English Icelandic
Birt: 2022-05-05 18:04:05 CEST
Íslandsbanki hf.
Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

Islandsbanki hf.: Afkoma á fyrsta ársfjórðungi ársins 2022

Helstu atriði í afkomu fyrsta ársfjórðungs 2022 (1F22) – arðsemi eigin fjár í takti við fjárhagsleg markmið bankans

  • Hagnaður af rekstri Íslandsbanka nam 5,2 ma. kr. á fyrsta ársfjórðungi (1F21: 3,6 ma. kr.). Arðsemi eigin fjár var 10,2% á ársgrundvelli (1F21: 7,7%) sem er yfir fjárhagslegum markmiðum bankans og spám greiningaraðila. Helstu ástæður góðrar afkomu eru sterk tekjumyndun, aðhald í rekstri og jákvæð virðisbreyting útlána.
  • Hreinar vaxtatekjur jukust um 12,4% á milli ára og námu 9,2 ma. kr. á 1F22 samanborið við 8,2 ma. kr. á 1F21. Hækkunin á milli ára skýrist af stækkun lánasafns bankans og hærra vaxtaumhverfis. Vaxtamunur nam 2,6% á 1F22 samanborið við 2,4% á 1F21.
  • Hreinar þóknanatekjur jukust um 7,1% á milli ára og námu samtals 3,1 ma. kr. á 1F22 samanborið við 2,9 ma. kr. á 1F21. Auknar tekjur í greiðslumiðlun, eignastýringu, fjárfestingarbanka og verðbréfa- og gjaldeyrismiðlun leiddu hækkunina.
  • Bankinn leggur aðaláherslu á kjarnastarfsemi og á 1F22 námu vaxta- og þóknanatekjur samanlagt 97% af rekstrartekjum samanborið við 95% á 1F21. Þessir tveir tekjuliðir jukust um 11,0% á milli 1F21 og 1F22.
  • Hrein fjármunagjöld námu 95 m.kr. á 1F22 samanborið við 293 m.kr. tekjur á 1F21.
  • Stjórnunarkostnaður nam 5,8 ma. kr. á 1F22 sem er lækkun um 0,3% frá 1F21 og má rekja til áframhaldandi hagræðingar í rekstri.
  • Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði á milli ára í 47,6% á 1F22, innan leiðbeinandi bils fyrir árið 2022, úr 51,3% á 1F21, aðallega vegna sterkrar tekjumyndunar og hagkvæmari reksturs.
  • Virðisrýrnun var jákvæð á 1F22 um 483 m.kr. og skýrist helst af batnandi útliti í ferðaþjónustu. Á 1F21 var virðisrýrnun neikvæð um 518 m.kr. Áhættukostnaður útlána (e. cost of risk) var -0,17% á ársgrundvelli á 1F22 samanborið við 0,20% á 1F21.
  • Útlán til viðskiptavina jukust um 21,6 ma. kr. á fjórðungnum, eða um 2,0% og voru 1.108 ma. kr. í lok mars 2022. Aukninguna má að mestu rekja til húsnæðislána.
  • Innlán frá viðskiptavinum jukust um 17,4 ma. kr. á fyrsta ársfjórðungi 2022 eða um 2,3% og voru 761 ma. kr. í lok mars. Aukninguna má að mestu rekja til sölu ríkisins á bankanum.
  • Lausafjárstaða bankans er áfram sterk og öll lausafjárhlutföll vel yfir innri viðmiðum bankans og kröfum eftirlitsaðila.
  • Eigið fé bankans nam 197,2 ma. kr. í lok mars 2022. Samsvarandi eiginfjárgrunnur, sem inniheldur viðbótareiginfjárþátt 1 og eiginfjárþátt 2, lækkaði úr 228 ma. kr. í 210 ma. kr. vegna samþykktar aðalfundar á 15 ma. kr. endurkaupum á eigin bréfum. Eiginfjárhlutfall bankans var 22,5%, að hagnaði 1F22 meðtöldum, samanborið við 25,3% í árslok 2021. Samsvarandi eiginfjárhlutfall almenns þáttar 1 var 18,8% samanborið við 21,3% í árslok 2021. Það er vel yfir markmiði bankans sem er ~16,5%. Lækkun eiginfjárhlutfalla á fjórðungnum skýrist af lækkun á eiginfjárgrunni og hækkun á áhættugrunni (REA).
  • Bankinn metur að umfram eigið fé eiginfjárhlutfalls almenns þáttar 1 sé nú um 35-40 ma. kr. og stefnt er að bestu samsetningu þess á næstu 12–24 mánuðum.
  • Vogunarhlutfallið var 12,4% í lok mars, að hagnaði 1F22 meðtöldum, samanborið við 13,6% í árslok 2021, sem telst hátt í alþjóðlegum samanburði.

