Icelandic
Birt: 2023-10-19 17:41:47 CEST
Vátryggingafélag Íslands hf.
Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

VÍS: Uppgjör 3. ársfjórðungs 2023

 Ný samstæða verður til 

Uppgjör þriðja ársfjórðungs 2023 


Helstu lykiltölur 9M20232022
Hagnaður1.680 m.kr.479  m.kr.
Afkoma af vátryggingasamningum-102 m.kr.771  m.kr.
Afkoma af fjárfestingum3.015 m.kr.681  m.kr.
Samsett hlutfall100,5%95,8%
Ávöxtun fjáreigna7,6%2,6%
Arðsemi eigin fjár9,8%2,6%


Helstu lykiltölur 3F20232022
Hagnaður607 m.kr. -70  m.kr.
Afkoma af vátryggingasamningum368 m.kr.307  m.kr.
Afkoma af fjárfestingum698 m.kr.180  m.kr.
Samsett hlutfall94,7%95,2%
Ávöxtun fjáreigna1,7%0,8%
Arðsemi eigin fjár3,5%-0,4%Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS:

„Þau tíðindi urðu í upphafi októbermánaðar að sameining VÍS og Fossa var frágengin. Þetta verður því í síðasta sinn sem VÍS birtir uppgjör í núverandi mynd en næst mun uppgjörið taka til samstæðu með Fossum. Ný samstæða VÍS, Fossa og SIV hyggur á frekari vöxt á íslenskum fjármálamarkaði með áherslu á framúrskarandi þjónustu og arðsemi á sviði trygginga, fjárfestingabankastarfsemi og eignastýringar. Unnið er að samþættingu þessara félaga sem miðar að því að efla þau í sókn. Sú vinna gengur vel og mun hluti af starfsemi Fossa t.a.m. flytjast í höfuðstöðvar VÍS í Ármúla á næstu vikum. Við bjóðum starfsfólk Fossa hjartanlega velkomið og hlökkum til að sameinast undir einu þaki.

Viðunandi niðurstaða tryggingareksturs í krefjandi umhverfi
Þriðji ársfjórðungur einkenndist af sveiflum líkt og við þekkjum vel í tryggingarekstri. Þegar umsvif í samfélaginu eru mikil eru tjónin alla jafna fleiri. Tryggingarekstur hefur almennt verið að þyngjast á árinu, sér í lagi í frjálsum ökutækjatryggingum og eignatryggingum. Þrátt fyrir þrjú stór tjón, tvö bruna- og eitt umferðarslys, á fjórðungnum var tjónahlutfall að teknu tilliti til endurtrygginga 76% og samsett hlutfall 94,7%. Heilt yfir er það vel viðunandi niðurstaða í krefjandi umhverfi. Afkoma af vátryggingum var 368 m.kr. Samsett hlutfall frá áramótum er 100,5% og er enn gert ráð fyrir að árið endi á bilinu 98-100%.

Hagnaður fjórðungsins eftir skatta nemur 607 m.kr. Hagnaður fyrstu 9 mánuði ársins 1.680 m.kr. og arðsemi eigin fjár 13,1% á ársgrundvelli.

Ákall um samstöðu vegna brunatjóna
Sú þróun sem á sér stað í samfélaginu að húseigendur eru að nýta atvinnuhúsnæði sem íbúðarhúsnæði, án þess jafnvel að uppfæra brunavarnir né að fá leyfi fyrir breyttri notkun húsnæðisins, veldur mér áhyggjum. Nokkur alvarleg brunatjón hafa orðið á árinu þar sem þetta hefur því miður verið raunin. Það gefur augaleið að með þessu er verið að setja fólk í hættu með ófullnægjandi brunavörnum eða útgönguleiðum. Ég kalla eftir víðtækri samstöðu í samfélaginu um að sýna ábyrgð í verki. Bera þarf virðingu fyrir einstaklingum í viðkvæmri stöðu og tryggja betur öryggi þeirra.

