Icelandic
Birt: 2022-01-13 11:17:19 CET
Festi hf.
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Stjórn Festi endurskoðar starfsreglur sínar

Í síðustu viku birtist viðtal í fjölmiðlum við unga konu sem lýsti meintu kynferðisbroti gegn sér og var þungbært að heyra um hennar reynslu. Skýr skilaboð hafa komið frá samfélaginu um að fyrirtæki sem tengjast slíkum málum bregðist fyrr við og taki á málum með skýrari og ákveðnari hætti.
  
Umrætt mál var litið mjög alvarlegum augum af stjórn Festi frá því hún heyrði af því fyrst og var það tekið til skoðunar á vettvangi hennar í samræmi við þau lög, samþykktir og reglur sem henni ber að starfa eftir. Frá upphafi var ljóst að innan þessa ramma hafði stjórn lítið rými til að bregðast við. Þegar málið varð opinbert með afgerandi hætti með áðurnefndu viðtali í byrjun janúar sagði fyrrverandi stjórnarformaður af sér. 
  
Að fenginni þessari reynslu er það mat stjórnar Festi að þörf sé á að endurskoða starfsreglur stjórnar. Markmið þeirrar endurskoðunnar er að bæta reglur og gera vinnulag skýrara ef fram koma upplýsingar sem benda til mögulegs vanhæfis stjórnarmanna og hefur stjórn ákveðið að hefja þá vinnu strax. Festi er með skýrar reglur fyrir alla stjórnendur og starfsmenn félagsins og dótturfélaga sem verða lagðar til grundvallar við endurskoðun á starfsreglum stjórnar. Það er markmið og vilji stjórnar Festi að vera ætíð til fyrirmyndar um góða stjórnarhætti og mun niðurstaða endurskoðunar á starfsreglum stjórnar verða kynntar á aðalfundi 22. mars nk. 

Stjórn Festi fordæmir allt ofbeldi og telur mikilvægt að hlustað sé á þolendur. Það er skylda okkar að breytast með samfélaginu og í sameiningu eigum við að búa til öruggara umhverfi fyrir okkur öll.   

Stjórn Festi 13. janúar 2022