Icelandic
Birt: 2022-08-24 18:59:33 CEST
Kaldalón hf.
Breytingar á hlutafé og vægi atkvæða

Kaldalón hf.: Hækkun hlutafjár með útgáfu nýrra hluta til hæfra fjárfesta

Stjórn Kaldalóns hefur í dag ákveðið að nýta heimild sína í grein 2.3 í samþykktum félagsins, sem samþykkt var á hluthafafundi hinn 25. maí 2022 þar sem hluthafar Kaldalóns samþykktu að falla frá forgangsrétti að nýju hlutafé, og hækka hlutafé Kaldalóns með útgáfu á 2.222.222.222 nýjum hlutum í félaginu sem nemur 28% af útgefnu hlutafé. Samtals útgefnir hlutir í Kaldalóni eftir hækkunina eru 10.066.219.201.

Tilgreindir hæfir fjárfestar sem samanstanda af lífeyrissjóðum, verðbréfasjóðum, vátryggingafélögum og fjármálafyrirtækjum hafa skráð sig fyrir hinu nýja hlutafé í dag á genginu 1,8. Sölugengið nemur meðalgengi Kaldalóns á First North við lok markaða síðustu 10 viðskiptadaga. Heildarsöluverð hinna nýju hluta nemur kr. 4.000.000.000.

Markmið hlutafjárhækkunarinnar er að efla félagið fyrir komandi vöxt og tryggja sterka lausafjárstöðu þess.

Arion banki og ACRO verðbréf önnuðust framkvæmd á sölu hlutafjárins. Hinir nýju hlutir verða gefnir út rafrænt og teknir til viðskipta á First North að fenginni staðfestingu hækkunarinnar hjá Fyrirtækjaskrá og Nasdaq verðbréfamiðstöð. LEX annaðist lögfræðiráðgjöf.

Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Kaldalóns:

„Ég er afar ánægður með útgáfu nýs hlutafjár til fjárfesta í dag. Það að félagið hafi í dag selt hlutafé fyrir 4 milljarða og aukið þar með hlutafé um 28% er til marks um það að fjárfestar hafi trú á þeirri vegferð sem félagið er á. Einnig er ég ánægður með að hafa breikkað hluthafahópinn með svo afgerandi þátttöku stofnanafjárfesta.

Kaldalón kynnti í gær árshlutauppgjör og markmið félagsins á næstu misserum um áframhaldandi vöxt. Innkoma nýrra fjárfesta í félagið er mikilvægur áfangi í þeirri framtíðarsýn og í kjölfar hlutafjárhækkunarinnar er félagið með afar sterka lausafjárstöðu og vel í stakk búið til að grípa þau fjárfestingatækifæri sem gætu skapast á næstunni.

Við bjóðum nýja hlutahafa velkomna í hópinn.“