English Icelandic
Birt: 2022-11-01 10:00:00 CET
Nasdaq Nordic
Fjárfestatilkynningar

Nasdaq Iceland býður Amaroq Minerals Ltd. velkomið á Nasdaq First North vaxtarmarkaðinn á Íslandi

Reykjavík, 1. nóvember, 2022 — Nasdaq (Nasdaq: NDAQ) tilkynnir að auðlindafélagið  Amaroq Minerals (auðkenni: AMRQ) verður í dag skráð á Nasdaq First North Growth Market Iceland. Hlutabréf Amaroq Minerals eru fyrir skráð í TXS Venture kauphöllinni í Kanada og á AIM markaðnum í London. Félagið tilheyrir efnisvinnslugeiranum (e. Basic materials) og er 60. félagið sem tekið er til viðskipta á mörkuðum Nasdaq Nordic* í ár. 

Auðlindafyrirtækið Amaroq Minerals var stofnað árið 2017 með megináherslu á að finna gull og aðra verðmæta málma á Suður-Grænlandi, rannsaka og þróa þau svæði sem málma er að finna og vinna þessa málma úr jörðu. Verðmætasta eign Amaroq er Nalunaq svæðið, þar sem undirbúningur að vinnslu er langt kominn og vinnsluleyfi sem nær m.a. yfir Nalunaq gullnámuna sem þar var fyrir. Amaroq er einnig með leitar- og vinnsluleyfi á svæði sem nær yfir 7.866,85 ferkílómetra, það stærsta á Suður-Grænlandi og nær það yfir tvö þekkt gullbelti á svæðinu. Eitt af meginmarkmiðum Amaroq Minerals er að byggja upp sjálfbæra námuvinnslu í samstarfi við íbúa Grænlands þar sem hefðir og menning samfélagsins verða höfð í heiðri. Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Amaroq Minerals www.amaroqminerals.com

„Það er okkur heiður að Amaroq sé skráð á Nasdaq First North á Íslandi,“ sagði Eldur Ólafsson, forstjóri og stofnandi Amaroq Minerals. „Við erum mjög ánægð með frábærar viðtökur í fjármögnuninni sem lauk í undanfara skráningarinnar, þar sem bæði íslenskir og erlendir fjárfestar tóku þátt þrátt fyrir krefjandi markaðsaðstæður. Við bjóðum nýja hluthafa velkomna um borð. Þessi skráning gegnir mikilvægu hlutverki í næsta áfanga uppbyggingar okkar á Grænlandi og mun sýnileiki félagsins á Íslandi verða til þess að styrkja tengsl Íslands og Grænlands.

„Það er okkur mikil ánægja að bjóða Amaroq Minerals velkomið á Nasdaq First North Growth Market Iceland,“ sagði Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland. „Skráning Amaroq markar fyrstu skráningu auðlindafélags á Íslandi sem skapar meiri fjölbreytni á markaðnum og gefur íslenskum fjárfestum tækifæri til að fjárfesta í nýjum og áhugaverðum geira. Við hlökkum til að fylgjast með vaxtarferli Amaroq og erum ánægð með að geta stuðlað að þeim aukna sýnileika og vitund fjárfesta sem fylgir þessari skráningu.“

*Aðalmarkaðir og Nasdaq First North í Nasdaq Copenhagen, Nasdaq Helsinki, Nasdaq Iceland og Nasdaq Stockholm.

Um Nasdaq

Nasdaq (Nasdaq: NDAQ) er alþjóðlegt tæknifyrirtæki sem þjónar verðbréfamörkuðum og öðrum atvinnugeirum. Fjölbreytt framboð okkar af markaðsgögnum, greiningarvörum, hugbúnaði og þjónustu gerir viðskiptavinum okkar kleift að láta framtíðarsýn þeirra verða að veruleika. Til að fræðast meira um félagið, tæknilausnir og störf hjá okkur, smellið á LinkedIn, Twitter @Nasdaq eða www.nasdaq.com

 

         Nasdaq tengiliður:
         Kristín Jóhannsdóttir
         kristin.johannsdottir@nasdaq.com
         868 9836