.

Eignasafn félagsins

Á árinu hefur félagið keypt og fengið afhent eignarhluta í þremur byggingum. Á fyrri hluta ársins keypti félagið 500 fm. eignarhlut við Skeifuna 5, en félagið átti fyrir um þriðjung í byggingunni. Þá keypti félagið 150 fm. veitingahús við Pósthússtræti 2 þar sem félagið á fyrir bygginguna sem hýsir Hótel 1919. Á seinni hluta ársins keypti félagið rúmlega 1.300 fm iðnaðar- og lagerrými við Smiðshöfða 9.
Þá hefur félagið selt og afhent þrjár fasteignir á árinu, Hjalteyrargötu 4 á Akureyri og Höfðasel 2 og 4 á Akranesi, sem telja samanlagt 3.911 fermetra og nemur bókfærður söluhagnaður á árinu 362 m.kr. 

Fasteignir innan samstæðunnar eru nú í kringum 110 talsins og telja tæplega 312 þúsund útleigufermetra í rúmlega 600 leigueiningum. Heildarfjöldi leigutaka er yfir 400. Helstu fasteignir félagsins á höfuðborgarsvæðinu eru Borgartún 21 og 21a, Borgartún 26, Suðurlandsbraut 8 og 10, Mýrargata 2-16, Pósthússtræti 2 (Hótel 1919), Smáratorg 3 (Turninn), Smáratorg 1, Álfheimar 74 (Nýi Glæsibær), Grjótháls 1-3 og Austurstræti 5, 6, 7 og 17. Helsta fasteign félagsins utan höfuðborgarsvæðisins er Glerártorg, Akureyri. Stærstu leigutakar félagsins eru Húsasmiðjan, Ríkiseignir, Berjaya Hotels Iceland, Landsbankinn, Sýn, Össur, Míla, Deloitte, Síminn og VÍS.

Stærsti hluti fasteignasafns félagsins er skrifstofuhúsnæði eða 41%. Næst koma verslunarhúsnæði 24%, lagerhúsnæði 14%, hótel 10%, heilsutengt húsnæði 7% og veitinga- og skemmtistaðir 3%.

Kynningarfundur
Opinn kynningarfundur verður haldinn föstudaginn 1. mars 2023 klukkan 8:30 á 19.hæð í Smáratorgi 3. Boðið verður upp á léttan morgunmat frá kl 8:00. Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri og Lýður H. Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, munu kynna uppgjörið og svara spurningum.

Streymi verður á fundinn og fer skráning á rafræna fundinn fram hér:

https://us02web.zoom.us/webinar/register/WN_6fLmZxz_Ssa-UWrAFm5YKg

Eftir skráningu fá þátttakendur tölvupóst með nánari upplýsingum.

Að fundi loknum býður félagið viðstöddum upp á stutt fræðsluerindi um tekjuskattsskuldbindingar fasteignafélaga og tengsl þeirra við framtíðar skattgreiðslur. Hvetur félagið áhugasama að mæta á 19. hæð Smáratorgs 3.

Fjárhagsdagatal

Stefnt er að birtingu árshluta- og ársuppgjöra á neðangreindum dagsetningum:

Aðalfundur                                                                               30. mars 2023
Árshlutauppgjör 1. ársfjórðungs 2023                                    27. apríl 2023
Árshlutauppgjör 2. ársfjórðungs 2023                                    17. ágúst 2023
Árshlutauppgjör 3. ársfjórðungs 2023                                    26. október 2023
Ársuppgjör 2023                                                                     8. febrúar 2024

Birting fjárhagsupplýsinga mun eiga sér stað eftir lokun markaða.

Nánari upplýsingar veita:

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri, gardar@eik.is, s. 590-2200
Lýður H. Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, lydur@eik.is, s. 820-8980

Viðhengi



2138005WRSDC4DI3BJ43-2022-12-31-is.zip
22.12.31 Arsskyrsla 2022.pdf