English Icelandic
Birt: 2022-11-02 18:06:40 CET
Sýn hf.
Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

Sýn hf.: Áframhaldandi rekstrarbati og vaxandi framlegð

Árshlutareikningur samstæðu Sýnar hf. fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2022 var samþykktur á stjórnarfundi þann 2. nóvember 2022.

  • Rekstrarhagnaður (EBIT) á þriðja ársfjórðungi 2022 (3F) nam 486 m.kr. og hagnaður eftir skatta 181 m.kr.
  • Rekstrarhagnaður nam 1.209 m.kr. á fyrstu 9 mánuðum ársins, en var 406 m.kr. á sama tímabili árið 2021. Hagnaður eftir skatta á fyrstu 9 mánuðum ársins nemur 454 m.kr., en félagið tapaði 176 m.kr. á sama tímabili í fyrra.
  • Undirritað var samkomulag við Ljósleiðarann ehf. um einkaviðræður vegna sölu á grunnneti Sýnar til Ljósleiðarans. Kaupverð er 3.000 m.kr. en auk þess fylgir hagræðing í rekstri og minni fjárfestingaþörf, þar sem um er að ræða beina sölu án endurleigukvaðar. Söluhagnaður verður færður að fullu í gegnum rekstur á söludegi.
  • Stjórn Sýnar samþykkti endurkaup eigin bréfa fyrir allt að 300 m.kr. Endurkaupaáætlun verður hrint í framkvæmd í nóvember.

Yngvi Halldórsson, forstjóri:

„Það er ánægjulegt að rekstrarbati heldur áfram og rekstrarhagnaður eykst. Tekjuvöxtur á fyrstu 9 mánuðum árs nemur 8,7% og er drifinn áfram af aukningu í farsímatekjum og góðu gengi í fjölmiðlastarfseminni. Sýn er með fjölbreytta starfsemi og mikil sóknartækifæri til vaxtar og aukinnar framlegðar.

Á undanförnum þremur árum hefur verið mikill viðsnúningur á starfseminni. Umtalsverðar breytingar hafa orðið hjá okkur á undanförnum vikum. Tekin er við ný stjórn og forstjóri. Það er einhugur í okkur að byggja ofan á þann rekstrarbata sem orðið hefur. Við erum að koma fram með spennandi nýjungar í vöruframboðinu okkar þar sem sótt verður fram og á sama tíma að vinna í að bæta framlegð og reksturinn í heild. Við munum leggja áherslu á að lækka fjárfestingar í erlendum sýningarréttum og styrkja á sama tíma innlenda dagskrárgerð sem mun skila sér í áframhaldandi rekstrarbata. Við ætlum að sýna ábyrgð í rekstri.

Samkomulag Sýnar og Ljósleiðarans er gæfuspor fyrir félagið og vinna að viðskiptunum gengur vel. Við losum umtalsverða fjármuni en náum á sama tíma fram rekstrarhagræði. Félagið er því í góðri stöðu til að skila frekara fjármagni til eiganda.

Sýn rekur öflugt fjarskiptafyrirtæki sem þjónar m.a. meirihluta af stærstu fyrirtækjum landsins og stórum hluta íslenskra heimila. Félagið er bæði ríkt af innviðum og með sterkan alþjóðlegan bakhjarl í Vodafone Group. Við rekum stærstu og fjölbreyttustu fjölmiðlastarfsemi landsins þar sem áframhaldandi áhersla verður á framleiðslu á innlendu efni. Endor er síðan vaxandi félag í upplýsingatækni sem við munum styrkja enn frekar á næstunni. 

Verkefni okkar er að gera Sýn að enn áhugaverðari fjárfestingakosti. Við viljum fjölga hluthöfum og stór þáttur í því er að lýsa vegferðinni og  þeim verðmætum sem í félaginu felast. Það munum við kappkosta að gera á næstunni.”


ViðhengiSyn hf. arshlutareikningur 3F 2022 ISL.pdf
Syn hf. Frettatilkynning 3F 2022 - ISL.pdf