English Icelandic
Birt: 2023-02-20 10:09:00 CET
Arion banki hf.
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Arion banki: Kaupréttaráætlun starfsfólks

Í samræmi við starfskjarastefnu Arion banka hf. er í gildi kaupréttaráætlun á grundvelli 10. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 sem samþykkt var á aðalfundi bankans árið 2020 með síðari breytingum. Kaupréttaráætlunin gildir til fimm ára frá árinu 2021 til ársins 2026 og nær til allra fastráðinna starfsmanna bankans og dótturfélaganna Varðar trygginga hf. og Stefnis hf. og er markmið áætlunarinnar að samþætta hagsmuni starfsfólks við langtímahagsmuni samstæðunnar. Tilkynnt var um framkvæmd kaupréttaráætlunarinnar þann 9. febrúar 2021 og um breytingar á áætluninni þann 18. febrúar 2022 og 9. maí 2022.
 
Samkvæmt kaupréttaráætluninni getur hver starfsmaður öðlast rétt til þess að kaupa hlutabréf í bankanum, fyrir að hámarki kr. 1.500.000 á ári frá árinu 2023 til ársins 2026, en áður var hámarkskaupverð á ári kr. 600.000. Ár hvert á gildistíma áætlunarinnar, í febrúar í tilviki starfsfólks bankans og í maí í tilviki starfsfólks dótturfélaga, getur starfsfólk keypt bréf í bankanum samkvæmt kaupréttarsamningum og á sama tíma er mögulegt að gera nýja kaupréttarsamninga sem gilda árin sem eftir eru af áætluninni. Í öllum tilvikum getur kaupréttur fyrst verið nýttur þegar liðnir eru 12 mánuðir frá gerð kaupréttarsamnings. Kaupverð hluta samkvæmt kaupréttarsamningum er vegið meðalverð í viðskiptum með hlutabréf bankans tíu viðskiptadaga fyrir samningsdag.
 
Í kjölfar nýtingar kauprétta nú í febrúar og gerð nýrra kaupréttarsamninga, eru í gildi kaupréttarsamningar við starfsfólk bankans og dótturfélaga sem ná til samtals 8.243.688 hluta á ári til ársins 2026. Kaupgengi hlutanna skiptist þannig að gildandi eru árlegir kaupréttir að 2.952.540 hlutum á genginu 95,5, að 4.711.866 hlutum á genginu 153,75 og að 579.282 hlutum á genginu 170,9. Heildarfjöldi starfsfólks bankans og dótturfélaga sem gert hafa kaupréttarsamninga er 737.


Arion banki Kauprettaratlun starfsfolks.pdf