SKAGI - Uppgjör Vátryggingafélags Íslands hf. á 3. ársfjórðungi 2024 Áframhaldandi góður vöxtur í grunnrekstri - Virðislækkun óskráðra eigna litar afkomu Afkoma 3F 2024 hjá samstæðu Vátryggingafélags Íslands hf. Helstu lykiltölur 3F 2024 Samstæðan - Hagnaður eftir skatta nam 427 m.kr. (3F 2023: 607 m.kr.).
- Áframhaldandi tekjuvöxtur í tryggingastarfsemi með 9,8% vöxt milli ára. Kostnaðarhlutfall fer lækkandi og samsett hlutfall í takt við markmið.
- Hreinar tekjur í fjármálastarfsemi nema 492 m.kr. á fjórðungnum og vaxa um 86% milli ára í pro-forma samanburði.
- Ávöxtun af fjáreignum, sér í lagi skráðum hlutabréfum, tók við sér á fjórðungnum en 417 m.kr. niðurfærsla á virði Controlant litar afkomu fjárfestinga
- Hagnaður á hlut nam 0,23 kr. á tímabilinu.
- Eigið fé samstæðu nemur 20,4 ma.kr.
- Arðsemi eigin fjár nam 8,5% á ársgrundvelli (2023: 14,6%) og gjaldþol samstæðu er 1,48 í lok tímabilsins.
Tryggingastarfsemi - Áframhaldandi tekjuvöxtur í tryggingastarfsemi sem vex um 9,8% á milli ára.
- Tekjuvöxtur í líf- og sjúkdómatryggingum var 14,2% milli ára.
- Samsett hlutfall var 92,3% (3F 2023: 94,7%).
- Kostnaðarhlutfall var 16,3% (3F 2023: 18,7%).
- Afkoma af vátryggingasamningum nam 590 m.kr. (3F 2023: 368 m. kr.) og batnar umtalsvert á milli ára.
Fjármálastarfsemi - Hreinar tekjur af fjármálastarfsemi námu 492 m.kr. (Pro-forma 3F 2023: 264 m.kr.).
- Eignir í stýringu (e. AuM) námu 123 ma.kr. í lok fjórðungsins.
- Afkoma af fjármálastarfsemi var neikvæð um 31m fyrir skatta en jákvæð um 76 m.kr. eftir skatta.
Fjárfestingar - Fjárfestingartekjur námu 713 m.kr (3F 2023: 777 m.kr.), sem samsvarar 1,6% ávöxtun.
- Ávöxtun af fjárfestingum var undir viðmiði á fjórðungnum sem stafar af stærstum hluta af vægi óskráðra hlutabréfa í safninu og áhrifum af lækkun á virði Controlant.
- Hreinar tekjur af fjárfestingum námu 119 m.kr. (3F 2023: 389 m.kr.).
Helstu lykiltölur 9M 2024 - Hagnaður samstæðu eftir skatta nam 700 m.kr. (9M 2023: 1.680m.kr.). og arðsemi eiginfjár nam 3,9% á ársgrundvelli (9M 2023: 13,1%)
- Afkoma af vátryggingasamningum nam 1.042 m.kr. (9M 2023: -102 m.kr.) og tekjuvöxtur 10,2%
- Samsett hlutfall 95,2% (9M 2023: 100,5%).
- Kostnaðarhlutfall 18,9% (9M 2023: 21,8%)
- Hreinar tekjur af fjármálastarfsemi námu 1.452 m.kr. (Pro-forma 9M 2023: 779 m.kr.).
- Fjárfestingatekjur námu 2.011 m.kr. (9M 2023: 3.255 m.kr.) og hreinar fjárfestingatekjur námu 560 m.kr. (9M 2023: 1.975 m.kr.)
