Icelandic
Birt: 2022-03-18 18:44:37 CET
Alma íbúðafélag hf.
Ársreikningur

Alma íbúðafélag hf.: Ársreikningur 2021

Alma íbúðafélag hf.: Ársreikningur 2021 

Á fundi sínum í dag samþykkti stjórn Ölmu íbúðafélags hf. ársreikning samstæðunnar fyrir árið 2021. 

Leigutekjur samstæðunnar námu 2.892 m. kr. og aðrar rekstrartekjur námu 1.236 m.kr. Heildartekjur samstæðunnar námu því 4.128 m. kr. á árinu. EBITDA framlegð ársins var 1.923 m. kr. og handbært fé frá rekstri nam 4.960 m. kr. 

Hagnaður ársins nam 12,4 mö. kr. Skýrist það að stórum hluta af því að í fyrra varð mikil jákvæð matsbreyting á fjárfestingareignum sem hækkuðu í bókum félagsins um 10,2 ma. kr. Þá nam afkoma af eignarhlutum í öðrum félögum 4,3 mö. kr.  

Heildareignir samstæðunnar námu 82,2 mö. kr. þann 31. desember 2021, en þar af voru fjárfestingareignir að andvirði 65,5 mö. kr. Vaxtaberandi skuldir námu 38,7 mö. kr. og eigið fé samstæðunnar var 27,0 ma. kr.  

Ingólfur Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ölmu íbúðafélags: 

„Síðasta ár var ár mikilla fjárfestinga og stækkunar efnhagsreiknings. Við fjárfestum fyrir rúma 16 milljarða króna og keyptum meira en 100 íbúðir sem komu til afhendingar á síðasta ári og á fyrstu mánuðum þessa árs. Þá bættist við eignasafnið nokkuð af atvinnuhúsnæði auk óbeinnar þátttöku í leigu á atvinnuhúsnæði með eignarhaldi á skráðum fasteignafélagfélögum. 

Þróun efnahagsmála á Íslandi setti svip sinn á rekstur og afkomu Ölmu íbúðafélags í fyrra. Á árinu eignaðist Alma dótturfélagið Brimgarða ehf. sem stundar útleigu á atvinnuhúsnæði og verðbréfafjárfestingar. Þessar verðbréfafjárfestingar Brimgarða hækkuðu í takt við hreyfingar á mörkuðum og skiluðu samstæðunni 4,3 milljörðum króna.  

Þá hækkaði bókfært virði fjárfestingareigna um 10,2 milljarða á árinu. Þessi matsbreyting er að mestu til komin vegna almennra verðlagsbreytinga á árinu 2021, lækkandi vöxtum og væntingum um að leiguverð fylgi til lengri tíma hækkandi fasteignaverði og aukningu í kaupmætti.  

Þessir tveir liðir leika stórt hlutverk í að afkoma félagsins á síðasta ári var jafn mikil og ársreikningur ber vott um. Við erum að sjálfsögðu ánægð með að félagið skili svo veglegum hagnaði, en vekja ber athygli á vægi matsbreytinganna í afkomunni og að ekki er hægt að gera ráð fyrir því að þessi liður hækki svo mikið á milli ára í framtíðinni.  

Þegar við skoðum afkomu kjarnastarfsemi félagsins, sem er útleiga íbúðarhúsnæðis, sést að EBITDA hagnaður af þeim hluta starfseminnar var rúmlega 1,4 milljarðar, sem jafngildir einungis 2,8% arðsemi af verðmæti íbúðarhúsnæðis félagsins í árslok.  

Á næstu misserum stefnum við á að stækka eignasafnið áfram og vera leiðandi í uppbyggingu á  heilbrigðum leigumarkaði. Þá viljum við stækka hlutfall umhverfisvottaðra eigna í eignasafninu og auka sjálfbærni í fasteignarekstrinum. Í samræmi við þá stefnu keypti félagið Svansvottað fjölbýlishús með 34 íbúðum í lok síðasta árs. Þá stefnum við að því að vaxtakjör félagsins endurspegli betur lágt áhættustig fjárfestinga þess með aukinni þátttöku stofnanafjárfesta í fjármögnun félagsins.” 

Nánari upplýsingar veitir Ingólfur Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri, ingolfur@al.is. 

Viðhengi



Arsreikningur Alma ibuafelag hf._Samsta_31.12.2021_FINAL.pdf