English Icelandic
Birt: 2024-10-16 18:55:00 CEST
Fly Play hf.
Innherjaupplýsingar

Fly Play hf.: Breytingar á viðskiptalíkani PLAY og afkoma undir væntingum


Flugfélagið PLAY boðar grundvallarbreytingar á viðskiptalíkani félagsins frá og með miðju næsta ári. Megininntak þeirra er að stórefla þjónustu félagsins til sólarlandaáfangastaða frá Íslandi en draga töluvert úr umsvifum tengiflugs á milli Norður-Ameríku og Evrópu. 

Beint flug PLAY til áfangastaða félagsins í Suður-Evrópu, hefur verið arðbært frá upphafi. Aftur á móti og eins og áður hefur verið greint frá hefur afkoma PLAY af tengiflugi yfir Atlantshafið valdið vonbrigðum, sérstaklega á yfirstandandi ári. Markaðsaðstæður á Atlantshafinu hafa breyst á undangengnum misserum. Mikil framboðsaukning hefur verið á beinu flugi á milli Norður-Ameríku og Evrópu sem hefur haft neikvæð áhrif á rekstrarniðurstöðu félagsins.

Af þessum ástæðum hefur verið tekin ákvörðun um að draga verulega úr Norður-Ameríkuflugi félagsins. Sú breyting er þegar hafin að nokkru leyti og mun sú þróun halda áfram á næsta ári. Áfangastöðum félagsins í Norður-Ameríku og Norður-Evrópu verður fækkað frá og með miðju næsta ári. Á hinn bóginn verður áætlun félagsins til Suður-Evrópu enn efld. Þessar breytingar munu hafa lítil eða engin áhrif á þá farþega PLAY sem hafa nú þegar bókað flug með félaginu. 

Sótt um flugrekstrarleyfi á Möltu 

Samhliða ofangreindum breytingum hyggst PLAY auka fjölbreytni í nýtingu flugflota síns, sem telur nú tíu vélar, meðal annars með því að fljúga fyrir aðra aðila utan Íslands. Fyrsta verkefni félagsins af þessum toga hefst þegar í næsta mánuði. Um er að ræða rúmlega fjögurra mánaða verkefni fyrir bandaríska flugfélagið GlobalX í Miami sem hefst þann 1. nóvember og lýkur þann 15. mars á næsta ári. Þá hefur PLAY hafið umsóknarferli um flugrekstrarleyfi á Möltu til að greiða fyrir fjölbreyttari starfsemi á vegum félagsins. Reikna má með að því að nýja flugrekstrarleyfið verði í höfn næsta vor. Stefnt er að því að fyrsta vél PLAY sem færð verður yfir á nýtt flugrekstrarleyfi verði staðsett á Tenerife og muni þaðan meðal annars fljúga til Keflavíkur og Akureyrar. Eftir breytingarnar verða um sex til sjö vélar staðsettar á Íslandi á íslenska flugrekstrarleyfinu og þrjár til fjórar erlendis. 

Fjárhagsstaða PLAY er áfram sterk og ekki er talin þörf á auknu fjármagni til rekstrarins á næstunni. Uppfærð afkomuáætlun gefur þó vísbendingar um að rekstrarafkoma félagsins verði verri en á síðasta ári, ólíkt því sem spáð hafði verið fyrir um. Áhrif framboðsaukningar á flugi yfir Atlantshafið hafði þannig meiri áhrif á stöðu félagsins en ætlað var. 

Ítarlega verður farið yfir ofangreindar breytingar á afkomufundi félagsins sem haldinn verður í Sykursalnum í Grósku kl 16:00 þann 24. október næstkomandi.

„Frá stofnun PLAY hafa markaðsaðstæður breyst og tengiflugskerfi yfir Atlantshafið virðist félaginu ekki eins arðbært og áður. Þess vegna hefur sú leið verið farin að gera breytingar á viðskiptalíkani okkar sem taka gildi frá og með miðju næsta ári. PLAY er flugfélagið sem íslenski ferðalangurinn velur og hyggjumst við auka enn við okkur á þeim markaði. Með öðrum orðum ætlum við að einbeita okkur að þeim hluta rekstrarins sem hefur gengið vel og verið arðbær, það er flug með farþega á milli Suður-Evrópu og Íslands. PLAY er með tíu farþegaþotur í rekstri og með breytingunum verða sex til sjö þeirra á íslenska flugrekstrarleyfinu á meðan hinar, þrjár til fjórar, verða notaðar í önnur verkefni. Þar erum við til dæmis að horfa til leigu á einni af vélunum okkar í verkefni í Miami yfir komandi vetur og þá eru til skoðunar heilsársverkefni sem fljótlega verður hægt að greina frá. Með þessum breytingum er ég sannfærður um að við sækjum fram og verðum áfram sá hagkvæmi kostur sem Íslendingar velja,“ segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri PLAY.