Icelandic
Birt: 2022-07-14 17:51:39 CEST
Sjóvá-Almennar tryggingar hf.
Árshlutareikningur - 6 mán.

Sjóvá - Árshlutauppgjör vegna 2. ársfjórðungs 2022

Helstu niðurstöður úr árshlutauppgjöri félagsins vegna 2. ársfjórðungs 2022:

Annar ársfjórðungur 2022

 • Hagnaður af vátryggingastarfsemi fyrir skatta 137 m.kr. (2F 2021: 589 m.kr.)
 • Í maí endurgreiddi Sjóvá viðskiptavinum á einstaklingsmarkaði fjárhæð sem nemur eins mánaðar iðgjaldi lögboðinna ökutækjatrygginga.
  • Nam endurgreiðslan 602 m.kr. og koma áhrif hennar að fullu fram á öðrum ársfjórðungi.
 • Tap af fjárfestingarstarfsemi fyrir skatta 328 m.kr. (Hagnaður 2F 2021: 2.716 m.kr.)
 • Tap tímabilsins 153 m.kr. (Hagnaður 2F 2021: 3.114 m.kr.)
 • Ávöxtun fjárfestingareigna í stýringu -0,4% (2F 2021: 6,1%)
 • Samsett hlutfall 101,0% (2F 2021: 91,2%)

Fyrri helmingur ársins 2022 og uppfærðar horfur

 • Hagnaður af vátryggingastarfsemi fyrir skatta 598 m.kr. (6M 2021: 1.144 m.kr.)
 • Hagnaður af fjárfestingarstarfsemi fyrir skatta 476 m.kr. (6M 2021: 4.368 m.kr.)
 • Hagnaður tímabilsins 901 m.kr. (6M 2021: 5.178 m.kr.)
 • Ávöxtun fjárfestingareigna í stýringu 1,3% (6M 2021: 10,1%)
 • Samsett hlutfall 98,2% (6M 2021: 91,3%)
 • Horfur fyrir árið 2022 eru óbreyttar og gera ráð fyrir að afkoma af vátryggingastarfsemi fyrir skatta verði um 1.400-1.800 m.kr. og samsett hlutfall um 95 - 97%.
 • Horfur til næstu 12 mánaða (3F 2022 – 2F 2023) gera ráð fyrir að afkoma af vátryggingastarfsemi fyrir skatta verði um 2.200 m.kr. og samsett hlutfall um 95%.

Hermann Björnsson, forstjóri:
„Niðurstaða annars ársfjórðungs er viðunandi þegar horft er til undirliggjandi þátta í rekstri tímabilsins.

Hagnaður er af vátryggingastarfsemi á tímabilinu sem verður að teljast afar gott þegar haft er í huga að í maí ráðstafaði Sjóvá, eitt tryggingafélaga, um 600 m.kr. til viðskiptavina í formi endurgreiðslu. Endurgreiðslan samsvarar fjárhæð eins mánaðar iðgjaldi lögboðinna ökutækjatrygginga. Þetta er í annað sinn sem Sjóvá ráðstafar fjármunum til viðskiptavina sinna með þessum hætti. Ráðstöfunin hefur mælst afar vel fyrir hjá viðskiptavinum sem og öðrum og leitt af sér ný viðskipti ásamt aukinni tryggð núverandi viðskiptavina, sem hefur aldrei mælst meiri en nú.

Þetta einsdæmi ásamt áherslu okkar á afburða þjónustu um allt land hefur átt sinn þátt í því að hagnaður er af vátryggingastarfseminni þrátt fyrir að meðalhagnaði eins fjórðungs hafi verið ráðstafað beint til viðskiptavina. Vöxtur iðgjalda nam 4,6% á fjórðungnum borið saman við annan fjórðung síðasta árs og skýrist af 5% samdrætti iðgjalda á einstaklingssviði í ljósi maí endurgreiðslunnar en iðgjaldavöxtur á fyrirtækjasviði nam á sama tíma 22% þar sem vel hefur gengið að sækja ný viðskipti auk þess sem fyrirtæki, sérstaklega í ferðaþjónustu, hafa aukið umsvif sín. Sé horft framhjá endurgreiðslu maí gjalddagans hefði iðgjaldavöxtur á einstaklingssviði verið 11% og á samstæðugrunni 15%.

