English Icelandic
Birt: 2023-02-15 16:35:00 CET
Kvika banki hf.
Ársreikningur

Kvika banki hf.: Uppgjör Kviku banka hf. fyrir árið 2022 og afkomuspá fyrir næstu fjóra fjórðunga

Á stjórnarfundi þann 15. febrúar 2023 samþykktu stjórn og forstjóri ársreikning samstæðu Kviku banka hf. („Kvika“) fyrir árið 2022.
                                                                                                           
Helstu atriði úr ársreikningi

  • Hagnaður fyrir skatta nam 5.621 milljónum króna
  • Arðsemi efnislegs eigin fjár fyrir skatta var 13,1%
  • Hagnaður á hlut nam 1,02 kr. á árinu
  • Heildareignir námu 303 milljörðum króna
  • Eigið fé samstæðunnar var 81 milljarður króna
  • Gjaldþolshlutfall fjármálasamsteypunnar var 1,36 og eiginfjárhlutfall samstæðunnar án tryggingastarfsemi (CAR) var 23,5% í lok ársins
  • Heildar lausafjárþekjuhlutfall (LCR) samstæðunnar var 320%
  • Eignir í stýringu námu 462 milljörðum króna
  • Stjórn Kviku leggur til að greiddur verður arður að fjárhæð 0,4 kr. á hlut eða um 1.912 milljónum króna til hluthafa vegna rekstrarársins 2022
  • Sjálfbærniskýrsla Kviku fyrir árið 2022 kemur út samhliða birtingu ársreiknings

Kynningarfundur fyrir hluthafa og markaðsaðila verður haldinn kl. 16:15 miðvikudaginn 15. febrúar í höfuðstöðvum bankans, á 9. hæð í Katrínartúni 2, 105 Reykjavík. Fundinum verður jafnframt streymt á íslensku á eftirfarandi vefslóð:

https://kvika.is/kynning-a-uppgjori-2022/

Meðfylgjandi er fjárfestakynningin. Að auki mun upptaka með enskum texta vera gerð aðgengileg á vefsvæði Kviku.

Afkoma að undanskildum fjárfestingatekna í samræmi við áætlanir

Hagnaður Kviku fyrir skatta á árinu 2022 nam 5.621 milljón króna og 1.613 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi. Arðsemi efnislegs eigin fjár (e. return on tangible equity) fyrir skatta var 13,1% á árinu og 15,3% á fjórða ársfjórðungi.

Hreinar vaxtatekjur námu 7.675 milljónum króna og jukust um 65% miðað við árið á undan. Aukningu vaxtatekna má helst skýra með stækkun lánasafns, kaupum á Ortus Secured Finance og breyttri samsetningu lausafjáreigna. Hrein virðisrýrnun nam 532 milljónum króna á árinu samanborið við jákvæðar virðisbreytingar upp á 139 milljónir á árinu 2021. Hreinar fjárfestingatekjur námu 0.3 milljónum króna við krefjandi aðstæður á eignamörkuðum. Hreinar þóknanatekjur námu 6.408 milljónum króna sem er 6% lækkun frá fyrra ári. Rekstrarkostnaður nam 13.076 milljón króna á árinu og var í samræmi við áætlanir.

Samsett hlutfall TM í takt við markmið en erfiðar aðstæður á verðbréfamörkuðum

Samsett hlutfall TM nam 95,3% á árinu 2022 samanborið við 88,7% árið á undan en samsett hlutfall á fjórða fjórðungi nam 93,6%. Fjárfestingatekjur tryggingafélagsins námu 426 milljónum króna á árinu 2022 og ávöxtun eignasafnsins því 1,2% á árinu samanborið við 17,7% ávöxtun árið á undan. Fjárfestingatekjur á fjórða ársfjórðungi námu 972 milljónum króna og ávöxtun eignasafnsins því 3,0% samanborið við 3,7% á fjórða ársfjórðungi ársins 2021.

