Alvotech gengur frá samningi við alþjóðlega fjárfesta um endurfjármögnun skuldaAlvotech (NASDAQ: ALVO) tilkynnti í dag að félagið hafi gert samning um endurfjármögnun skulda við GoldenTree Asset Management, bandarískt eignastýringarfyrirtæki, sem fer fyrir hópi alþjóðlegra stofnanafjárfesta. Lánafyrirgreiðslan gerir Alvotech kleift að draga úr fjármagnskostnaði, endurfjármagna lán sem eru með lokagjalddaga á næsta ári og styrkja lausafjárstöðu sína.
Lánveitendur eru alþjóðlegir stofnanafjárfestar með mikla reynslu af fjármögnun og þekkingu á fyrirtækjum í heilbrigðisgeiranum. Lánafyrirgreiðslan staðfestir traust þeirra á rekstri og framtíðaráætlunum Alvotech. Samningurinn er um lánafyrirgreiðslu að fjárhæð allt að 965 milljónum Bandaríkjadala. Gert er ráð fyrir að útgreiðsla verði í júlí 2024. Fyrri hluti, lán að fjárhæð 900 milljónir Bandaríkjadala ber 6,5% álag á SOFR (millibankavexti í dollurum), en Alvotech hefur einnig rétt til að draga á 65 milljónir til viðbótar og ber sá hluti lánsins 10,5% álag á SOFR. Lánið er á fyrsta veðrétti, til fimm ára, með lokagjalddaga í júní 2029. Alvotech ætlar að nýta lánið til þess að endurfjármagna útistandandi skuldir, þar með talið þau lán sem eru með lokagjalddaga á næsta ári. Eftirstöðvunum verður varið til að styrkja lausafjárstöðu félagsins. „Með þessari lánafyrirgreiðslu aukum við sveigjanleika í fjármögnun og styðjum við áætlanir félagsins um vöxt á næstu árum. Við búumst við umtalsverðri tekjuaukningu samhliða markaðssetningu á fjölbreyttara úrvali lyfja, öflugri sókn á alþjóðlega markaði og áframhaldandi þróun á nýjum líftæknilyfjahliðstæðum. Endurfjármögnun lána með gjalddaga á næstu misserum auðveldar okkur að hrinda í framkvæmd áætlunum um vöxt bæði til skemmri og lengri tíma,“ sagði Joel Morales, fjármálastjóri Alvotech. Um Alvotech Alvotech, stofnað af Róberti Wessman, er líftæknifyrirtæki sem einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Alvotech stefnir að því að verða leiðandi fyrirtæki á sviði líftæknihliðstæðulyfja. Til að tryggja hámarksgæði eru allir þættir í þróun og framleiðslu í höndum fyrirtækisins. Alvotech vinnur meðal annars að þróun líftæknilyfjahliðstæða sem nýst geta sjúklingum með sjálfsofnæmis-, augn- og öndunarfærasjúkdóma, beinþynningu eða krabbamein. Alvotech hefur gert samninga um sölu, markaðssetningu og dreifingu við samstarfsaðila á öllum helstu mörkuðum, í Bandaríkjunum, Evrópu, Japan, Kína, öðrum hlutum Asíu, Rómönsku-Ameríku, Afríku og Mið-Austurlöndum. Meðal samstarfsaðila Alvotech eru Teva Pharmaceuticals, dótturfélag Teva Pharmaceutical Industries Ltd. (markaðsaðili í Bandaríkjunum), STADA Arzneimittel AG (Evrópa), Fuji Pharma Co., Ltd (Japan), Advanz Pharma (EES, Bretland, Sviss, Kanada, Ástralía og Nýja Sjáland), Cipla/Cipla Gulf/Cipla Med Pro (Ástralía, Nýja Sjáland, Afríka), JAMP Pharma Corporation (Kanada), Yangtze River Pharmaceutical (Group) Co., Ltd. (Kína), DKSH (Taívan, Hong Kong, Kambódía, Malasía, Singapore, Indonesía, Indland, Bangladess og Pakistan), YAS Holding LLC (Miðausturlönd og Norður Afríka), Abdi Ibrahim (Tyrkland), Kamada Ltd. (KMDA; Ísrael), Mega Labs, Stein, Libbs, Tuteur and Saval (Rómanska-Ameríka) og Lotus Pharmaceuticals Co., Ltd. (Taíland, Víetnam, Filippseyjar og Suður-Kórea). Alvotech, fjárfestatengsl og samskiptasvið Benedikt Stefánsson, forstöðumaður alvotech.ir@alvotech.com
|