Haraldur Þórðarson, forstjóri samstæðu: „Grunnrekstur samstæðunnar gekk vel á þriðja ársfjórðungi ársins. Áframhaldandi vöxtur einkenndi tryggingastarfsemina og undirliggjandi arðsemi batnaði áfram líkt og undanfarna fjórðunga. Iðgjaldavöxtur var 9,8% á fjórðungnum sem er í takt við áætlanir og samsett hlutfall var 92,3% sem er talsverð lækkun á milli ára. Tekjur af fjármálastarfsemi halda áfram að vaxa og afkoman fer batnandi eftir nokkrar sveiflur á fyrri hluta árs. Aukin umsvif á fjármálamörkuðum með haustinu gefa jafnframt tilefni til bjartsýni varðandi komandi misseri. Ávöxtun af fjárfestingaeignum á tímabilinu var undir markmiðum en niðurfærsla á virði Controlant í litaði afkomu fjárfestinga talsvert. Á fyrstu 9 mánuðum ársins var grunnrekstur samstæðunnar í takt við markmið og eru horfur ársins og rekstrarmarkmið til lengri tíma óbreyttar. Aukin skilvirkni samstæðu og afkomuhorfur fyrir árið 2025 settar fram Við horfum, sem fyrr, til þess að auka skilvirkni innan samstæðunnar, og höfum við nýverið ráðist í aðgerðir sem miða að því að lækka árlegan rekstrarkostnað samstæðunnar um 300 milljónir króna. Samhliða þessu horfum við til þess að ná fram árlegri kostnaðarsamlegð í fjármálastarfsemi um ríflega 220 milljónir með innkomu Íslenskra verðbréfa í samstæðuna. Samanlagt eiga þessar aðgerðir að skila samstæðunni ríflega 500 milljóna afkomubata horft fram á veginn. Við leggjum því nú fram afkomuhorfur fyrir árið 2025 sem endurspegla það rekstrarhagræði sem ráðist hefur verið í og þann takt sem við finnum fyrir í grunnrekstri félagsins. Áframhaldandi vöxtur í tryggingastarfsemi Tryggingarekstur samstæðunnar hélt áfram að vaxa umfram verðbólgu og tryggingamarkaðinn. Kostnaðarhlutfall lækkaði jafnframt áfram og nam 16,3% á fjórðungnum samanborið við 18,7% árið áður. Samsett hlutfall þróaðist í takt við markmið og nam 92,3% á fjórðungnum og 95,2% á fyrstu 9 mánuðum ársins, þrátt fyrir fimm stærri tjón það sem af er ári. Þessi tjón telja um 3,3% í samsettu hlutfalli sem er nokkuð hærra en fyrstu 9 mánuði síðasta árs. Breyttar áherslur í sölufyrirkomulagi og aðgerðir til að auka skilvirkni halda því áfram að bera ávöxt, en afkoma af vátryggingasamningum nam 590 m.kr. á fjórðungnum samanborið við 368 m.kr. árið 2023. Viðsnúningur í afkomu tryggingarekstrar nemur um 1.144 milljónum króna milli ára. Ávöxtun fjárfestingareigna undir viðmiði og litaðist talsvert af niðurfærslu á Controlant Fjárfestingatekjur á þriðja fjórðungi námu 713 m.kr. eða því sem nemur 1,6% nafnávöxtun. Fjárfestingatekjur fyrstu 9 mánuði ársins námu samtals 2.011 m.kr. sem samsvarar 4,6% ávöxtun. Ávöxtun af skráðum hlutabréfum tók við sér á fjórðungnum og námu 293 m.kr. króna, en rúmlega 60% niðurfærsla á gengi Controlant, úr 80 krónur á hlut í 30 krónur á hlut, hafði neikvæð áhrif á ávöxtun. Námu áhrif af lækkun á virði Controlant alls um 417 m.kr. á fjórðungnum. Áframhaldandi tekjuvöxtur í fjármálastarfsemi Tekjur af fjármálastarfsemi héldu áfram að vaxa samanborið við fyrra ár. Hreinar tekjur af fjármálastarfsemi námu 478 m.kr. á fjórðungnum, samanborið við 264 m.kr. á sama tíma árið áður í pro-forma samanburði. Fyrstu níu mánuði ársins námu tekjur af fjármálastarfsemi um 1.452 m.kr., samanborið við 779 m.kr. á sama tíma árið áður í pro-forma samanburði, sem samsvarar um 86% vexti á tímabilinu. Þess ber að geta að starfsemi SIV hófst ekki fyrr en á seinni árshelmingi síðasta árs. Afkoma af fjármálastarfsemi á þriðja ársfjórðungi var neikvæð um 31 m.kr. fyrir skatta en jákvæð um 76 m.kr. eftir