Icelandic
Birt: 2021-06-10 15:00:00 CEST
Reykjavíkurborg
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Reykjavíkurborg – Rekstraruppgjör A-hluta janúar – mars 2021

Fjármála- og áhættustýringarsvið leggur nú fram óendurskoðað rekstraruppgjör A-hluta fyrir tímabilið janúar – mars 2021. Uppgjörið er gert í samræmi við sveitarstjórnarlög, lög um ársreikninga og reglugerð um bókhald, fjármál og ársreikninga sveitarfélaga.

Rekstrarniðurstaða A-hluta er neikvæð um 4.263 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði neikvæð um 4.575 m.kr. á tímabilinu. Niðurstaðan er því 312 m.kr betri en áætlað var. Betri rekstrarniðurstaða skýrist einkum af hærri skatttekjum sem reyndust 25.563 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir 23.545 m.kr. á þessu tímabili, á móti eru laun og launatengd gjöld tímabilsins 1.120 m.kr yfir fjárheimildum. Hærri skatttekjur skýrast einkum af meiri launahækkunum en gert var ráð fyrir. Hækkun launaútgjalda má að hluta til rekja til afleiðinga af Covid-19, sem hefur krafist hólfaskiptingar og meiri mönnunar en gert var ráð fyrir.

Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var neikvæð um 2.889 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu um 3.653 m.kr. þannig að niðurstaðan var 764 m.kr. yfir áætlun.

Rekstraruppgjörið var lagt fram í borgarráð í dag í samræmi við tímaáætlun árshlutauppgjöra á árinu 2021.

Reykjavík, 10. júní 2021

Nánari upplýsingar veitir

Halldóra Káradóttir, sviðstjóri fjármála- og áhættustýringarsviðs Reykjavíkurborgar

halldora.karadottir@reykjavik.is

Viðhengi



Rekstraruppgjor A-hluta Reykjavikurborgar januar-mars 2021.pdf