English Icelandic
Birt: 2024-06-24 10:15:00 CEST
Marel hf.
Fyrirtækjafréttir

Marel: JBT leggur fram valfrjálst yfirtökutilboð til hluthafa Marel - Stjórn Marel mælir með samþykkt tilboðs í greinargerð sinni

Í dag tekur gildi valfrjálst yfirtökutilboð John Bean Technologies Corporation („JBT“) til hluthafa Marel hf. („Marel“ eða „félagið“) í allt útgefið og útistandandi hlutafé í félaginu í samræmi við ákvæði laga nr. 108/2007 um yfirtökur.

Yfirtökutilboðið er byggt á skilmálum og skilyrðum sem sett eru fram í opinberu tilboðsyfirliti dagsettu í dag 24. júní 2024, sem samþykkt hefur verið af Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands. JBT hefur einnig birt lýsingu vegna tilboðsins og fyrirhugaðrar töku þeirra hlutabréfa JBT sem gefin verða út í tengslum við tilboðið til viðskipta á aðalmarkaði Nasdaq Iceland. Tilboðsyfirlitið og lýsingin eru í viðhengi, en eru jafnframt aðgengileg á tilboðsvef Arion banka.

Jákvætt álit í greinargerð stjórnar Marel 
Stjórn Marel hefur birt greinargerð stjórnar með rökstuddu jákvæðu áliti hvað varðar tilboðið og skilmála þess, í samræmi við ákvæði yfirtökulaga og samningsins milli Marel og JBT um viðskiptin frá 4. apríl 2024. Í greinargerðinni kemur fram að það sé samhljóða álit stjórnar að (i) styðja tilboðið, þar með talið tilboðsverðið og aðra skilmála þess, (ii) mæla með því að hluthafar Marel samþykki tilboðið, og (iii) fyrirhuguð sameining félaganna hafi jákvæð áhrif er varðar hagsmuni Marel og starfsmanna félagsins.
 
Við undirbúning greinargerðarinnar fékk stjórn Marel ráðgefandi álit frá J.P. Morgan og Rabobank varðandi sanngirni endurgjalds til hluthafa í fyrirhuguðu yfirtökutilboði út frá fjárhagslegu sjónarmiði. Álitin miðast við tiltekna dagsetningu, forsendur, hæfni og takmarkanir ásamt öðrum þáttum sem settir eru fram í slíkum álitum.
 
Arnar Þór Másson, stjórnarformaður Marel:
„Ég er ákaflega stoltur af félaginu, þeim góða árangri sem náðst hefur með stefnu Marel og okkar mikilvæga hlutverki við að umbylta matvælavinnslu á heimsvísu. Stjórn Marel hefur að vel ígrunduðu máli lagt mat á það, með aðstoð óháðra ráðgjafa, hvaða þýðingu sameinað félag, JBT Marel Corporation, hefur fyrir hluthafa Marel og aðra hagaðila. Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að góð rök séu fyrir sameiningu félaganna og tilboðið hafi í för með sér mikil sóknarfæri sem hafi jákvæð áhrif á hagsmuni Marel og hagaðila þess. Þar af leiðandi styður stjórn Marel einróma tilboð JBT í allt hlutafé félagsins og veitir jákvæða umsögn sína. Saman getum við þjónustað viðskiptavini enn betur með metnaðarfullum hópi starfsmanna beggja megin, auk þess að njóta góðs af aukinni stærðarhagkvæmni, breiðara vöruúrvali og víðfeðmu þjónustuneti. Sameinað félag, sem leiðtogi á heimsvísu í hátæknilausnum fyrir matvæla- og drykkjarvöruiðnaðinn, getur aukið sjálfbærni í okkar iðnaði og í hnotskurn haft enn jákvæðari áhrif á sjálfbærari vinnslu matvæla. Ég er sérstaklega ánægður með að ná öllu þessu fram og um leið byggja á einstakri arfleifð Marel.”  
 
 Fjárfestakynning á Íslandi og beint streymi mánudaginn 24. júní
JBT og Marel munu halda opinn fjárfestafund mánudaginn 24. júní 2024 kl. 13:00 á íslenskum tíma í höfuðstöðvum Arion Banka í Borgartúni 19, Reykjavík. Fundurinn mun fara fram á ensku og verður jafnframt í beinu streymi sem aðgengilegt verður á fjárfestasíðum JBT, Marel og á vef Arion banka.
 
Á fundinum munu Árni Sigurðsson, forstjóri Marel, Brian Deck, forstjóri JBT, og Matt Meister, fjármálastjóri JBT, fara yfir helstu atriði tilboðsins, færa rök fyrir sameiningunni og lýsa þeim sóknarfærum og framtíðarsýn sem sameinað félag myndi búa yfir. Einnig verður boðið upp á spurningar.
Skrá þarf mætingu á fundinn fyrir fram þar sem húsrúm er takmarkað, en skráning fer fram hér: Skráning á fjárfestafund JBT og Marel.
 
Gildistími tilboðs og tímalína
Gildistími tilboðsins hefst þann 24. júní 2024 og rennur út kl. 17:00 að íslenskum tíma þann 2. september 2024 (en mögulegt er að framlengja gildistímann eftir atvikum samkvæmt viðskiptasamningi sem JBT og Marel gerðu með sér þann 4. apríl 2024 og ákvæðum yfirtökulaga og bandarískrar verðbréfamarkaðslöggjafar).
 
Viðskiptin eru gerð með fyrirvara um að hefðbundin skilyrði hafi verið uppfyllt, þar með talið samþykki frá viðeigandi eftirlitsaðilum, samþykki hluthafa Marel og samþykki hluthafa JBT, og gert er ráð fyrir að viðskiptin verði frágengin fyrir árslok 2024.
 
Spurningar hluthafa um tilboðsferlið
Þeir hluthafar sem eiga hlutabréf í félaginu skráð hjá Nasdaq Iceland hf. geta haft samband við Arion banka hf. með spurningar í tengslum við samþykktarferli og/eða uppgjör tilboðsins á netfangið assistance.marel2024@arionbanki.is.
 
Þeir hluthafar sem eiga hlutabréf í félaginu skráð á Euronext Amsterdam skulu hafa samband við sinn vörsluaðila til þess að nálgast upplýsingar um samþykktarferli og/eða uppgjör tilboðsins. Vörsluaðilar og hluthafar geta haft samband við ABN AMRO Bank N.V. með spurningar á netfangið corporate.broking@nl.abnamro.com.
 
 Marel hefur ráðið J.P. Morgan sem fjármálaráðgjafa og jafnframt fengið Rabobank til að gefa stjórn félagsins sjálfstætt álit varðandi sanngirni á greiðslu til hluthafa í fyrirhuguðu yfirtökutilboði. Lagalegir ráðgjafar eru Baker McKenzie (Bandaríkin), BBA/Fjeldco (Ísland), og Osborne Clarke (Holland).
 
Fjárfestatengsl
Nánari upplýsingar veita fjárfestatengsl Marel í gegnum netfangið ir@marel.com og í síma 563 8001.


JBT Marel Prospectus June 2024.pdf
JBT Marel Reasoned Statement Of The Board Of Directors June 2024.pdf
JBT Marel Samantekt Lysingar Juni 2024.pdf
JBT Marel Tilbosyfirlit Juni 2024.pdf