Icelandic
Birt: 2022-09-01 15:00:00 CEST
Reykjavíkurborg
Árshlutareikningur - 6 mán.

Reykjavíkurborg - Árshlutareikningur janúar - júní 2022

Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta Reykjavíkurborgar var jákvæð um 13.170 m.kr. en áætlanir gerðu ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 3.364 m.kr.  Rekstrarniðurstaðan var því 9.805 m.kr. betri en gert var ráð fyrir.  Betri rekstrarniðurstöðu má einkum rekja til matsbreytinga fjárfestingaeigna hjá Félagsbústöðum. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 8.060 m.kr. sem er 1.014 m.kr. lakari niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir.

Heildareignir A- og B-hluta samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi námu í lok júní 818.455 m.kr., heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 420.141 m.kr. og eigið fé var 398.315 m.kr. en þar af var hlutdeild meðeigenda 14.686 m.kr.  Eiginfjárhlutfallið er nú 48,7% en var 48,5% um síðustu áramót.

Rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um 8.893 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði neikvæð um 4.811 m.kr. Niðurstaðan var því 4.081 m.kr. lakari en gert var ráð fyrir. Tekjur voru 1.493 m.kr. yfir áætlun en rekstrarútgjöld voru 3.365 m.kr. yfir fjárheimildum. Þá voru nettó fjármagnsgjöld 2.209 m.kr. hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var neikvæð um 4.552 m.kr. sem var 1.872 m.kr. lakari niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir.

Heimsfaraldur af völdum COVID-19 veirunnar hafði mikil áhrif á rekstur Reykjavíkurborgar. Hröð kólnun í hagkerfinu og á vinnumarkaði leiddi til þess að tekjur borgarinnar voru töluvert undir áætlun árin 2020 og 2021. Vonir stóðu til þess að viðsnúningur yrði kröftugur á árinu 2022 og að hagkerfi heimsins kæmust á sama stað og fyrir faraldur. Þrátt fyrir að vel hafi gengið að ná atvinnuleysi niður hafa stríðsátök og viðvarandi vandamál í aðfangakeðjum sett hagkerfi heimsins í uppnám. Verðbólga mælist mun hærri en spáð var, bæði hérlendis sem og í öllum helstu viðskiptalöndum Íslands. Þá hefur óvissa á fjármálamörkuðum aukist mikið sem m.a. hefur endurspeglast í lækkun hlutabréfaverðs og hækkandi ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði. Þessi breytta staða í ytra umhverfi endurspeglast í rekstrarniðurstöðu borgarinnar á tímabilinu.

Samhliða samantekt á árshlutareikningi hefur staða framkvæmda á fjárfestingaáætlun ársins verið yfirfarin og endurmetin. Vegna aukinnar þenslu í hagkerfinu hefur á árinu verið talsvert um ófyrirséðar seinkanir á verkum og fyrirséð að fjárfestingaáætlun ársins mun ekki standast. Í mörgum tilfellum hefur þátttaka í útboðum verið dræm eða tilboð verið langt frá kostnaðaráætlun og ekki staðist væntingar. Það er mat Eignaskrifstofu Reykjavíkurborgar að fjárfestingar ársins verði að fjárhæð um 25.000 m.kr. eða 7.500 m.kr. lægri en áætlun ársins gerði ráð fyrir. Lögð var fram tillaga í borgarráði í dag um lækkun fjárfestingaáætlunar ársins sem því nemur.

Borgarráð samþykkti í dag rammaúthlutun fyrir árið 2023 þar sem svið borgarinnar eru hvött til aðhalds í rekstri um leið og grænar áherslur, sjálfbærni til lengri og skemmri tíma, betri rekstur og skilvirk þjónusta verði höfð að leiðarljósi. Gert er ráð fyrir hagræðingu sem nemur 1% af launakostnaði og unnar verða nýjar reglur um ráðningar og fyrirkomulag um eftirfylgni með þeim. Jafnframt samþykkti borgarráð að skipa aðgerðarteymi vegna fjárhagslegra samskipta við ríkið, en umtalsvert hallar á að lögbundnum verkefnum sveitarfélaga hafi fylgt fjármagn til rekstrar með fullnægjandi hætti.

Reykjavík, 1. september 2022.

Nánari upplýsingar veitir
Halldóra Káradóttir
sviðsstjóri fjármála- og áhættustýringarsviðs
halldora.karadottir@reykjavik.is

ViðhengiArshlutareikningur Reykjavikurborgar januar-juni 2022.pdf
Skyrsla fjarmala- og ahttustyringarsvis me arshlutauppgjori Reykjavikurborgar januar-juni 2022.pdf