English Icelandic
Birt: 2022-04-27 19:32:28 CEST
Marel hf.
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Marel undirritar samning um kaup á Wenger, leiðandi framleiðanda á lausnum fyrir matvælavinnslu fyrir gæludýr, plöntuprótein og fóður fyrir fiskeldi

Marel undirritar samning um kaup á Wenger, leiðandi framleiðanda á lausnum fyrir matvælavinnslu fyrir gæludýr, plöntuprótein og fóður fyrir fiskeldi

Marel hefur undirritað samning um kaup á Wenger Manufacturing LLC (“Wenger”), sem er leiðandi á heimsvísu í framleiðslu á hátæknilausnum fyrir matvælavinnslu fyrir gæludýr, plöntuprótein (e. plant-based protein), og fóður fyrir fiskeldi. Kaupin á Wenger eru mikilvægt skref inn á nýja og spennandi vaxtarmarkaði og mynda fjórðu tekjustoð félagsins, til viðbótar við alifugla-, kjöt- og fiskiðnaði. Kaupin eruð háð hefðbundnum fyrirvörum, þ.m.t. fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda og hluthafa Wenger.

  • Fjórða stoðin bætist við viðskiptamódel Marel með kaupunum, til viðbótar við núverandi starfsemi í alifugla-, kjöt- og fiskiðnaði, og er gert ráð fyrir að nýtt tekjusvið muni skila pro-forma 10% af tekjum og 12% af sameiginlegri EBITDA-framlegð hjá sameinuðu félagi.
  • Mikil samlegð í vöruframboði og mörkuðum, en Wenger er leiðandi á heimsvísu sem framleiðandi á hátæknilausnum á sviði þrýstimótunar (e. extrusion) og þurrkunar (e. dryer technology) á vaxtarmörkuðum fyrir vinnslu gæludýrafóðurs, plöntupróteins og fiskeldisfóðurs.
  • Wenger var stofnað árið 1935 en starfsmenn félagsins í dag eru um 500 talsins. Áætlaðar árstekjur félagsins fyrir 2022 nema 190 milljónum bandaríkjadala, EBITDA er áætlað 32-35 milljónir bandaríkjadala og EBIT-framlegð 14-15%.
  • Heildarkaupverð er 540 milljónir bandaríkjadala en margfaldari í viðskiptunum er 14x EV/EBITDA (Heildarvirði/EBITDA) að teknu tilliti til væntra jákvæðra skattalegra áhrifa að fjárhæð 60-70 milljónir bandaríkjadala.
  • Pro-forma skuldahlutfall eftir kaupin mun verða um 3x nettó skuldir/EBITDA. Markmið félagsins um fjármagnsskipan er að halda skuldahlutfalli milli 2-3x nettó skuldir/EBITDA.
  • Kaupin eru í samræmi við vaxtarstefnu Marel um 12% árlegan meðalvöxt yfir tímabilið 2017-2026, sem byggir á bæði innri vexti og fyrirtækjakaupum.

Nýtt tekjusvið sem myndar fjórðu stoðina í viðskiptamódeli Marel

Með kaupunum á Wenger verður til nýtt tekjusvið hjá Marel sem rennir fjórðu stoðinni undir viðskiptamódel félagsins til viðbótar við alifugla-, kjöt- og fiskiðnað. Jafnframt marka kaupin mikilvægt skref inn á nýja og spennandi vaxtarmarkaði fyrir matvælavinnslu fyrir gæludýr, plöntupróteins og fóðurs fyrir fiskeldi. Í sameinuðu félagi er áætlað að umrætt tekjusvið muni pro-forma skila um það bil 10% af heildartekjum og 12% af EBITDA á ársgrundvelli.

Kaupin eru jafnframt mikilvæg viðbót við vöruframboð Marel og áframhaldandi vöxt, en saman munu félögin geta mætt aukinni eftirspurn eftir hagkvæmum og sjálfbærum matvælum og fóðri á heimsvísu.