Sterkur efnahagur og góð lausafjárstaða

Heildareignir Kviku jukust um 23% eða 57 milljarða króna á árinu 2022 og námu 303 milljörðum króna í lok desember. Útlán til viðskiptavina jukust um tæpa 36 milljarða króna á árinu og  námu 107 milljörðum króna í lok árs. Aukningin er að hluta til komin vegna kaupa á Ortus Secured Finance Ltd. sem og innri vexti útlána. Innstæður í bönkum og Seðlabanka ásamt ríkistryggðum verðbréfum námu 95 milljörðum króna en heildar lausafjáreignir voru 116 milljarðar króna og jukust um 17 milljarða króna á árinu 2022. Heildar lausafjárþekja (LCR) samstæðunnar nam 320% í lok desember sem var vel umfram 100% lágmarkskröfu eftirlitsaðila.

Eigið fé samstæðunnar var 81 milljarðar króna í lok ársins samanborið við 78 milljarða króna í lok 2021. Stjórn Kviku mun leggja til við aðalfund þann 30. mars nk. að greiddur verður arður til hluthafa sem nemur 0,4 krónum á hlut eða 1.912 milljónum króna, að teknu tilliti til eigin bréfa, fyrir rekstrarárið 2022. Arðgreiðslan samsvarar um 40% af hagnaði eftir skatta árið 2022. Að teknu tilliti til fyrirhugaðrar arðgreiðslu er gjaldþolshlutfall fjármálasamsteypunnar 1,36 í lok árs 2022 og áhættuvegið eiginfjárhlutfall samstæðunnar án áhrifa af tryggingastarfsemi (CAR) 23,5%. Eiginfjárkrafa ásamt eiginfjáraukum eftirlitsaðila er 17,9%.

Uppfærð afkomuspá

Afkomuspá Kviku fyrir næstu fjóra fjórðunga gerir ráð fyrir 9,4 milljarða króna hagnaði fyrir skatta sem samsvarar 21,6% arðsemi á efnislegt eigið fé samstæðunnar. Nánari forsendur má sjá í meðfylgjandi fjárfestakynningu.

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku:

„Ég er ánægður með uppgjörið. Áhersla okkar á fjölbreytta tekjustrauma heldur áfram að sanna gildi sitt þar sem sterkur kjarnarekstur samstæðunnar skilar félaginu ágætri arðsemi þrátt fyrir litlar tekjur vegna fjárfestinga á árinu.

Kvika er í sterkri stöðu og það er skemmtilegt að segja frá því að samhliða birtingu uppgjörs kynnum við útvíkkun á þjónustu bankans. Stefna okkar á undanförnum árum hefur verið að sjá tækifæri í að auka samkeppni á íslenskum fjármálamarkaði. Það viljum við gera með því að bjóða upp á þjónustur sem aðrir gera ekki, líkt og við gerðum með því að bjóða upp á sparnað í gegnum Auði, sem bauð í upphafi upp á margfalt hærri vexti en þekktust á sambærilegum reikningum. Við höldum áfram á sömu braut og erum nú að undirbúa aukið vöruframboð í Aur appinu, sem er nú með yfir 100 þúsund notendur.

Fyrir tveimur vikum sendi Kvika stjórn Íslandsbanka erindi og óskaði eftir viðræðum um samruna félaganna. Það er ánægjulegt að stjórn Íslandsbanka sé tilbúin í þessa vegferð með okkur og munu formlegar viðræður nú hefjast. Ef stjórnir ná saman, og hluthafar og eftirlitsaðilar samþykkja, sé ég ýmis tækifæri felast í samrunanum. Ég tel að hægt verði að halda áfram að auka samkeppni, t.d. með Aur og öðrum fjártæknilausnum, ásamt því að nýta fjárhagslegan styrk til þess að koma fram með nýjungar. Jafnframt hef ég væntingar til þess að samruni geri félagið að enn áhugaverðari fjárfestingarkosti sem getur meðal annars leitt til hagkvæmari fjármögnunar sem skapar tækifæri til þess að ná árangri í samkeppni.“

Viðhengi



Kvika - 12M 2022 Presentation.pdf
Kvika - Consolidated Financial Statements 31.12.2022.pdf