English Icelandic
Birt: 2024-03-07 10:00:36 CET
Fly Play hf.
Fyrirtækjafréttir

Fly Play hf.: 81% sætanýting, 66% aukning í farþegafjölda og 90% stundvísi

Flugfélagið PLAY flutti 106.042 farþega í febrúar 2024, sem er 66% aukning frá febrúar í fyrra þegar PLAY flutti 63.949 farþega. Sætanýting í febrúar var 81%, samanborið við 76,9% í febrúar í fyrra. Þessi aukning í sætanýtingu er til marks um að eftirspurnin hefur tekið við sér á ný eftir að hafa orðið fyrir höggi vegna ónákvæms fréttaflutnings á heimsvísu af jarðhræringum á Reykjanesskaga síðastliðið haust.

Af þeim farþegum sem flugu með PLAY í febrúar voru 27,9% á leið frá Ísland, 40% voru á leið til Íslands og 32,1% voru tengifarþegar (VIA).

Aukning varð á sætanýtingu frá áfangastöðum okkar í Norður Ameríku, úr 67% í febrúar 2023 í 78% í febrúar 2024. París og Barcelona voru með yfir 90% sætanýtingu og Alicante með 90% prósenta sætanýtingu.

Stundvísi PLAY í febrúar mánuði var 90% og það sem af er ári 2024 er stundvísi 84,1%.

Nýir áfangastaðir og sölumet

PLAY hefur hafið miðasölu á áætlunarferðum til Madeira í Portúgal og Marrakesh í Marokkó. Áætlun PLAY til Madeira hefst 15. október og verður flogið vikulega á þriðjudögum. Áætlunin til Marrakesh hefst 17. október og verður flogið þangað allt að tvisvar í viku á fimmtudögum og sunnudögum. Vilníus í Litháen og Split í Króatíu hefur einnig verið bætt við leiðakerfi PLAY það sem af er ári.

PLAY sló sölumet fyrir heila viku í upphafi febrúarmánaðar sem var einnig sá mánuður sem var með hæstu daglegu tekjur í sögu PLAY og bókunarstaðan fram í tímann er sterk.

Birgir Jónsson, forstjóri PLAY

„Febrúar var nokkuð góður mánuður fyrir PLAY. Við sáum eftirspurnina taka við sér eftir krefjandi tímabil í kjölfar ónákvæms fréttflutnings á heimsvísu tengdum jarðhræringum sem minnkaði eftirspurnina eftir Íslandi sem áfangastað síðastliðna mánuði.

Við sáum hins vegar viðsnúning í febrúar og í því samhengi er hægt að nefna að sætanýtingin var 81%, eða fjórum prósentustigum hærri en í febrúar í fyrra. Á sama tíma fjölgaði farþegum okkar um 66% í 106 þúsund. Flugrekstrarsviðið okkar og áhafnir náðu frábærum árangri með því að halda stundvísi í 90%, sem er mikið afrek yfir vetrarmánuðina á Íslandi og enn ein sönnun þess hve mikil fagmennska býr í teyminu.

Við bættum nýlega við nýjum áfangastöðum í leiðakerfið okkar, Vilnius, Split, Madeira og Marrakesh. Það skemmtilega við Marrakesh fyrir okkur er að þetta verður í fyrsta sinn sem áætlunarflugi á milli Íslands og Afríku verður haldið úti.

Þá náðum við mikilvægum áfanga þegar við tryggðum okkur vilyrði upp á fjóra milljarða króna frá bæði núverandi og nýjum hluthöfum. Þegar þessum fjármögnunaráfanga er lokið og hann hefur verið samþykktur á aðalfundi félagsins í mars, getum við tekið skrefið á næsta vaxtastig félagsins, vel fjármögnuð og með það fyrir augum að ná framtíðarmarkmiðum félagsins.

Þegar við berum komandi sumarvertíð saman við síðasta ár, þá sjáum við umtalsvert hærri sætanýtingu og verð auk áframhaldandi vaxtar í hliðartekjum. Við höfum því margt til að gleðjast yfir og munum halda áfram að halda kostnaði lágum, auka tekjur og veita farþegum gæðaþjónustu á góðu verði.“


Viðhengi



Fly Play hf. Traffic Report February 2024.pdf