Lykiltölur

    1F22 4F21 3F21 2F21 1F21
REKSTUR Hagnaður tímabils, m.kr. 5,187 7,092 7,587 5,431 3,615
  Arðsemi eigin fjár 10.2% 14.2% 15.7% 11.6% 7.7%
  Vaxtamunur (af heildareignum) 2.6% 2.4% 2.4% 2.4% 2.4%
  Kostnaðarhlutfall¹ 47.6% 45.3% 39.4% 49.9% 51.3%
  Áhættukostnaður útlána (0.17%) -0.23% (0.64%) -0.42% 0.20%
             
    31.3.22 31.12.21 30.9.21 30.6.21 31.3.21
EFNAHAGUR Útlán til viðskiptavina, m.kr. 1,107,893 1,086,327 1,081,418 1,089,723 1,029,415
  Eignir samtals, m.kr. 1,446,355 1,428,821 1,456,372 1,446,860 1,385,235
  Áhættuvegnar eignir, m.kr. 945,321 901,646 917,764 924,375 954,712
  Innlán frá viðskiptavinum, m.kr. 761,471 744,036 754,442 765,614 698,575
  Útlán til viðskiptavina / innlán frá viðskiptavinum 145% 146% 143% 142% 147%
  Hlutfall lána með laskað lánshæfi² 1.8% 2.0% 2.0% 2.1% 2.4%
             
             
LAUSAFÉ Fjármögnunarhlutfall (NSFR), allir gjaldmiðlar 123% 122% 121% 122% 119%
  Lausafjárhlutfall (LCR), allir gjaldmiðlar 195% 156% 225% 187% 172%
             
             
EIGIÐ FÉ Eigið fé samtals, m.kr 197,201 203,710 197,381 190,355 185,471
  Eiginfjárhlutfall almenns þáttar 13 18.8% 21.3% 20.6% 20.1% 19.2%
  Eiginfjárhlutfall þáttar 13 19.9% 22.5% 21.8% 20.1% 19.2%
  Eiginfjárhlutfall3 22.5% 25.3% 24.7% 22.9% 21.9%
  Vogunarhlutfall3 12.4% 13.6% 13.2% 12.4% 12.6%

1. Reiknað sem: (stjórnunarkostnaður + framlag í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta – einskiptisliðir) / (heildarrekstrartekjur – einskiptisliðir)
2. Stig 3, útlán til viðskiptavina, vergt bókfært virði
3. Að meðtöldum 1F22 hagnaði fyrir 31.3.22 og 3F21 hagnaði fyrir 30.9.21

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka

Við erum ánægð með afkomu bankans á fyrsta ársfjórðungi sem nam 5,2 ma. kr. Arðsemi eigin fjár var 10,2% sem er í takti við arðsemismarkmið bankans. Hreinar vaxtatekjur uxu um 12,4% miðað við sama fjórðung í fyrra og vaxtamunur tímabilsins hækkaði í 2,6%. Hreinar þóknanatekjur jukust um 7,1% miðað við sama fjórðung í fyrra sem kemur frá flestum tekjuþáttum. Kostnaður stóð í stað samanborið við sama fjórðung í fyrra þrátt fyrir 6,1% verðbólgu á fjórðungnum en markmið okkar er að kostnaður á árinu 2022 verði á svipuðum stað og í fyrra. Útlán til viðskiptavina jukust um 2% frá áramótum sem er í takt við markmið okkar um vöxt í takt við nafnhagvöxt.