Stefna og fyrirtækjamenning félaganna tveggja falla afar vel saman, og það sama gildir um vöruframboð og landfræðilega dreifingu, sem skapar góðan grundvöll fyrir frekari vöxt. Wenger deilir metnaði Marel fyrir nýsköpun og vöruþróun á hátæknilausnum, þar sem árangur er drifinn áfram af metnaðarfullum hópi starfsmanna og þéttu samstarfi við viðskiptavini. Wenger hefur fjölbreyttan og tryggan viðskiptavinahóp, allt frá sprotafyrirtækjum með áherslu á plöntuprótein til stórra alþjóðlegra framleiðenda gæludýrafóðurs. Þetta hefur skilað sér í góðri arðsemi, sterku sjóðstreymi og traustri ávöxtun fjármagns. Með því að byggja á alþjóðlegu sölu- og þjónustuneti Marel og stafrænum lausnum, eru félögin tvö vel í stakk búin að skapa tækifæri til frekari vaxtar.

Stökkpallur inn á nýja og spennandi vaxtarmarkaði

Alþjóðlegur markaður fyrir gæludýrafóður er metinn á yfir 100 milljarða evra og markaður fyrir fiskeldisfóður á yfir 50 milljarða evra, en árlegur vöxtur þeirra er áætlaður um 5-6%. Markaður fyrir plöntuprótein (e. plant-based protein) er um 7 milljarðar evra og er áætlað að hann vaxi um 15-20% árlega.

Markaðstækifæri (e. addressable market) Marel og Wenger fyrir lausnir og þjónustu á sviði gæludýrafóðurs, plöntupróteins og fiskeldisfóðurs er metinn á um 2 milljarða evra og ársvöxtur áætlaður 4-6%, sem er í samræmi við áætlanir Marel um markaðsvöxt til lengri tíma. Marel stefnir að því að vaxa hraðar en markaðurinn á grundvelli fjárfestinga sinna í nýsköpun, vöruþróun og alþjóðlegu sölu-og þjónustuneti.

Í gegnum árin hefur Marel jafnt og þétt útvíkkað starfsemi sína og er í dag eini markaðsaðilinn með heildarlausnir, hugbúnað og þjónustu fyrir matvælavinnslu á alifugla-, kjöt- og fiskmarkaði. Árið 2016 var stefna Marel og framtíðarsýn endurskilgreind í þá átt að umbylta matvælum á heimsvísu, og ná þannig til breiðari sóknartækifæra en dýrapróteinflokkanna þriggja. Árið 2020 tilkynnti Marel um aukna áherslu á aðliggjandi markaði og 2021 var stofnuð ný viðskiptaþróunardeild með áherslu á dýrafóður og plöntuprótein. Yfirgripsmikil þekking Wenger á því sviði mun flýta framþróun og sölu á byltingarkenndum lausnum fyrir stóra og ört stækkandi markaði fyrir gæludýrafóður, fiskeldisfóður og plöntuprótein.

Marel sér stór tækifæri fyrir sameinað félag og mun fjárfesta í rekstrinum til að stuðla að vexti. Áætlað er að kaupin muni hafa jákvæð áhrif á bæði framlegð og hagnað. Stefnt er að aukinni framleiðslugetu til að bregðast við mikilli eftirspurn á lykilmörkuðum Wenger. Þjónustutekjur Wenger eru yfir 40% af heildartekjum, en alþjóðlegt sölu- og þjónustunet Marel auk stafrænna lausna mun stuðla að aukinni fyrirbyggjandi þjónustu og þar af leiðandi betri þjónustu við viðskiptavini um heim allan.

Helstu atriði viðskiptanna

Marel hefur samþykkt að kaupa Wenger Manufacturing LLC, og tengdan rekstur. Heildarkaupverð er 540 miljónir bandaríkjadala, þar af eru 530 milljónir bandaríkjadala heildarvirði félagsins (e. enterprise value). Eftirstandandi fjárhæð 10 milljónir bandaríkjadala, er í formi framlags til góðgerðasjóðs sem verður stofnaður í nafni Wenger sem og hlutabréfa í Marel sem afhent verða starfsmönnum Wenger.

