English Icelandic
Birt: 2022-07-07 12:11:07 CEST
Fly Play hf.
Fyrirtækjafréttir

Fly Play hf.: 79,2% sætanýting, nærri níutíu þúsund farþegar og ört lækkandi einingakostnaður

79,2% sætanýting, nærri níutíu þúsund farþegar og ört lækkandi einingakostnaður

PLAY flutti 87.932 farþega í júní, sem er 55% aukning frá mánuðinum á undan, þegar 56.601 farþegar voru fluttir. Það er til marks um mikinn vöxt að þessi fjöldi jafnast nánast á við heildarfjölda farþega ársins 2021 á fyrstu sex mánuðum starfseminnar.

Í júní nam sætanýting 79,2%, samanborið við 69,6% sætanýtingu í maí. Þessi sætanýting telst mjög ásættanleg í ljósi þess að um var að ræða fyrsta mánuðinn þar sem tengiflugsáætlunin yfir Atlantshaf var komin í fullan gang og mikið um nýja áfangastaði

Stundvísi í júní mældist 79,1%. Enda þótt það sé ekki alls kostar í samræmi við viðmið okkar í venjulegu árferði, telst sú tölfræði fullnægjandi í ljósi þess að annars vegar var félagið að enda við að stækka tengiflugsleiðakerfið og hins vegar að mannekla hefur verið mikil og þjónustustig lágt á flugvöllum í Evrópu með tilheyrandi keðjuverkandi seinkunum.

Hraður bati á sviði alþjóðaflugs um allan heim og skortur á starfsfólki í greininni eftir heimsfaraldur hefur valdið talsverðum töfum í leiðarkerfum flugfélaga víðsvegar um heim og þar er PLAY ekki undanskilið. Af þessum orsökum hefur fallið til kostnaður og röskun á ferðatilhögun farþega félagsins. Þessi kostnaður er staðreynd í flugrekstri og er því stærð sem sett er inn í rekstraráætlanir PLAY. Sá kostnaður sem félagið hefur orðið fyrir rúmast innan þess sem gert hefur verið ráð fyrir í áætlunum félagsins.

Bætt í eldsneytisvarnir og sjötta vélin komin á loft

Á fyrsta ársfjórðungi 2022, hóf PLAY að innleiða eldsneytisvarnastefnu félagsins. Fyrsta skrefið var varfærið og verið er að stíga það næsta, nú þegar ákveðið hefur verið að bæta í eldsneytisvarnirnar. Með þeirri viðbót er félagið að tryggja 30% olíunotkunar sinnar á næstu þremur mánuðum og 15% til næstu fjögurra til sex mánaða. Það skref er rökrétt framhald á innleiðingu stefnu félagsins í eldsneytisvörnum.

Sjötta flugvél PLAY, Airbus A320neo, kom til Íslands í lok júní og hóf nýlega farþegaflug. PLAY er nú með þrjár slíkar vélar í notkun og aðrar þrjár Airbus A321neo til viðbótar, allt samkvæmt áætlun. Þessar flugvélar eru nú að flytja farþega til 25 áfangastaða félagsins í Bandaríkjunum og Evrópu.

„Júní markar enn ein tímamótin í sögu PLAY. Við starfræktum loks tengiflugsleiðarkerfið allt eins og það leggur sig og það með sex flugvélar í notkun. Það er frábært að sjá einingarkostnaðinn snarlækka þegar við höfum náð þessum skala í starfseminni. Nú höfum við náð markmiðum okkar um að einingarkostnaður án eldsneytis (CASK ex-fuel and emissions) sé minni en fjögur sent, í takt við þær áætlanir sem félagið hefur þegar kynnt. Þetta skiptir sköpum þegar kemur að því að bjóða upp á lægsta verðið á mörkuðum okkar. Þar ræður lágur grunnkostnaður úrslitum. Tölfræðin núna er að staðfesta grundvallarhagkvæmni viðskiptamódelsins sem lagt var upp með og hvetur okkur til dáða að keyra kostnað enn frekar niður eftir því sem við höldum áfram að vaxa. Flugrekstraraðilum í Evrópu hefur reynst erfitt að skala starfsemina aftur upp og það hefur bitnað á okkur eins og öllum öðrum, en þeim mun stoltari er ég af starfsfólki okkar á flugrekstrarsviði, tæknifólkinu okkar, áhafnarmeðlimum og þjónustuteyminu okkar. Ég get ekki annað en dáðst að því hvernig þau hafa tryggt stundvísi og sem besta upplifun fyrir farþega okkar á tímum þar sem við erum að stækka mjög hratt og ástandið er eins erfitt á alþjóðaflugvöllum og raun ber vitni. Ég tek hattinn ofan fyrir þessu fólki og öllu starfsfólki PLAY og þakka þeim fyrir þrotlausa vinnu og metnað,”segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.

ViðhengiFly Play hf - Traffic Report JUNE 2022.pdf