English Icelandic
Birt: 2023-07-26 19:23:52 CEST
Festi hf.
Árshlutareikningur - 6 mán.

Festi hf.: Afkoma á 2. ársfjórðungi 2023

Helstu niðurstöður

  • Vörusala nam 34.199 millj. kr. samanborið við 29.936 millj. kr. árið áður og jókst um 14,2% milli ára.
  • Framlegð af vöru- og þjónustusölu nam 7.756 millj. kr. og jókst um 431 millj. kr. eða 5,9% á milli ára.
  • Framlegðarstig nam 22,7% og hækkar um 1,6 p.p. frá síðasta ársfjórðungi en er 1,8.p.p. lægra en árið áður.
  • Laun og starfsmannakostnaður eykst um 21,4% milli ára en stöðugildum fjölgar um 9,7% vegna opnunar nýrra verslana á seinni helmingi síðasta árs. Þá nam einskiptiskostnaður 154 millj. kr. vegna starfsloka tengt skipulagsbreytingum á ársfjórðungnum.
  • EBITDA nam 2.562 millj. kr. samanborið við 2.911 millj. kr. á 2F 2022, sem er lækkun um 349 millj. kr.
  • Eigið fé í lok 2F 2023 nam 33.641 millj. kr. og eiginfjárhlutfall 35,5% samanborið við 36,9% í árslok 2022.
  • Handbært fé frá rekstri nam 2.859 millj. kr. samanborið við 476 millj. kr. árið áður.
  • EBITDA afkomuspá fyrir árið er óbreytt og nemur 9.750 – 10.250 millj. kr.


Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festi

Vörusala á 2F jókst um 14,2% milli ára. Bætt framlegðarstig í öllum starfsþáttum á ársfjórðungnum.

„Við höfum bætt reksturinn frá fyrsta ársfjórðungi ársins 2023 þrátt fyrir krefjandi rekstrarumhverfi vegna áhrifa verðbólgu, vaxta- og launahækkana og áframhaldandi verðhækkana á aðföngum. Vörusala jókst um 14,2% en umtalsverð aukning var í magni í dagvörusölu, eldsneytissölu og sölu á raftækjum. Fjöldi heimsókna viðskiptavina milli ára vex um 12,4,% fjöldi seldra vara um 12,8% og fjöldi seldra lítra eldsneytis eykst um 8,7%.

Framlegðarstigið á ársfjórðungnum nam 22,7% sem er hækkun um 1.6 p.p. frá síðasta ársfjórðungi og nær bætingin til allra starfsþátta rekstrarins. Mikil áhersla er lögð á lækkun rekstrarkostnaðar í því umhverfi sem nú ríkir og er unnið skipulega að því í öllum einingum. Launa- og starfsmannakostnaður hækkar um 7,9% milli ára án áhrifa fjölgunar stöðugilda og einskiptiskostnaðar vegna starfslokasamninga á ársfjórðungnum. Annar rekstrarkostnaður eykst um 5,8%. Sjóðstreymi félagsins er mjög sterkt en handbært fé frá rekstri nam 2.859 millj. kr. sem er aukning um 2.382 millj. kr. frá árinu áður.

Gerðar voru skipulagsbreytingar í lok maí mánaðar þar sem Ýmir Örn Finnbogason var ráðinn nýr framkvæmdastjóri N1 og Óðinn Árnason ráðinn framkvæmdastjóri Festi fasteigna. Breytingarnar voru gerðar m.a. til að skerpa fókus félaganna til aukins vaxtar og tryggja að fjárfestingum félagsins sé stýrt til réttra tækifæra og aukinnar verðmætasköpunar.

Samningur um kaup á öllu hlutafé Lyfju ehf. var undirritaður 13. júlí sl. en viðskiptin eru m.a. háð skilyrðum um samþykki hluthafafundar Festi sem boðað verður til í lok ágúst, og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Mikil tækifæri felast í sterku þjónustuneti um allt land, samþættingu þvert á félögin innan Festi sem og framboði breiðara úrvals nauðsynjavara á hagstæðu verði.

Horfur í rekstrinum eru góðar en framundan er mikilvægasti tími ársins í rekstri samstæðunnar. Öflugt ferðamannasumar er farið af stað og til að mæta því hefur N1 innleitt ýmsar nýjar lausnir en þar má nefna nýja sjálfsala og sjálfsafgreiðslukassa á þjónustustöðvum ásamt nýju appi fyrir síma sem auðvelda viðskipti við félagið. ELKO hefur opnað á fyrirtækjaviðskipti í gegnum ELKO.is og sala Krónunnar í gegnum Snjallverslun hefur vaxið um 80% á milli ára. Við munum sem fyrr leggja okkur fram um að bæta framlegð með hagstæðari innkaupum og ýmsum hagræðingum í rekstri viðskiptavinum og eigendum til hagsbóta,“ segir Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festi.

ViðhengiFesti hf - Afkomutilkynning 2F 2023.pdf
Festi hf - Consolidated Statements for 2023 Q2.pdf