Kaupverðið verður greitt með reiðufé og núverandi lánalínum. Viðræður fara fram við seljendur um greiðslu hluta kaupverðs í hlutabréfum Marel og niðurstaða mun liggja fyrir áður en uppgjör fer fram. Með kaupunum mun skapast skattalegt hagræði fyrir félagið sem nemur 60-70 milljónum bandaríkjadala og aðlagaður margfaldari kaupanna er um 14x EV/EBITDA.

Kaupin eru fjármögnuð með sterkum efnahagsreikningi Marel og núverandi lánalínum. Til að viðhalda sveigjanleika í rekstri, hefur Marel skrifað undir 150 milljón evra brúarlán við BNP Paribas Fortis SA/NV. Ef kaupverðið verður greitt að fullu með reiðufé, er áætlað að skuldahlutfall eftir uppgjör fari í um 3x nettó skuldir/EBITDA, samanborið við markmið félagins um skuldahlutfall sem nemur 2-3x nettó skuldir/EBITDA.

Kaupin eru háð hefðbundnum fyrirvörum, þ.m.t. fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda og hluthafa Wenger, en áætlað er að gengið verði frá kaupunum á öðrum ársfjórðungi 2022.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri:

,,Við þekkjum Wenger teymið vel, og erum full tilhlökkunar að starfa saman að frekari umbreytingum á matvæla- og fóðurmarkaði. Fyrirtækjamenning og framtíðarsýn félaganna passa vel saman. Wenger líkt og Marel leggur áherslu á stöðuga nýsköpun og að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu. Wenger er leiðandi á heimsvísu í lausnum og þjónustu til matvælavinnslu fyrir gæludýr og fyrir fóður til fiskeldis. Á síðustu árum hefur Wenger náð góðri markaðsstöðu í ört vaxandi iðnaði fyrir vinnslu plöntupróteina fyrir neytendamarkað. Wenger er staðsett í miðri framleiðslukeðjunni (e. secondary processing), sem er sambærilegt við það hvar Marel hóf göngu sína á markaði hátæknilausna til fiskvinnslu.

Kaupin á Wenger eru í samræmi við sýn okkar þar sem matvæli eru framleidd á hagkvæman og sjálfbæran hátt. Í gegnum árin, hefur Marel skref fyrir skref, útvíkkað starfsemi sína. Hér myndast fjórða stoðin í viðskiptamódeli okkar við hlið þjónustu við alifugla-, kjöt- og fiskiðnað. Á samþættum grunni (e. pro forma) telur nýja stoðin til 10% tekna og um 12% af heildar EBITDA-framlegð.

Við sjáum mikil tækifæri til vaxtar og virðisaukningar með því að virkja alþjóðlegt sölu- og þjónustunet Marel til að sinna ört vaxandi markaði fyrir plöntuprótein og fóður. Tæknilausnir og vöruframboð falla vel saman og munu hraða vegferð okkar að bjóða heildarlausnir til þjónustu á þessum nýju og spennandi vaxtarmörkuðum. Hér munu stafrænar lausnir Marel spila lykilhlutverk, auk vélbúnaðar sem passar vel framan og aftan við tæknilausnir Wenger í framleiðslukeðjunni, þ.e. við grunnstig framleiðslu og vinnslu fullbúinna vara.

Sjóðstreymi Marel er sterkt og fjárhagur traustur sem styður við áframhaldandi vöxt í samræmi við metnaðarfull markmið. Ég er sannfærður um að saman verðum við fyrirmyndarfyrirtæki, sem skapar starfsmönnum og nærumhverfi áframhaldandi vöxt og viðgang.”

