Sýn hf.: Afkomuviðvörun. Lækkun á EBIT afkomu félagsins frá fyrra ári Drög að samstæðuuppgjöri Sýnar hf. fyrir 1. ársfjórðung ársins 2024 liggja nú fyrir og verður EBIT afkoma samstæðunnar um það bil 120 m.kr., sem er umtalsverð lækkun samanborið við sama tímabil á fyrra ári (428 m.kr). Það sem veldur einkum lægri afkomu er lækkun á farsímatekjum um 138 m.kr., þá sérstaklega IoT tekjum, ásamt hærri afskriftum sýningarrétta. Eins og fram kom í árs- og árshlutareikningum félagsins fyrir árið 2023, þá var afskrift sýningarrétta lægri árið 2023 vegna endursamninga við birgja. Áhrif þess á 1. ársfjórðungi ársins 2023 námu 193 m.kr. Félagið hefur ráðist í hagræðingaraðgerðir á árinu sem munu í ríkara mæli koma fram í afkomu þess á seinni helming ársins. Frekari upplýsingar um áætluð áhrif hagræðingaaðgerða á árinu verða veittar í fréttatilkynningu í tengslum við birtingu árshlutauppgjörs félagins. Kostnaðaraðhald verður áframhaldandi verkefni félagsins á þessu ári, ásamt áherslu á aukinn vöxt og skilvirkni í rekstri. Árshlutauppgjör félagsins er enn í vinnslu og getur tekið breytingum fram að birtingu. Árshlutauppgjör 1. ársfjórðungs 2024 verður birt eftir lokun markaða þann 7. maí 2024.
|