Icelandic
Birt: 2022-02-24 16:52:26 CET
Vátryggingafélag Íslands hf.
Ársreikningur

VÍS: Ársreikningur 2021

Ársreikningur félagsins fyrir árið 2021 var staðfestur af stjórn og forstjóra á stjórnarfundi þann 24. febrúar 2022. Ársreikningurinn verður lagður fyrir aðalfund VÍS þann 17. mars til samþykktar.

Helstu niðurstöður ársins 2021
- Hagnaður ársins var 7.684 milljónir en var 1.798 milljónir á árinu 2020.
- Hagnaður af vátryggingarekstri var 887 milljónir samanborið við 2.014 milljóna tap árið áður.
- Samsett hlutfall ársins er 97,1% en var 109,8% á árinu 2020.
- Tekjur af fjárfestingarstarfsemi námu 8,3 milljörðum en voru 5,3 milljarðar árið áður.
- Arðsemi eigin fjár var 40,9% en var 12,0% árið áður.
- Hagnaður á hlut var 4,39 krónur samanborið við 0,95 krónur árið 2020.

Helstu niðurstöður 4F 2021
- Hagnaður fjórðungsins var 950 milljónir samanborið við 1.813 milljónir á sama tíma 2020.
- Hagnaður af vátryggingarekstri í fjórðungnum var 344 milljónir samanborið við 804 milljóna tap á sama tímabili 2020.
- Samsett hlutfall fjórðungsins var 95,5% en var 115,3% á sama tímabili árið áður.
- Iðgjöld tímabilsins voru 5.917 milljónir í samanburði við 5.562 milljónir á síðasta fjórðungi 2020.
- Tekjur af fjárfestingarstarfsemi voru 1.193 milljónir en voru 2.724 milljónir á sama tímabili 2020.

Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS:
„Hagnaður ársins 2021 var 7.684 milljónir ─ en var 1.798 milljónir árið á undan. Hagnaður af tryggingarekstri nam 887 milljónum. Samsett hlutfall ársins var 97,1% sem er í lægri mörkum útgefinnar afkomuspár ─ en samsett hlutfall árið áður var 109,8%. Arðsemi eigin fjár var 40,9% ─ og hefur aldrei verið betri.

Þess ber að geta að stjórn félagsins leggur til að félagið greiði hluthöfum arð sem nemur tveimur krónum á hlut fyrir árið 2021. Heildarfjárhæð arðgreiðslunnar er 3.789 milljónir, en að teknu tilliti til eigin bréfa munu 3.500 milljónir greiðast til hluthafa.

Besti árangur í fjárfestingum frá upphafi
Þrátt fyrir alheimsfaraldurinn, sem hefur reynt á alla heimsbyggðina, var þróun á eignamörkuðum hagstæð. Árangur í fjárfestingum á síðasta ári var sá allra besti frá skráningu félagsins. Fjárfestingartekjur ársins námu 8,3 milljörðum ─ eða 18,7% nafnávöxtun yfir tímabilið. Stærstur hluti fjárfestingatekna ársins kom til vegna ávöxtunar hlutabréfa eða um 6,8 milljarðar. Skráð hlutabréfasafn félagsins skilaði góðri afkomu og hækkaði um 5 milljarða eða sem nemur 53,4% ávöxtun á árinu. Jafnframt var virðishækkun óskráðra hlutabréfa nokkur eða 1,8 milljarðar. Óskráð hlutabréfasafn félagsins hefur tekið talsverðum breytingum undanfarin ár, meðal annars vegna fjárfestinga í fyrirtækjum á borð við Controlant, Kerecis og Coripharma ─ sem hafa skilað sér í góðri ávöxtun fyrir félagið.