Trevor Angell, stjórnarformaður Wenger:

,,Wenger á sér langa sögu sem traustur samstarfsaðili á sviði hátæknilausna og nýsköpunar. Þar spila þau traustu viðskiptasambönd sem við leggjum mikla áherslu á að rækta og okkar öflugi hópur starfsmanna lykilhlutverk. Viðskiptavinir okkar á heimsvísu kalla eftir öflugum samstarfsaðilum og staðbundinni þjónustu til að tryggja að starfsemi þeirra sé sem skilvirkust. Marel hefur fjárfest ríkulega í alþjóðlegu sölu- og þjónustuneti sínu og stafrænum lausnum, sem mun styrkja stöðu Wenger sem fyrsta val viðskiptavina, auka líftíma tækjabúnaðar og þannig stuðla að bættri sjálfbærni. Starfsmenn okkar munu verða hluti af stóru og öflugu fyrirtæki á alþjóðamarkaði sem gefur þeim aukin tækifæri til að vaxa og dafna í starfi.

Okkur varð ljóst í viðræðum félaganna að mikil samlegð væri bæði í fyrirtækjamenningu sem og vöruframboði. Við byggjum á sömu gildum og framtíðarsýn, þar sem samtarf við viðskiptavini og umhyggja fyrir starfsfólki styðja vel við tækniforskot félaganna og þeirra jákvæðu áhrifa sem félögin geta haft á framleiðslu matvæla um heim allan. Það er okkur einstök ánægja að ganga til liðs við Marel og við höfum miklar væntingar um þau tækifæri sem í því felast fyrir viðskiptavini okkar og starfsmenn.”

Kynningarfundur, 28. apríl 2022

Marel boðar til kynningarfundar fyrir markaðsaðila fimmtudaginn 28. apríl kl. 14:00 þar sem stjórnendur munu fara yfir samkomulagið um kaupin á Wenger, starfsemi og helstu vaxtartækifæri.

Hlekkur á vefvarpið auk kynningarefnis verður sent út fyrir fundinn.

Nánari upplýsingar veita:

Fjárfestatengsl Marel: Tinna Molphy
IR@marel.com og sími 563 8001

Um Marel

Marel er í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu tækja, hugbúnaðar og þjónustu fyrir matvælavinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski. Í gegnum árin, hefur Marel skref fyrir skref, útvíkkað starfsemi sína. Með kaupunum á Wenger, sem tilkynnt voru 27. apríl, myndast fjórða stoðin í viðskiptamódeli Marel með áherslu á lausnum fyrir matvælavinnslu fyrir gæludýr, plöntuprótein og fóður fyrir fiskeldi. Hjá félaginu starfa yfir 7.500 manns í yfir 30 löndum, þar af um 750 á Íslandi. Marel velti um 1,4 milljarði evra árið 2021 en árlega fjárfestir Marel um 6% af veltu í nýsköpun og vöruþróun sem styður við aukna hagkvæmni, öryggi og sjálfbærni í matvælavinnslu. Félagið hefur verið skráð í Kauphöll Íslands síðan árið 1992 og var lokið við tvíhliða skráningu í Euronext Kauphöllina í Amsterdam árið 2019. Frekari upplýsingar má finna á marel.com/ir

Um Wenger

Wenger er fjölskyldufyrirtæki með höfuðstöðvar í Sabetha í Kansas í Bandaríkjunum, og er leiðandi á heimsvísu í hátæknilausnum til framleiðslu á gæludýrafóðri, plöntupróteini (e. plant-based protein) og fóðri fyrir fiskeldi. Félagið var stofnað árið 1935 af þeim Joe and Lou Wenger með auka áherslu á hagkvæmni í framleiðslu á nautgripafóðri. Með þrýstimótunartækni sinni hefur Wenger gjörbylt matvæla- og fóðurvinnslu fyrir menn og dýr. Orðspor félagsins er afar gott og vörur þess og þekking framúrskarandi. Starfsmenn eru yfir 500 talsins en félagið er meðal annars með starfsstöðvar í Kansas í Bandaríkjunum, Valinhos í Brasilíu og Kolding í Danmörku. Wenger hefur fjölbreyttan og tryggan viðskiptavinahóp, allt frá smáum sérhæfðum viðskiptavinum upp í stóra alþjóðlega matvælaframleiðendur. Áætlaðar árstekjur félagsins fyrir 2022 nema 190 milljónum Bandaríkjadala og EBITDA fyrir sama tímabil er áætlað 32-35 milljónir Bandaríkjadala.