Alvotech selur hlutabréf fyrir 19,5 milljarða króna í lokuðu útboði til innlendra fagfjárfestaAlvotech (NASDAQ: ALVO) tilkynnti í dag að félagið hefði gengið frá sölu hlutabréfa fyrir um 19,5 milljarða króna (137 milljónir Bandaríkjadala, miðað við núverandi gengi íslenskrar krónu), með sölu almennra hlutabréfa í félaginu í lokuðu útboði, á genginu 1.650 krónur á hlut (ígildi 11,57 Bandaríkjadala á hlut) til hóps innlendra fagfjárfesta og viðurkenndra gagnaðila í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2014/65. Kaupendur munu fá afhent áður útgefin hlutabréf sem eru í eigu Alvotech í gegnum dótturfélagið Alvotech Manco ehf. Hlutafjárútboðið hófst 19. janúar sl. og því lauk 22. janúar sl. Gert er ráð fyrir að uppgjör viðskiptanna og afhending bréfa fari fram 10. febrúar nk. Alvotech hyggst nota söluandvirði hlutabréfanna í almennan rekstur og til annarra þarfa félagsins. Ráðgjafar Alvotech í útboðinu voru Landsbankinn og ACRO verðbréf. Um Alvotech Alvotech, stofnað af Róberti Wessman stjórnarformanni og forstjóra fyrirtækisins, er líftæknifyrirtæki sem einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Alvotech stefnir að því að verða leiðandi fyrirtæki á sviði líftæknihliðstæðulyfja. Til að tryggja hámarksgæði eru allir þættir í þróun og framleiðslu í höndum fyrirtækisins. Alvotech vinnur að þróun átta líftæknilyfjahliðstæða sem nýst geta sjúklingum með sjálfsofnæmis-, augn- og öndunarfærasjúkdóma, beinþynningu eða krabbamein. Alvotech hefur gert samninga um sölu, markaðssetningu og dreifingu við samstarfsaðila á öllum helstu mörkuðum, í Bandaríkjunum, Evrópu, Japan, Kína, öðrum hlutum Asíu, Rómönsku-Ameríku, Afríku og Mið-Austurlöndum. Meðal samstarfsaðila Alvotech eru Teva Pharmaceuticals, dótturfélag Teva Pharmaceutical Industries Ltd. (markaðsaðili í Bandaríkjunum), STADA Arzneimittel AG (Evrópa), Fuji Pharma Co., Ltd (Japan), Cipla/Cipla Gulf/Cipla Med Pro (Ástralía, Nýja Sjáland, Afríka), JAMP Pharma Corporation (Kanada), Yangtze River Pharmaceutical (Group) Co., Ltd. (Kína), DKSH (Taívan, Hong Kong, Kambódía, Malasía, Singapore, Indonesía, Indland, Bangladess og Pakistan), YAS Holding LLC (Miðausturlönd og Norður Afríka), Abdi Ibrahim (Tyrkland), Kamada Ltd. (KMDA; Ísrael), Mega Labs, Stein, Libbs, Tuteur and Saval (Rómanska-Ameríka) og Lotus Pharmaceuticals Co., Ltd. (Taíland, Víetnam, Filippseyjar og Suður-Kórea). Alvotech, fjárfestatengsl og samskiptasvið Benedikt Stefánsson alvotech.ir[at]alvotech.com
|