English Icelandic
Birt: 2021-12-16 08:30:00 CET
Arion banki hf.
Breytingar á eigin hlutum félags

Arion banki: Áframhaldandi framkvæmd endurkaupaáætlunar

Vísað er til tilkynningar Arion banka sem birt var 27. október 2021 um framkvæmd endurkaupaáætlunar á Íslandi og í Svíðþjóð. Bankinn hefur nú ákveðið að fullnýta heimild Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands sem jafnframt hefur verið samþykkt af stjórn bankans. Hækkar því hámarksfjárhæð endurkaupanna úr fimm milljörðum í tíu milljarða króna.

Hámarksfjöldi hluta sem endurkaupaáætlunin kveður á um að verði keyptir eru að nafnverði kr. 54.490.370 hlutir. Fjárhæð endurkaupanna verður þó aldrei hærri en sem nemur kr. 10.000.000.000 en bankinn hefur nú þegar keypt 25.779.259 hluti á Íslandi og 248.015 heimildarskírteini í Svíþjóð að andvirði 4.946.918.101 króna undir umsjón Íslandsbanka hf. Uppfærð skipting endurkaupa milli Íslands og Svíþjóðar er þannig að endurkaup verða að hámarki 9.900.000.000 kr. á Íslandi og 100.000.000 kr. í Svíþjóð (samtals 10 milljarðar króna).

Kvika banki hf. mun hafa umsjón með framkvæmd endurkaupaáætlunarinnar á Íslandi og í Svíþjóð frá og með fimmtudeginum 16. desember. Mun Kvika taka allar viðskiptaákvarðanir er varða kaup á hlutum og tímasetningu kaupanna óháð bankanum. Áætlunin heldur því áfram á báðum mörkuðum og gildir til 16. mars 2022. Arion banki hf. hefur heimild til að stöðva framkvæmd endurkaupaáætlunarinnar hvenær sem er á þessu tímabili.

Framkvæmd endurkaupaáætlunarinnar verður þannig háttað að kaup hvers dags í kauphöll Nasdaq Ísland og Nasdaq Stokkhólmi verða að hámarki 25% af meðaldagsveltu undangenginna 20 viðskiptadaga. Á Íslandi skal verð fyrir hvern hlut að hámarki vera hæsta verð í síðustu óháðu viðskiptum eða hæsta fyrirliggjandi óháða kauptilboð í viðskiptakerfi Nasdaq Ísland. Á Nasdaq Stokkhólmi mega kaup aðeins eiga sér stað innan þess verðbils sem gildir á Nasdaq Stokkhólmi, þar sem verðbilið nær frá hæsta kaupverði (e. best bid) til lægsta söluverðs (e. best offer) sem í gildi er og tekið saman hjá Nasdaq Stokkhólmi, allt í samræmi kafla H í viðbæti D við Reglubók fyrir útgefendur hlutafjár á aðalmörkuðum Nasdaq Nordic. Viðskipti með eigin hluti í samræmi við endurkaupaáætlunina verða birt opinberlega í samræmi við gildandi lög og reglur á báðum mörkuðum. Bankinn á sem stendur 137.536.904 eigin hluti og heimildarskírteini.

Endurkaupaáætlunin er framkvæmd í samræmi við lög og reglur á Íslandi og í Svíþjóð, þ.á.m. lög um hlutafélög nr. 2/1995, lög um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, viðauka við reglugerð um innherjaupplýsingar og markaðssvik nr. 630/2005, Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) um markaðssvik (MAR) nr. 596/2014, sem og framselda reglugerð framkvæmdastjórnar ESB (EU) 2016/1052 frá 8. mars 2016, sbr. lög um aðgerðir gegn markaðssvikum nr. 60/2021 sem tóku gildi á Íslandi 1. september 2021.


Arion banki Aframhaldandi framkvmd endurkaupaatlunar.pdf