Published: 2021-02-23 21:28:49 CET
Lykill fjármögnun hf.
Innherjaupplýsingar

Stjórnir Kviku, TM og Lykils undirrita samrunaáætlun

Þann 25. nóvember síðastliðinn samþykktu stjórnir Kviku banka hf. (Kvika), TM hf. (TM) og Lykils fjármögnunar hf. (Lykill) að sameina félögin.

Í dag gengu stjórnir félaganna frá undirritun samrunaáætlunar vegna fyrirhugaðs samruna þeirra. Stjórnir félaganna telja að samruninn verði félögunum og hluthöfum þeirra hagstæður.

Eftirfarandi fyrirvarar í samrunasamningnum frá 25. nóvember sl. eru enn óuppfylltir:

  1. Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) veiti samþykki fyrir samrunanum, sbr. 106 gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002;
  2. FME veiti Kviku samþykki fyrir eignarhaldi á virkum eignarhlut í TM tryggingum hf., TM líftryggingum hf. og Íslenskri endurtryggingu hf., sbr. 58 gr. laga um vátryggingastarfsemi nr. 100/2016;
  3. Samkeppniseftirlitið ógildi ekki samrunann eða setji íþyngjandi skilyrði að mati samrunaaðila, sbr. V. kafla samkeppnislaga nr. 44/2005; og
  4. hluthafar samþykki samrunann í samræmi við 93. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995 á löglega boðuðum hluthafafundum Kviku, TM og Lykils.

Samkvæmt samrunaáætluninni munu hluthafar TM fá, sem endurgjald fyrir hluti sína í TM, 2.509.934.076 hluti í Kviku sem greitt verður með útgáfu nýs hlutafjár.

Stjórnir félaganna telja raunhæft að fyrirvarar samrunasamningsins verði uppfylltir og að félögin verði sameinuð í lok fyrsta ársfjórðungs 2021.

Eins og áður hefur verið gefið út telja stjórnir félaganna raunhæft að með samrunanum megi ná fram 1.200-1.500 m.kr. árlegri kostnaðarsamlegð, án viðskipta- og einskiptiskostnaðar. Því til viðbótar er talið að það séu önnur tækifæri í kostnaðarsamlegð en þau þarfnast frekari greiningar eftir samruna. Stjórnir félaganna telja einnig raunhæft að samruninn geri félögunum kleift að auka tekjur sínar en ekki hefur verið lagt fjárhagslegt mat á þau tækifæri.

Stefnt er að því að samruninn verði borinn upp á hluthafafundum félaganna í lok mars. Samrunagögn verða aðgengileg á heimasíðum félaganna eigi síðar en mánuði fyrir hluthafafundi í samræmi við 5. mgr. 124. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995, en boðað verður til þeirra síðar.