skatta. Undir lok fjórðungsins luku Fossar sinni annarri skuldabréfaútgáfu sem var til tveggja ára á á ávöxtunarkröfunni 9,48%. Eftirspurn eftir fjármögnun félagsins á samkeppnishæfum kjörum styður við vegferð bankans um kröftugan vöxt. Íslensk verðbréf hluti af samstæðu frá og með fjórða ársfjórðungi Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands veitti í lok október samþykki fyrir virkum eignarhlut samstæðunnar í Íslenskum verðbréfum og ÍV sjóðum. Í framhaldinu voru kaupin að fullu frágengin þann 11. nóvember sl. og verður samstæða Íslenskra verðbréfa því hluti af samstæðuuppgjöri Skaga frá og með fjórða ársfjórðungi þessa árs. Strax í kjölfarið er fyrirhuguð samþætting ÍV í fjármálastarfsemi í samstæðu Skaga þar sem meðal annars er horft til sameiningar ÍV sjóða og SIV eignastýringar ásamt því að samþætta vörslu og miðlun hjá ÍV yfir í Fossa. Kostnaðarsamlegð í fjármálastarfsemi Skaga er áætluð um 220 milljónir á ársgrundvelli, þegar hún hefur komið að fullu til framkvæmda. Með innkomu ÍV aukast eignir í stýringu í samstæðu Skaga um ríflega 100 milljarða og er áætlað að árlegar eigna- og sjóðastýringartekjur í fjármálastarfsemi Skaga muni samanlagt verða vel umfram 1 milljarð króna á næsta ári. Óbreyttar horfur fyrir árið 2024 Horfur fyrir rekstrarárið 2024, sem settar voru fram í upphafi árs, eru óbreyttar1: - Tryggingastarfsemi: Samsett hlutfall verði á bilinu 94% – 97%. Markmið <95%.
- Fjármálastarfsemi: Hreinar fjármálatekjur2 nemi á bilinu 1.900 – 2.600 milljónir. Markmið >2.200 milljónir.
- Fjárfestingartekjur: Áætluð ávöxtun fjárfestingareigna á árinu er 11% en það er byggt á forsendum miðað við vaxtastig í upphafi árs og fjárfestingarstefnu.3
Horfur fyrir árið 2025 Horfur fyrir rekstrarárið 2025 settar fram2: - Tryggingastarfsemi: Samsett hlutfall verði á bilinu 93% – 96%. Markmið <94%.
- Fjármálastarfsemi: Hreinar fjármálatekjur4 nemi á bilinu 2.900 – 3.500 milljónir. Markmið >3.100 milljónir.
- Fjárfestingartekjur: Áætluð ávöxtun fjárfestingareigna á árinu er 10% en það er byggt á forsendum miðað við vaxtastig og fjárfestingarstefnu.5
Kynningarfundur Kynningarfundur vegna uppgjörsins verður haldinn miðvikudaginn 27. nóvember, klukkan 16.30 í höfuðstöðvum félagsins í Ármúla 3, Reykjavík. Haraldur Þórðarson, forstjóri samstæðu, og Brynjar Þór Hreinsson, fjármálastjóri samstæðu, munu kynna uppgjörið. Hægt verður að fylgjast með fundinum í beinu streymi og nálgast má upptöku af honum á fjárfestasíðu félagsins. Þar verður einnig hægt að nálgast kynningarefni fundarins. Fjárhagsdagatal Ársuppgjör 2024 || 26. febrúar 2025 Nánari upplýsingar Nánari upplýsingar veitir Haraldur Þórðarson, forstjóri Skaga. Vinsamlegast sendið fyrirspurnir á netfangið haraldur@skagi.is.
1 Upplýst verður um afkomuhorfur í trygginga- og fjármálastarfsemi ef þær breytast frá þeim vikmörkum sem kynntar eru. 2 Hreinar fjármálatekjur eru allar tekjur í fjármálastarfsemi, þ.m.t. hreinar vaxta- og þóknanatekjur, fjármunatekjur og aðrar tekjur. 3 Um er að ræða áætlaða ávöxtun fjárfestingareigna VÍS. Ekki verður upplýst um frávik frá áætlaðri ávöxtun fjárfestingareigna. Félagið birtir upplýsingar um stærstu eignir í fjárfestingarstarfsemi í fjárfestakynningum ársfjórðungslega. Hafa skal í huga að heildarstærð fjárfestingarsafnsins getur hækkað og lækkað vegna verðbreytinga, arðgreiðslna, endurkaupa, tilfærslu á ráðstöfun fjármagns innan samstæðu o.fl. 4 Hreinar fjármálatekjur eru allar tekjur í fjármálastarfsemi, þ.m.t. hreinar vaxta- og þóknanatekjur, fjármunatekjur og aðrar tekjur.
|