Drög að uppgjöri Arion banka fyrir þriðja ársfjórðung 2021 liggja nú fyrir og samkvæmt þeim er afkoma fjórðungsins um 8,2 milljarðar króna og reiknuð arðsemi á ársgrundvelli um 17%. Afkoman er umfram fyrirliggjandi spár greiningaraðila.
Rekstrartekjur fjórðungsins námu um 15 milljörðum króna, þar af eru tekjur af kjarnastarfsemi (hreinar vaxtatekjur, hreinar þóknanatekjur og hreinar tekjur af tryggingastarfsemi) um 12,7 milljarðar króna og hækka um 7,5% frá þriðja ársfjórðungi 2020. Rekstrarkostnaður fjórðungsins nemur um 5,6 milljörðum króna og hækkar um tæp 7% frá sama tímabili 2020.
Stærstu breytingarnar milli ára eru eftirfarandi:
- Hreinar þóknanatekjur námu 3,8 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi 2021, samanborið við 2,8 milljarða króna á sama tíma 2020 og er aukningin mest í fyrirtækja- og fjárfestingarbankastarfsemi og eignastýringu.
- Hreinar fjármunatekjur námu 1,4 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi 2021, samanborið við 0,7 milljarða króna á sama tíma 2020.
- Virðisbreyting útlána var jákvæð um 0,7 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi 2021 en á sama tíma fyrir ári var virðisbreyting neikvæð um 1,3 milljarða króna og tengdist að mestu óvissu sem uppi var vegna COVID-19 faraldursins.
- Jákvæð afkoma af eignum til sölu var um 0,6 milljarðar króna á þriðja ársfjórðungi 2021 samanborið við neikvæð áhrif upp á 1,0 milljarð króna á sama fjórðungi 2020.
Tekjuskattshlutfall fjórðungsins er 20% og kostnaðarhlutfall er um 38%.
Uppgjörið fyrir þriðja ársfjórðung 2021 er enn í vinnslu og kann því að taka breytingum fram að birtingardegi þann 27. október nk.