Published: 2016-01-28 17:43:46 CET
Origo hf.
Reikningsskil

Ársuppgjör Nýherja hf. 2015 - EBITDA Nýherja milljarður á árinu 2015

Tekjur aukast um 15% á milli ára og heildarhagnaður ársins er 328 mkr

Helstu upplýsingar:

  • Vöru- og þjónustusala í F4 nam 3.663 mkr og 13.332 mkr árið 2015 (15,1 % tekjuvöxtur frá árinu 2014) [F4 2014: 3.315, árið 2014: 11.572 mkr]
  • Framlegð nam 956 mkr (26,1%) í F4 og 3.421 mkr (25,7%) árið 2015 [F4 2015: 840 mkr (25,3%), árið 2014 3.012 mkr (26,0%)]
  • Heildarhagnaður í F4 nam 135 mkr og 328 mkr árið 2015 [F4 2014: 122 mkr, árið 2014: 259 mkr]
  • EBITDA nam 315 mkr (8,6%) í F4 og 1.008 (7,6%) árið 2015 [F4 2014: 241 mkr (7,3%), árið 2014: 827 (7,1%)]
  • Jákvæð rekstrarafkoma var hjá öllum félögum samstæðunnar árið 2015
  • Töluverð umframeftirspurn var eftir hlutabréfum í Nýherja í hlutafjárútboði sem lauk í desember
  • Eiginfjárhlutfall 28,0% í lok árs 2015 en var 16,7% í lok árs 2014
  • Veltufjárhlutfall 1,52 í lok árs 2015 en var 1,27 í lok árs 2014

 

Finnur Oddsson, forstjóri:

„Síðastliðið rekstrarár var eitt það besta í sögu Nýherja. Tekjuaukning á milli ára var 15% og afkoma góð.  Það er einnig ánægjulegt að afkoma allra rekstrareininga og dótturfélaga var jákvæð á árinu. Hjá Nýherja móðurfélagi hefur nýtt skipulag frá í fyrra gefist vel og m.a. stuðlað að tekjuaukningu og bættu þjónustustigi. Mikill tekjuvöxtur var áfram hjá TEMPO og horfur til að svo verði áfram. Vöxtur var sömuleiðis í tekjum hjá TM Software og afkoma umfram væntingar. Samstarf Applicon félaganna á Íslandi og í Svíþjóð hefur svo skilað góðum árangri, m.a. í áhugaverðum verkefnum og nýjum sölutækifærum fyrir bankalausnir.

Við erum ánægð með að rekstur Nýherja hefur nú náð ákveðnum stöðugleika, en afkoma hefur verið jákvæð í átta fjórðunga í röð. Á þessum tíma hefur okkur jafnframt tekist að efla þjónustu við viðskiptavini, sem er ávallt í forgangi hjá okkur. Sterkari efnahagur félagsins hefur svo gert okkur kleift að fjárfesta í uppbyggingu þekkingar, aðbúnaði fyrir starfsfólk og þróun lausna og eigin hugbúnaðar sem munu standa undir þjónustutekjum í framtíðinni. Félagið er jafnframt betur í stakk búið að bregðast við breyttum þörfum viðskiptavina, sem eru til komnar vegna tölvuskývæðingar og notkun á upplýsingatækni sem þjónustu.

Við höfum undanfarið ár fundið áþreifanlega fyrir auknum áhuga á Nýherja, sem endurspeglast m.a. í verulegri hækkun á gengi hlutabréfa á aðallista Kauphallar og umframeftirspurn eftir bréfum félagsins í hlutafjárútboði í desember. Þessa tiltrú fjárfesta lítum við á sem merki um að Nýherji og dótturfélög séu á réttri leið, sem við munum reyna að feta áfram á næstu misserum. Markmið okkar er það sama og áður, að sjá viðskiptavinum okkar fyrir snjöllum upplýsingatæknilausnum á hagkvæman og öruggan hátt.“

 

Nánari upplýsingar

Finnur Oddsson forstjóri í síma 862-0310 eða fo@nyherji.is og Gunnar Petersen framkvæmdastjóri fjármálasviðs í síma 825-9001 eða gp@nyherji.is.

 

 


Nyherji hf. arsreikningur 31.12.2015.pdf
2016.01.28 - Frettatilkynning vegna arsuppgjors Nyherja hf.pdf