Published: 2020-04-22 11:03:43 CEST
TM hf.
Innherjaupplýsingar

TM - Afkomuviðvörun

Áætlað tap TM og dótturfélaga á fyrsta ársfjórðungi um 1,4 milljarðar króna

Drög að uppgjöri fyrsta ársfjórðungs 2020 hafa leitt í ljós að afkoma TM samstæðunnar á fjórðungnum verður umtalsvert verri en áður útgefin spá hafði gert ráð fyrir.

Orsakirnar er annars vegar að finna í þeim efnahagssamdrætti sem leitt hefur af Covid-19 faraldrinum og þeim erfiðleikum sem ráðstafanir til að hefta útbreiðslu hans hafa valdið í rekstri fyrirtækja og hins vegar í óhagfelldri tjónaþróun fyrstu mánuði ársins. Afleiðinganna gætir hjá öllum stoðum TM samstæðunnar, vátryggingum, fjármögnun og fjárfestingum.

Samsett hlutfall í vátryggingastarfsemi á fjórðungnum er áætlað um 104%*. Afkoma allra helstu vátryggingagreina var óviðunandi á tímabilinu í heild, einkum vegna veðurtengdra tjóna, þó greinileg merki séu um jákvæða þróun tjónakostnaðar undanfarnar vikur.

Áætlaðar fjárfestingatekjur eru neikvæðar sem jafngildir um 0,6% neikvæðri ávöxtun.

Vegna áhrifa Covid-19 faraldursins og óvissu í ferðaþjónustu hefur framlag í afskriftareikning vegna væntra tapaðra viðskiptakrafna og útlána verið aukið hjá TM, auk þess sem gerðar hafa verið ákveðnar varúðarfærslur á óskráðum eignum. Með sama hætti er gert ráð fyrir verulega auknu framlagi í afskriftareikning útlánasafns Lykils fjármögnunar.

Áætlað tap TM vegna ofangreinds er um 1 milljarður króna og Lykils fjármögnunar um 400 milljónir króna og er áætlað heildartap samstæðunnar á fyrsta ársfjórðungi því um 1,4 milljarðar króna.

Áhrif Covid-19 talin að mestu leyti komin fram

Þrátt fyrir þessa ágjöf er fjárhagsstaða TM og Lykils eftir sem áður mjög sterk. Félögin eru með traustan rekstur, gjaldþol samstæðunnar er um 19 milljarðar króna og gjaldþolshlutfallið um 1,42. Eiginfjárhlutfall Lykils (CAD) er áætlað rúm 26% og lausafjárstaða félagsins er mjög sterk.

Þar sem ljóst er að áhrif Covid-19 faraldursins á samstæðuna eru umtalsverð hefur áður birt rekstrarspá verið felld úr gildi, en áætlanir gera ráð fyrir að fyrirsjáanleg áhrif komi að mestu leyti fram í uppgjöri fyrsta ársfjórðungs og að félögin muni skila hagnaði á næstu fjórðungum.

Uppgjör fyrsta ársfjórðungs 2020 verður birt þann 28. maí nk.

Nánari upplýsingar veitir Sigurður Viðarsson, forstjóri TM.

*Samsett hlutfall er nú reiknað út í samræmi við leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands nr. 1/2020, en hlutfallið er samanlagt tjónshlutfall, kostnaðarhlutfall og endurtryggingahlutfall reiknað út frá iðgjöldum tímabilsins. Ekki er nú tekið tillit til vaxta- og gengisbreytinga í samsettu hlutfalli.