Alma íbúðafélag hf.: Árshlutareikningur 30.6.2024Alma íbúðafélag hf.: Árshlutareikningur 30.6.2024 Á fundi sínum í dag samþykkti stjórn Ölmu íbúðafélags hf. árshlutareikning samstæðunnar fyrir fyrri árshelming 2024. Hagnaður varð af rekstri samstæðunnar á tímabilinu 1. janúar til 30. júní 2024 að fjárhæð 266 millj. kr. samkvæmt rekstrarreikningi. Eigið fé í lok júní nam 34.888 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi. Heildareignir samstæðunnar námu 110.666 millj. kr. Ingólfur Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ölmu íbúðafélags hf.: „Við erum nokkuð ánægð með rekstur félagsins á síðasta árshelmingi og erum sérstaklega þakklát fyrir góða eftirspurn viðskiptavina okkar eftir þjónustu félagsins. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingar og afskriftir jókst um 437millj. kr. eða 28% og var tæplega 2 milljarðar kr. Sá rekstrarbati skýrist að mestu af útleigu á nýbyggðu atvinnuhúsnæði sem var ekki tekjuberandi á fyrri hluta síðasta árs. Eftirspurn eftir leigu íbúðarhúsnæðis var sterk á tímabilinu og þrátt fyrir að íbúðir okkar í Grindavík séu algjörlega ótekjuberandi þá hélst afkoma af leigu íbúðarhúsnæði nokkuð stöðug milli ára. Miðað við núverandi vaxtastig gerum við ráð fyrir að framboð á nýju íbúðarhúsnæði muni ekki halda í við aukna eftirspurn a.m.k. næstu 2-3 árin og því teljum við að leigumarkaður íbúðarhúsnæðis haldist sterkur næstu misserin. Ný húsaleigulög tóku gildi um síðustu mánaðarmót og það er ákveðin óvissa um hvernig þeim mun verða framfylgt af Kærunefnd húsamála. Félagið hefur því aðlagað þjónustuframboð sitt til að mæta þessari réttaróvissu og hefur hætt að bjóða aðra leigusamning en til 13 mánaða, en áður bauð Alma upp á leigusamninga til allt að fimm ára.“ Nánari upplýsingar veitir Ingólfur Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri, ingolfur@al.is
|