English Icelandic
Birt: 2023-06-22 23:31:00 CEST
Íslandsbanki hf.
Innherjaupplýsingar

Íslandsbanki þiggur boð fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands um að ljúka máli með samkomulagi um sátt

Í tilkynningu frá bankanum 9. janúar s.l. kom fram að bankinn hefði móttekið frummat fjármáleftirlitsins vegna framkvæmdar Íslandsbanka á útboði Bankasýslu ríkisins á 22,5% eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka sem fram fór hinn 22. mars 2022 og að bankinn hafi lýst yfir vilja til að ljúka málinu með samkomulagi um sátt. Stjórn bankans hefur í dag tekið ákvörðun um að þiggja sáttarboð fjármálaeftirlitsins vegna málsins.

Í sáttinni fellst bankinn á það mat fjármálaeftirlitsins að viðeigandi lagakröfum og innri reglum bankans um veitingu fjárfestingarþjónustu hafi ekki verið fylgt í öllum tilvikum við undirbúning og framkvæmd útboðsins, einkum hvað varðar hljóðritanir símtala, upplýsingagjöf til viðskiptavina, flokkun fjárfesta og ráðstafanir gegn hagsmunaárekstrum s.s. aðskilnað starfssviða og viðskipti starfsmanna. Þá hafi innleiðing stjórnarhátta og innra eftirlits ekki verið fullnægjandi og skort hafi áhættumiðað eftirlit með hljóðritunum. Jafnframt telur fjármálaeftirlitið að bankinn hefði átt að gera sérstakt áhættumat í tengslum við útboðið. Loks hafi bankinn við framkvæmd útboðsins ekki starfað að öllu leyti í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur í verðbréfaviðskiptum. Er það niðurstaða fjármálaeftirlitsins að brot bankans samkvæmt framangreindu hafi verið alvarleg.

Í samkomulaginu fellst bankinn á greiðslu sektar að fjárhæð 1.160 milljónir króna og gengst við að hafa brotið gegn tilteknum ákvæðum laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki í tengslum við söluferlið. Jafnframt skuldbindur bankinn sig til þess að gera nánar tilgreindar úrbætur og fela innri endurskoðanda og stjórn að staðfesta hvernig þeim er mætt með fullnægjandi hætti fyrir 1. nóvember 2023. 

Á öðrum ársfjórðungi 2023 gjaldfærir Íslandsbanki 860 milljónir króna vegna þessa atburðar en bankinn gjaldfærði 300 milljónir króna vegna sama atburðar í ársuppgjöri 2022. Áætlað er að afkoma Íslandsbanka fyrir annan ársfjórðung verði á bilinu 5,8-6,5 milljarðar króna, sem jafngildir arðsemi eigin fjár á bilinu 10,7-12,1%.

Finnur Árnason, stjórnarformaður Íslandsbanka:
„Stjórn bankans telur mikilvægt að málinu hafi verið lokið með sátt. Niðurstaðan er í meginatriðum í samræmi við áfangaskýrslu innri endurskoðunar bankans sem stjórn átti frumkvæði að og send var fjármálaeftirlitinu í byrjun maí 2022. Stjórn bankans leggur áherslu á að ljúka viðeigandi úrbótum innan tilskilins tíma. Bankinn hefur þegar gert breytingar á reglum og verklagi s.s. um viðskipti starfsmanna og hljóðritanir. Ljóst er að bankinn dregur mikinn lærdóm af þessu verkefni.“
 
Þessi tilkynning er birt af Íslandsbanka hf. og inniheldur upplýsingar sem töldust eða kunna að hafa talist innherjaupplýsingar í skilningi 7. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og Ráðsins (ESB) nr. 596/2014 um markaðssvik (MAR), sbr. lög nr. 60/2021, um aðgerðir gegn markaðssvikum, varðandi athugun fjármálaeftirlitsins sem lýst er að ofan. Tilkynning þessi er gerð af Jóni Guðna Ómarssyni, fjármálastjóra Íslandsbanka hf., í samræmi við upplýsingaskyldu bankans samkvæmt MAR og 2. gr. framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EU) 2016/1055.

Frekari upplýsingar veita:
Fjárfestatengsl - Bjarney Anna Bjarnadóttir, ir@islandsbanki.is
Samskiptastjóri - Edda Hermannsdóttir, pr@islandsbanki.is

Fyrirvari
Framangreind fréttatilkynning gæti vísað til spár um framtíðarhorfur sem er háð áhættu- og óvissuþáttum og getur þýtt að raunverulegur árangur verði umtalsvert frábrugðinn því sem spáð er í þessari fréttatilkynningu. Íslandsbanki hf. hefur ekki skyldu til að, og mun ekki, uppfæra þessar spár um framtíðarhorfur félagsins til að endurspegla atburði og aðstæður sem eiga sér stað eftir útgáfu þessarar fréttatilkynningar. Það er ábyrgð fjárfestis að reiða sig ekki seinna meir á spár um framtíðarhorfur sem eru settar fram í þessari fréttatilkynningu þar sem þær eiga eingöngu við á þeim tíma sem hún er gefin út. Spár um framtíðarhorfur gefa ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur og eru allar yfirlýsingar um framtíðarhorfur félagsins fullgildar í heild sinni með tilliti til þessa fyrirvara.


Islandsbanki iggur bo fjarmalaeftirlits Selabanka Islands um a ljuka mali me samkomulagi um satt.pdf