English Icelandic
Birt: 2023-05-10 11:00:00 CEST
Alvotech S.A.
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Alvotech semur við Polifarma um markaðssetningu fyrirhugaðrar líftæknilyfjahliðstæðu við Eylea (aflibercept)

  • Polifarma öðlast rétt til að markaðssetja AVT06, fyrirhugaða líftæknilyfjahliðstæðu við Eylea® (aflibercept) í Tyrklandi

Alvotech (NASDAQ: ALVO) tilkynnti í dag um undirritun samnings við Polifarma Ilac San. Ve tic. A.S. („Polifarma“) um markaðssetningu í Tyrklandi á AVT06, fyrirhugaðri líftæknilyfjahliðstæðu við Eylea® (aflibercept).

„Það er okkur mikil ánægja að hefja samstarf við Polifarma um markaðssetningu á þessu fyrirhugaða lyfi við augnsjúkdómum,“ sagði Róbert Wessman, stjórnarformaður og forstjóri Alvotech. „Markmið okkar er að bæta aðgengi sjúklinga um allan heim að hagstæðum líftæknilyfjum. Þetta  samstarf gerir okkur kleift að þjóna betur markaðnum í Tyrklandi, sem fer vaxandi.“

„Polifarma hefur unnið að því að bæta lýðheilsu og þjónað heilbrigðisgeiranum í 37 ár. Með samningnum við Alvotech aukum við úrval og framboð af lyfjum við augnsjúkdómum. Við erum mjög spennt að geta boðið þessa fyrirhuguðu líftæknilyfjahliðstæðu í Tyrklandi,“ sagði Mehmet Asri, forstjóri Polifarma.

Samkvæmt samningnum mun Alvotech sjá um þróun og framleiðslu en Polifarma sér um skráningu og markaðssetningu í Tyrklandi.

Klínískar rannsóknir á AVT06 standa nú yfir. Í júli á síðasta ári tilkynnti Alvotech að hafin væri rannsókn á sjúklingum til að bera saman bera saman klíníska virkni, öryggi og ónæmingarverkun AVT06 og Eylea í sjúklingum með aldurstengda vota augnbotnahrörnun (AMD).

Um AVT06 (aflibercept)
AVT06 er raðbrigða samrunaprótein og líftæknilyfjahliðstæða við Eylea® (aflibercept). Aflibercept binst æðaþelsvaxtarþáttum (VEGF, Vascular Endothelial Growth Factors) og getur þannig hamlað bindingu og virkjun VEGF viðtaka, nýæðamyndun og æðagegndræpi. AVT06 er lyf í þróun og hefur ekki verið samþykkt til notkunar á neinu markaðssvæði.

Um Polifarma
Polifarma er leiðandi fyrirtæki í sölu á lyfjum til spítala í Tyrklandi. Fyrirtækið var stofnað fyrir 37 árum og er að öllu leiti í eigu tyrkneskra fjárfesta. Polifarma byrjaði á að þróa úrval innrennslislyfja og færði svo út kvíarnar í öðrum lyfseðilsskildum lyfjum.  Það er nú með markaðsleyfi fyrir um 600 lyf á 15 meðferðarsviðum. Lyfjaverksmiðja félagsins í Ergene er 77 þúsund fermetrar að flatarmáli og eru þar framleiddar um 350 milljónir pakkninga á ári. Polifarma þjónar jafnframt 70 erlendum mörkuðum. Félagið hefur sett sér það markmið að verða leiðandi lyfjafyrirtæki á heimsvísu fyrir árið 2025 og að viðhalda forskoti á sviði tækni og gæðamála.

Um Alvotech
Alvotech, stofnað af Róberti Wessman stjórnarformanni og forstjóra fyrirtækisins, er líftæknifyrirtæki sem einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Alvotech stefnir að því að verða leiðandi fyrirtæki á sviði líftæknihliðstæðulyfja. Til að tryggja hámarksgæði eru allir þættir í þróun og framleiðslu í höndum fyrirtækisins. Alvotech vinnur að þróun átta líftæknilyfjahliðstæða sem nýst geta sjúklingum með sjálfsofnæmis-, augn- og öndunarfærasjúkdóma, beinþynningu eða krabbamein. Alvotech hefur gert samninga um sölu, markaðssetningu og dreifingu við samstarfsaðila á öllum helstu mörkuðum, í Bandaríkjunum, Evrópu, Japan, Kína, öðrum hlutum Asíu,  Rómönsku-Ameríku, Afríku og Mið-Austurlöndum.  Meðal samstarfsaðila Alvotech eru Teva Pharmaceuticals, dótturfélag Teva Pharmaceutical Industries Ltd. (markaðsaðili í Bandaríkjunum), STADA Arzneimittel AG (Evrópa), Fuji Pharma Co., Ltd (Japan), Advanz Pharma (EES, Bretland, Sviss, Kanada, Ástralía og Nýja Sjáland), Cipla/Cipla Gulf/Cipla Med Pro (Ástralía, Nýja Sjáland, Afríka), JAMP Pharma Corporation (Kanada), Yangtze River Pharmaceutical (Group) Co., Ltd. (Kína), DKSH (Taívan, Hong Kong, Kambódía, Malasía, Singapore, Indonesía, Indland, Bangladess og Pakistan), YAS Holding LLC (Miðausturlönd og Norður Afríka), Abdi Ibrahim (Tyrkland), Kamada Ltd. (KMDA; Ísrael), Mega Labs, Stein, Libbs, Tuteur and Saval (Rómanska-Ameríka) og Lotus Pharmaceuticals Co., Ltd. (Taíland, Víetnam, Filippseyjar og Suður-Kórea).

Alvotech, fjárfestatengsl og samskiptasvið
Benedikt Stefánsson
alvotech.ir[at]alvotech.com