Tap er á fjárfestingastarfsemi á öðrum árfjórðungi í fyrsta sinn í langan tíma sem skýrist af því að skráð hlutabréf hafa lækkað umtalsvert á tímabilinu. Upp á móti því tapi vegur þó að virði óskráðra eigna hefur aukist um 1.705 m.kr. á fjórðungnum.

Á öðrum ársfjórðungi hlaut Sjóvá nafnbótina Fyrirtæki ársins eftir árlega starfsánægjukönnun VR, sem er stærsta vinnumarkaðskönnunin sem framkvæmd er á Íslandi. Þetta er fimmta árið í röð sem Sjóvá hlýtur þessa nafnbót. Hún er okkur mikils virði og staðfestir góða vinnustaðamenningu og ánægju starfsmanna. Sjóvá skorar

hæst allra stórra fyrirtækja á undirþáttunum ánægja og stolt ásamt jafnrétti. Við erum bæði stolt og afar þakklát fyrir þessa eftirsóknarverðu nafnbót.

Niðurstaða fyrstu 6 mánaða ársins einkennist af sterkum grunnrekstri með 9,1% iðgjaldavexti borið saman við sama tímabil í fyrra og skilaði vátryggingastarfsemin 598 m.kr. hagnaði fyrir skatta. Afkoman af fjárfestingastarfsemi var góð miðað við aðstæður á mörkuðum og skilaði 476 m.kr. hagnaði fyrir skatta. Afkoman fyrir fyrstu 6 mánuðina var 901 m.kr.

Óbreyttar horfur eru fyrir árið 2022 sem gera ráð fyrir að afkoma af vátryggingastarfsemi fyrir skatta verði um 1.400 - 1.800 m.kr. og samsett hlutfall verði um 95 - 97%. Horfur til næstu 12 mánaða gera ráð fyrir að afkoma af vátryggingastarfsemi fyrir skatta verði um 2.200 m.kr. og samsett hlutfall um 95%.

Grannt er fylgst með umferðartölum frá mánuði til mánaðar þar sem aukin umferð eykur líkur á tjónum. Síðastliðna 3 mánuði hefur umferðin um hringveginn mælst meiri en fyrir sama tímabil 2019 sem var metár.

Við mat á horfum næstu 12 mánaða verður að hafa í huga að mikil óvissa ríkir um marga þætti sem haft geta áhrif á reksturinn, nægir þar að nefna verðbólgu með hækkandi verðlagi og launaliðum. Sjóvá mun eftir fremsta megni leggja sitt af mörkum með ábyrgum rekstri og aðhaldi gagnvart birgjum. Í því samhengi er einkar ánægjulegt að hafa á fjórðungnum ráðstafað um 600 m.kr. til viðskiptavina með þeim hætti sem áður er lýst.“

Kynningarfundur 14. júlí kl. 16:15 í fundarsal félagsins í Kringlunni 5 og vefstreymi
Markaðsaðilum og fjárfestum er boðið á kynningarfund í fundarsal félagsins í Kringlunni 5, 6. hæð þann 14. júlí kl. 16:15. Þar munu Hermann Björnsson forstjóri, Sigríður Vala Halldórsdóttir framkvæmdastjóri fjármála og upplýsingatækni og Þórður Pálsson forstöðumaður fjárfestinga kynna uppgjörið og fara yfir afkomu félagsins. Kynningunni verður jafnframt streymt á slóðinni https://www.sjova.is/um-okkur/fjarfestar/afkomukynning-2f-2022/.

Vilji aðilar bera upp spurningar má senda þær á netfangið fjarfestar@sjova.is fyrir fundinn eða á meðan á fundi stendur og verður þeim svarað í lok kynningarinnar.

Uppgjörsefni verður aðgengilegt á vef Sjóvár www.sjova.is/fjarfestar frá þeim tíma er kynningin hefst og verður upptaka af fundinum aðgengileg á sömu síðu að fundi loknum.

Nánari upplýsingar
Meðfylgjandi er fréttatilkynning, samandreginn árshlutareikningur og fjárfestakynning Sjóvá-Almennra trygginga hf. vegna annars ársfjórðungs 2022.

Nánari upplýsingar veitir Andri Már Rúnarsson í síma 772-5590 eða fjarfestar@sjova.is.

ViðhengiArshlutareikningur Sjova 30.6.22.pdf
Fjarfestakynning Sjova - 2F 2022.pdf
Frettatilkynning Sjova - 2F 2022.pdf