Á fjórðungnum hélt ríkið áfram sölu á hlut sínum í bankanum í kjölfarið af vel heppnuðu frumútboði í fyrra og fer ríkið nú með 42,5% eignarhlut. Mikil umræða hefur skapast í samfélaginu um söluferlið og það fyrirkomulag sem notast var við. Meðal annars hefur komið fram gagnrýni á þátttöku starfsmanna bankans í útboðinu. Því tökum við alvarlega og stendur vinna yfir við breytingar á reglum bankans varðandi verðbréfaviðskipti starfsmanna.

Eins og oft hefur komið fram hefur tæknin umbylt bankaþjónustu á undanförnum árum og er ánægjulegt að sjá hversu viðskiptavinir okkar taka þeirri framþróun fagnandi. Á dögunum settum við í loftið nýjan söluvef sem einfaldar einstaklingum og lögaðilum að stofna til viðskipta, bæta við sig þjónustuþáttum og skoða vöruframboð bankans. Rafræn sala á einstaklingsmarkaði er nú um 75% af allri sölu og með þessum nýja vef erum við viss um að við náum enn betri árangri á því sviði. Þar má meðal annars finna nýjan sjálfbæran sparnaðarreikning sem hefur fengið góðar viðtökur viðskiptavina.

Útlitið fyrir árið 2022 er bjart þar sem horfur í efnahagslífinu eru góðar og benda fyrstu merki til þess að ferðaþjónustan nái aftur fyrri hæðum.

Fjárfestatengsl

Rafrænn afkomufundur verður haldinn föstudaginn 6. maí kl.8.30

Fundinum verður streymt í vefstreymi er haldið verður föstudaginn 6. maí kl. 8.30 fyrir fjárfesta og markaðsaðila. Birna Einarsdóttir, bankastjóri og Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri munu kynna afkomu bankans og helstu atriði í rekstri hans á fyrsta ársfjórðungi. Fundurinn fer fram á ensku.

Skráning á fundinn fer fram á þessari síðu. Upptaka af fundinum verður aðgengileg á síðu fjárfestatengsla að honum loknum.

Markaðsaðilar geta einnig hringt inn á fundinn og lagt fram spurningar í gegnum eftirfarandi símanúmer:

Ísland:+354 800 74 37
Danmörk:+45 354 45 577
Svíþjóð:+46 8 566 42 651
Noregur:+47 235 00 243
Bretland:+44 33 330 00 804
Bandaríkin:+1 631 913 1422

Aðgangskóði:  11682344#

Nánari upplýsingar veita:
Fjárfestatengsl – Margrét Lilja Hrafnkelsdóttir, ir@islandsbanki.is. Sími: 844 4033.

Samskiptastjóri – Edda Hermannsdóttir, pr@islandsbanki.is. Sími: 844 4005.

Póstlisti Íslandsbanka
Ef þú vilt gerast áskrifandi að kauphallarfréttum Íslandsbanka þá vinsamlegast skráðu þig hér: https://www.islandsbanki.is/is/grein/postlisti_ir

Um Íslandsbanka
Íslandsbanki er alhliða banki sem leggur áherslu á að koma til móts við þarfir viðskiptavina sinna og á sér langa sögu sem nær aftur til ársins 1875. Bankinn leggur áherslu á traustan rekstur og að hafa jákvæð áhrif í samfélaginu en hlutverk bankans er að vera hreyfiafl til góðra verka svo viðskiptavinir okkar nái árangri. Með framtíðarsýnina að vera #1 í þjónustu að leiðarljósi vinna þrjár viðskiptaeiningar þétt saman til þess að viðhalda góðum viðskiptasamböndum. Markaðshlutdeild bankans er sterk og rekur bankinn skilvirkasta útibúanetið á landinu og styður um leið við viðskiptavini sína á stafrænni vegferð þeirra. Umhverfið sem bankinn starfar í er eftirsóknarvert og er Íslandsbanki vel í stakk búinn að takast á við tækifærin framundan með öflugar tæknilegar stoðir og sterkan efnahagsreikning. Íslandsbanki er með lánshæfismatið BBB/A-2 frá S&P Global Ratings. Hlutabréf bankans eru skráð á Aðalmarkað Nasdaq Iceland.

Viðhengi



1F 2022 Frettatilkynning.pdf
1Q 2022 Factbook.pdf
1Q 2022 Factsheet.pdf
1Q 2022 Investor Presentation.pdf
ISB_Condensed Consolidated Interim Financial Statements_first quarter 2022.pdf