VÍS: Sameining VÍS og FossaVátryggingafélag Íslands (VÍS) og hluthafar Fossa fjárfestingarbanka (Fossar) hafa nú undirritað kaupsamning um kaup VÍS á öllu hlutafé í Fossum. Kaupin eru gerð á grundvelli viljayfirlýsingar um sameiningu félaganna. Í kaupsamningi kemur fram að hluthafar Fossa fái 245 milljón nýja hluti í VÍS sem endurgjald, eða sem nemur 12,62% hlutafjár í VÍS eftir hlutafjáraukningu, en nýtt hlutafé yrði háð sölubanni seljenda í þrjú ár frá uppgjöri. Kaupin eru háð skilyrðum, svo sem samþykki eftirlitsstofnana og samþykki hluthafafundar VÍS. Nái viðskiptin fram að ganga verður sameinað félag öflugt fyrirtæki á fjármálamarkaði með víðtækar starfsheimildir til fjármálaþjónustu og í ákjósanlegri stöðu til sóknar. Sameinað félag byggir á 106 ára sögu, breiðum viðskiptamannagrunni, sterkum efnahagi og er með víðtæk tengsl við atvinnulíf og fjármálamarkaði. Þetta eru öflugir innviðir fyrir framúrskarandi þjónustu á sviði trygginga, fjárfestingarbanka, einkabanka, sjóða- og eignastýringar og annarrar sérhæfðrar fjármálaþjónustu. Horft er til þess að áhrif af sameiningu felist fyrst og fremst í tækifærum til vaxtar og sóknar frekar en kostnaðarhagræðingu. Þegar viðskiptin eru frágengin verður Haraldur Þórðarson ráðinn forstjóri VÍS samhliða Guðnýju Helgu Herbertsdóttur. Haraldur mun bera ábyrgð á framtíðarskipulagi samstæðunnar, fjármögnun og þróun fjármálastarfsemi og mun Guðný Helga bera ábyrgð á tryggingarekstri. Framtíðarskipulag samstæðunnar er enn í mótun en þar verður lögð áhersla á arðsaman vöxt, að auka og efla tekjustoðir, stjórnarhætti og samnýtingu rekstrarþátta. Stefnt er að því að Haraldur Þórðarson stýri rekstri samstæðunnar, Guðný Helga Herbertsdóttir stýri tryggingarekstrinum, Steingrímur Arnar Finnsson fjárfestingarbankastarfseminni og Arnór Gunnarsson SIV eignastýringu. Hluthafafundur VÍS verður boðaður innan þriggja vikna þar sem óskað verður eftir samþykki hluthafa. Með fundarboðinu munu fylgja ítarlegar upplýsingar um forsendur kaupanna, áherslur og framtíðarsýn félaganna. Stefán Héðinn Stefánsson, stjórnarformaður VÍS: „Við leggjum ríka áherslu á að VÍS taki virkan þátt í hraðri þróun fjármálastarfsemi hér á landi og nýti tækifæri til vaxtar. VÍS er í góðri stöðu til þess og byggir á traustum grunni. Við fögnum því að samningar hafi náðst milli VÍS og Fossa því ég tel að sameiningin muni styrkja félögin og efla tekjustoðir þeirra. Framundan eru því spennandi tímar hjá sameinuðu félagi.“ Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa fjárfestingarbanka: „Það er mikið gleðiefni að þessi öflugu félög leiði nú saman hesta sína og leggi grunninn að leiðandi fjármálafyrirtæki. Sameinað félag mun búa að langri og farsælli sögu í tryggingarekstri, framsækni í fjármálaþjónustu og verður í sterkri stöðu til frekari vaxtar á íslenskum fjármálamarkaði. Framundan er spennandi verkefni sem felst í því að virkja styrkleika beggja félaga til áframhaldandi sóknar á sviði tryggingarekstrar, eignastýringar og fjárfestingarbankastarfsemi.” Frekari upplýsingar veitir: Erla Tryggvadóttir, samskiptastjóri VÍS, í síma 660-5260 og með tölvupósti erlat@vis.is
|