Ný tækifæri í krosssölu með nýrri netverslun
Eins og farið hefur verið yfir gerði félagið miklar breytingar á sölustarfi sínu fyrir um ári. Við erum að sjá stigvaxandi aukningu í iðgjöldum sem er í takti við áætlanir okkar. Vöxtur í iðgjöldum líf- og sjúkdómatrygginga er sá mesti frá árinu 2009. Ný stafræn lausn hefur verið í vinnslu síðustu mánuði sem auðveldar til muna alla tilboðsgerð og er starfsfólk byrjað að prófa þá lausn með góðum árangri. Gert er ráð fyrir að viðskiptavinir muni svo með einföldum hætti geta keypt allar helstu tryggingar á vis.is og í appinu í nóvember. Þessi lausn gefur okkur einnig aukin tækifæri til að tryggja með einföldum og sjálfvirkum hætti að viðskiptavinir okkar séu sannarlega með viðeigandi og rétta vernd.

Virk stýring eignasafns skilar góðri ávöxtun
Árangur var góður í fjárfestingum á fjórðungnum í krefjandi umhverfi en slíkt hið sama má segja um fyrstu 9 mánuði ársins. Varfærnar áherslur í eignasafni félagsins hafa reynst vel í því umhverfi sem nú ríkir, en einblínt hefur verið á stuttan meðaltíma skuldabréfa og minna vægi hlutabréfa. Skráð hlutabréfasafn félagsins hefur þó gengið vel á árinu en skráð hlutabréf hafa hækkað um 1% samanborið við um 15% lækkun á vísitölu hlutabréfa. Fjárfestingartekjur fjórðungsins nema 777 milljónum eða því sem nemur 1,7% nafnávöxtun en frá áramótum eru fjárfestingartekjur 3.254 m.kr. og nafnávöxtun 7,6%.“

Haraldur Þórðarson, forstjóri samstæðu VÍS:

„Það voru ánægjuleg tímamót í sögu beggja félaga þegar sameining VÍS og Fossa var endanlega frágengin í byrjun mánaðar. Vinna við samþættingu félaganna er í fullum gangi og jafnframt er unnið að koma skipulagi samstæðu í sitt framtíðarhorf í takti við það sem var kynnt á hluthafafundi í júní síðastliðnum.

100 milljarðar í eignastýringu hjá nýrri samstæðu
Það gleður mig að segja frá nýjum sjóði hjá SIV eignastýringu, sem ber nafnið SIV Credit Fund. Heildaráskriftarloforð sjóðsins eru yfir 10 ma.kr. og eru eigendur sjóðsins margir af stærstu lífeyrissjóðum landsins en þess má geta að VÍS fjárfestir fyrir 500 m.kr. í sjóðnum. SIV eignastýring stofnaði fjóra aðra sjóði á fjórðungnum, SIV Lausafé, SIV Skuldabréf, SIV Hlutabréf og SIV Fixed Income en sá síðastnefndi er eingöngu ætlaður fagfjárfestum. Opnir sjóðir félagsins eru rafrænt skráðir og hægt að eiga viðskipti með þá hjá Fossum, Íslandsbanka og Kviku banka. Nánari upplýsingar má nálgast á www.siveignastyring.is.

Eignir í stýringu samstæðu nema nú um 100 ma.kr., þar af 60 ma.kr. hjá SIV eignastýringu og 40 ma.kr. hjá Fossum.
Unnið er að samþættingu Glyms og SIV eignastýringar en stefnt er að því að rekstur félaganna sameinist undir nafni þess síðarnefnda.”

Kynningarfundur

Kynningarfundur vegna uppgjörsins verður haldinn föstudaginn 20. október, klukkan 8:30 í húsnæði félagsins, Ármúla 3. Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri, mun kynna uppgjörið og Haraldur Þórðarson, forstjóri samstæðu, fer yfir samþættingu félaganna. Hægt verður að fylgjast með fundinum í beinu streymi og nálgast má upptöku af honum á fjárfestasíðu félagsins. Þar verður einnig hægt að nálgast kynningarefni fundarins.   

Fjárhagsdagatal 

Ársuppgjör 2023 || 28. febrúar 2024
Aðalfundur 2024 || 21. mars 2024

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Erla Tryggvadóttir, samskiptastjóri, í síma 660-5260 eða með netfanginu fjarfestatengsl@vis.is

ViðhengiVIS afkomutilkynning 3. arsfjorungur 2023.pdf
VIS - Samstuarshlutareikningur 30.9.2023.pdf