Óteljandi tækifæri fyrir þróun félagsins
Horfurnar eru góðar fyrir árið 2022. Við færumst nær því langtímamarkmiði félagsins að samsetta hlutfallið sé ekki hærra en 95% ─ því gert er ráð fyrir að samsett hlutfall ársins verði á bilinu 95-97%. Grunnrekstur félagsins gengur vel ─ og er í takt við væntingar. Við lækkuðum verðið í Ökuvísi í byrjun árs 2022 en viðskiptavinir okkar, sem eru með Ökuvísi, hafa bætt aksturinn umtalsvert. Betri akstur leiðir til færri slysa og tjóna ─ og því sáum við svigrúm til að lækka verð til þeirra sem keyra vel. Við viljum að viðskiptavinir okkar njóti góðs af þessum árangri ─ lækkunin svarar til tveggja mánaða iðgjalda.

Við umbyltum stafrænu kaupferli líf- og sjúkdómatrygginga á síðasta ári sem gekk vel ─ og er nú orðin stærsta sölurásin í þessum mikilvæga tryggingaflokki. Stafræn þróun er því á fullri ferð ─ og við sjáum óteljandi tækifæri fyrir þróun félagsins. Sú fjárfesting sem hefur átt sér stað á undanförnum árum í innviðum og tækni gefur okkur góðan grunn til þess að byggja á til framtíðar. Tvö spennandi stafræn verkefni eru nú í gangi ─ sem við hlökkum til að segja betur frá.

Með viðskiptavininn í fyrsta sæti
Starfsfólkið sýndi enn og aftur hvað í þeim býr og vann þrekvirki við krefjandi aðstæður á síðasta ári. Vinnustaðagreining sýndi að starfsfólk er mjög ánægt og helgað í starfi og eru þetta bestu niðurstöður frá því mælingar hófust hjá VÍS. Þetta eru ánægjulegar og ekki síst mikilvægar niðurstöður fyrir félagið ─ því ánægja og helgun starfsmanna er undirstaða góðs árangurs.

Á síðasta ári lögðum við mikla áherslu á að bæta upplifun viðskiptavina okkar sem leiddi af sér að við urðum hástökkvarar á meðal tryggingafélaga í Íslensku ánægjuvoginni. Við eigum þó enn verkefni fyrir höndum ─ en niðurstaðan staðfestir að við erum á réttri leið.“

Horfur
Langtímamarkmið félagsins er að samsetta hlutfallið sé ekki hærra en 95% og arðsemi eigin fjár sé að lágmarki 15%. Farið verður yfir samsett hlutfall í fjárfestakynningum ársfjórðungslega ─ ásamt stöðu og horfum í rekstri félagsins.

Félagið gerir ráð fyrir að samsett hlutfall ársins 2022 verði á bilinu 95-97%. Félagið mun tilkynna ef breytingar verða á horfum ársins um samsett hlutfall, s.s. vegna stórra tjóna eða annars sem hefur umtalsverð áhrif á rekstur félagsins, svo að verðmótandi teljist fyrir hlutabréf þess.

Kynningarfundur
Kynningarfundur vegna uppgjörsins fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn föstudaginn 25. febrúar, klukkan 8:30 í húsnæði félagsins, Ármúla 3. Farið verður yfir uppgjörið og spurningum svarað. Hægt verður að fylgjast með fundinum á þessari slóð: https://vis.is/arsuppgjor-2021/ og þar verður einnig hægt að nálgast upptöku af fundinum. Kynningarefni fundarins verður hægt að nálgast á sömu slóð.

Fjárhagsdagatal
Aðalfundur 2022 || 17. mars 2022
Fyrsti ársfjórðungur 2022 || 05. maí 2022
Annar ársfjórðungur 2022 || 18. ágúst 2022
Þriðji ársfjórðungur 2022 || 20. október 2022

Nánari upplýsingar
Í samræmi við lög birtir VÍS ársreikninginn á einkvæmu rafrænu skýrslusniði (e. European Single Electronic Format eða ESEF) og má finna ársreikninginn í meðfylgjandi zip skrá.

Nánari upplýsingar veitir Erla Tryggvadóttir, samskiptastjóri VÍS, í síma 660-5260 eða með netfanginu erlat@vis.is

Viðhengi



213800QFQIHO7KG2P786-2021-12-31-en.zip-viewer 2.html
213800QFQIHO7KG2P786-2021-12-31-en 2.zip
Afkomutilkynning 4F 2021.pdf
VIS - Samstuarsreikningur 31.12.21.pdf