Helsta úr starfseminni.
Helstu niðurstöður úr fjárhagsuppgjöri tímabilsins.
Rekstur.
Rekstrartekjur á þriðja ársfjórðungi námu 52,3 m.USD og á fyrstu 9 mánuðum ársins 2024 námu þær 120,6 m.USD samanborið við 148,5 m.USD á fyrstu 9 mánuðum ársins 2023. Loðnubrestur á vetrarvertíð 2023/2024 hafði mikil áhrif til tekjulækkunar og einnig léleg veiði á makrílvertíð.
Hagnaður á þriðja ársfjórðungi nam 9,4 m.USD og var hagnaður á fyrstu 9 mánuðum ársins 2024 því 9,7 m.USD, samanborið við hagnað upp á 37 m.USD á fyrstu 9 mánuðum ársins 2023.
Sama á við um lægri hagnað og lægri tekjur, þ.e. ástæðan er fyrst og fremst að ekki var veidd loðna á vetrarvertíðinni 2023/2024.
EBITDA framlegð á þriðja ársfjórðungi var 19,7 m.USD eða 37,7%. Á fyrstu 9 mánuðum ársins 2024 var EBITDA framlegðin 33 m.USD eða 27,3% af rekstrartekjum.
Efnahagur.
Heildareignir Ísfélagsins voru 780,2 m.USD í lok september 2024, þar af voru fastafjármunir 688,8 m.USD og veltufjármunir 91,4 m.USD.
Í árslok 2023 voru heildareignir 804,4 m.USD, þar af voru fastafjármunir 663,4 m.USD og veltufjármunir 141 m.USD. Heildareignir lækkuðu um 24,2 m.USD á fyrstu 9 mánuðum ársins 2024. Rekja má lækkunina að mestu til minnkunar birgða og lækkunar á handbæru fé.
Eigið fé Ísfélagsins var 546,6 m.USD í lok september, en var 554,2 m.USD í lok árs 2023. Eiginfjárhlutfallið var 70% í lok september, en í lok árs 2023 var eiginfjárhlutfallið 68,9%.
Langtímaskuldir og skuldbindingar voru 182,8 m.USD í lok september, en voru 201,3 m.USD í lok árs 2023. Skammtímaskuldir voru 50,8 m.USD í lok tímabilsins, en í lok árs 2023 voru þær 48,9 m.USD. Nettó vaxtaberandi skuldir félagsins voru 102,7 m.USD í lok september en voru í árslok 2023, 98,5 m.USD.
Sjóðstreymi.
Á fyrstu 9 mánuðum ársins 2024 var handbært fé frá rekstri 45,5 m.USD. Fjárfestingarhreyfingar fyrstu 9 mánuði ársins voru neikvæðar um 34,1 m.USD. Fjármögnunarhreyfingar voru neikvæðar um 34,9 m.USD. Lækkun á handbæru fé, fyrstu 9 mánuði ársins 2024 var 23,5 m.USD og var handbært fé í lok tímabilsins 20,4 m.USD.
Meginniðurstöður í íslenskum krónum fyrstu 9 mánuði ársins 2024.
Þegar helstu niðurstöður úr rekstrarreikningi tímabilsins eru færðar yfir í íslenskar krónur á meðalgengi fyrstu 9 mánuði ársins 2024 (138,02) voru rekstrartekjur félagsins 16,6 milljarðar króna, rekstrarhagnaður 3 milljarðar króna, hagnaður eftir skatta 1,3 milljarðar króna og EBITDA 4,6 milljarðar króna.
Sé staða á efnahag félagsins í lok september 2024, færð í íslenskar krónur á lokagengi tímabilsins (134,6), eru heildareignir 105 milljarðar króna, fastafjármunir 92,7 milljarðar króna og veltufjármunir 12,3 milljarðar króna. Eigið fé í lok september 2024 var 73,6 milljarðar króna og skuldir og skuldbindingar 31,4 milljarðar króna.
Kynningarfundur 29. nóvember 2024.
Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn í vefstreymi föstudaginn 29. nóvember klukkan 16:00. Streymið verður aðgengilegt á vefsíðu Ísfélagsins https://isfelag.is/streymi. Hægt er að senda spurningar á netfangið fjarfestatengsl@isfelag.is.
Frá Stefáni Friðrikssyni forstjóra
Makrílveiðar gengu illa og voru það mikil vonbrigði. Ástæðurnar voru fyrst og fremst þær að minna var af makríl bæði í íslensku lögsögunni og á alþjóðlega veiðisvæðinu milli lögsagna Íslands, Noregs og Færeyja. Auk þess bætti ekki úr skák að Sigurður VE, öflugasta uppsjávarskip félagsins, var meira og minna frá veiðum á makrílvertíðinni vegna bilana.
Veiðar á norsk-íslensku síldinni hófust í byrjun september og stóðu fram í miðjan október. Veiðar og vinnsla gengu vel.
Verð á flestöllum frosnum afurðum sem félagið framleiðir hefur hækkað og á það bæði við afurðir í bolfiski og uppsjávarfiski. Mjölverð hefur verið stöðugt en gera má ráð fyrir einhverjum lækkunum á nýju ári. Verð á lýsi hefur hins vegar lækkað umtalsvert í haust.
Sigurbjörg, nýr togari félagsins, hóf veiðar um miðjan ágúst. Í skipinu er flókinn búnaður sem ennþá er verið að slípa til en veiðigeta skipsins er í samræmi við væntingar.
Fiskvinnslu félagins í Þorlákshöfn var hætt í lok september. Ástæðurnar eru, eins og áður hefur komið fram, annars vegar að ekki eru nægar aflaheimildir til þess að vera með bolfiskvinnslu á fjórum starfsstöðvum og hins vegar aflabrestur í humarveiðum.
Afurðabirgðir félagsins minnkuðu á tímabilinu.
Heildarafli skipa félagsins fyrstu níu mánuði ársins var tæp 49.000 tonn samanborið við rúm 122.000 tonn á sama tímabili í fyrra og framleiddar afurðir voru 31.700 tonn samanborið við 66.000 tonn í fyrra.
Fjárhagsdagatal:
Birting ársuppgjörs 2024 – 27. mars 2025.
Fyrsti árfjórðungur 2025 – 27. maí 2025.
Nánari upplýsingar veitir Stefán Friðriksson, forstjóri.
Viðhengi