English Icelandic
Birt: 2023-09-06 20:11:14 CEST
Icelandair Group hf.
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Icelandair: Yfir 20% fjölgun farþega það sem af er ári

Icelandair flutti 547 þúsund farþega í ágústmánuði og hefur flutt tæpar þrjár milljónir farþega það sem af er ári, 21% fleiri en á sama tímabili í fyrra. Sumarmánuðirnir þrír, júní, júlí og ágúst eru jafnan stærstir hvað farþegafjölda varðar og flutti félagið 1,6 milljónir farþega þessa þrjá mánuði.

Farþegar til Íslands voru 249 þúsund, frá Íslandi 51 þúsund, tengifarþegar voru 223 þúsund og innanlandsfarþegar tæplega 25 þúsund. Sætanýting var 83,9% og stundvísi var 78,9%. Seldir blokktímar í leiguflugi voru 18% fleiri en í fyrra og aukning í tonnkílómetrum í fraktflutningum nam 43%.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:

„Það er ánægjulegt að sjá farþegatölur ágústmánaðar og að farþegafjöldi er á svipuðum slóðum og árið 2019, síðasta heila starfsár fyrir heimsfaraldur. Við sjáum áfram mjög góðan árangur á Norður-Ameríkumarkaði og í því ljósi er áhugavert að rifja upp hvernig ævintýrið hófst. Í ágústmánuði fögnuðum við því að nú eru 75 ár frá fyrsta farþegafluginu til Bandaríkjanna. Þá buðum við upp á sex flug í mánuði til New York og Chicago og tók flugið rúmar fjórtán klukkustundir. Í dag fljúgum við um 600 flug í mánuði til 15 áfangastaða í Norður-Ameríku, fleiri flug en frá öllum hinum Norðurlöndunum samanlagt. Við höldum áfram að bjóða upp á nýjungar í vetur og munum til dæmis fljúga tvisvar á dag flesta daga vikunnar til Boston og New York. Vetraráætlun okkar er sú umfangsmesta til þessa með fleiri heilsársáfangastöðum en áður en Baltimore, Raleigh-Durham, Róm og Vancouver bætast nú í þann hóp. Þá hlökkum við til að hefja flug frá Akureyri beint til Keflavíkur sem mun tengja inn í flugáætlun okkar til Evrópu yfir fimm vikna tímabil í haust.”

Tengiliðir:
Fjárfestar: Íris Hulda Þórisdottir, Director Investor Relations. E-mail: iris@icelandair.is
Fjölmiðlar: Ásdis Pétursdottir, Director Communications. E-mail: asdis@icelandair.is

Viðhengi



08 Traffic Data - August.pdf